Fréttablaðið - 19.08.2009, Blaðsíða 10

Fréttablaðið - 19.08.2009, Blaðsíða 10
10 19. ágúst 2009 MIÐVIKUDAGUR greinar@frettabladid.is FRÁ DEGI TIL DAGS FRÉTTABLAÐIÐ Skaftahlíð 24, 105 Reykjavík SÍMI: 512 5000, ritstjorn@frettabladid.is FRÉTTASTJÓRAR: Arndís Þorgeirsdóttir arndis@frettabladid.is, Kristján Hjálmarsson, kristjan@frettabladid.is Trausti Hafliðason trausti@frettabladid.is og Höskuldur Daði Magnússon (dægurmál) hdm@frettabladid.is MENNING: Páll Baldvin Baldvinsson fulltrúi ritstjóra pbb@frettabladid.is VIÐSKIPTARITSTJÓRI: Óli Kr. Ármannsson olikr@markadurinn.is HELGAREFNI: Anna Margrét Björnsson amb@frettabladid.is og Sigríður Björg Tómasdóttir sigridur@frettabladid.is ALLT OG SÉRBLÖÐ: Roald Eyvindsson roald@frettabladid.is og Sólveig Gísladóttir solveig@frettabladid.is ÍÞRÓTTIR: Henry Birgir Gunnarsson henry@frettabladid.is LJÓSMYNDIR: Pjetur Sigurðsson pjetur@frettabladid.is FRAMLEIÐSLUSTJÓRI: Kolbrún Ingibergsdóttir kolbrun@frettabladid.is Á síðustu tveimur áratugum síðustu aldar, einkum á árunum 1990-2000, var eitt mesta hagsældarskeið í sögu þjóðar- innar. Gífurleg hagræðing varð í sjávarútvegi í kjölfar kvótakerfisins og tækniþróunar. Samgöngufyrirtæki landsmanna nutu trausts og stóðu yfirleitt fjárhagslega sterk. Enginn efaðist um styrk íslensku bankanna og þeir gátu átt viðskipti um allan heim. Tryggingafélög voru með öfluga bótasjóði og voru eignaraðilar að traustum fyrirtækjum. Íslenskur iðnaður stóð ágætlega og íslensk hátæknifyrirtæki vöktu athygli víða um heim. Við nutum alls staðar virðingar fyrir snerpu og áreiðanleika í viðskiptum og vorum í flokki þjóða með hæstu þjóðartekjur á mann. Hlutabréfa- markaðurinn var í vexti og almenningur hafði trú á hlutabréfum sem sparnaðarformi. Við vorum í góðum tengslum við nágrannaþjóðir okkar og á góðri leið með að vera fyrirmyndarsamfélag. Árið 2003-2004 komust til valda í íslensku atvinnulífi nýir (og gaml- ir) víkingar sem boðuðu uppbrot atvinnulífsins, skuldsetningu og útrás, þar sem engu var eirt. Áhættusæknir stjórnendur voru ráðnir í stað þeirra sem boðuðu ráðdeild og rekstrarlega heilbrigð sjónarmið. Markmiðið var að ná yfirráðum í stærstu fyrirtækjum landsins og stokka þau upp án tillits til afleiðinganna. „Drekkum í dag, iðrumst á morgun“ gætu hafa verið kjörorðin. En hafa menn iðrast? Á aðeins fimm árum tókst nánast að koma íslensku þjóðinni í þrot. Eyðileggingin er skelfileg. Sölusamtök í sjávarútvegi lentu sum í miklum erfiðleikum. Sama gildir um stærsta flugfélag og skipafélag landsmanna. Nokkur tryggingafélög voru dregin með í útrásina með mikilli skuldsetningu. Mörg sjávarútvegsfyrirtæki urðu fórnarlömb aukinna skulda. Í stað varfærinna sjónarmiða var fyrsta spurning þeirra sem öllu réðu: „Hvað er hægt að skuldsetja fyrirtækið mikið?“. Að lokum fór bankakerfið sjálft í þrot og flest öll fyrirtæki í landinu eru nú í miklum erfiðleikum. Fyrir þá sem bera ábyrgð á þessum óhæfuverkum og siðrofi er mikilvægt að biðjast afsökunar til að geta búið hér á landi áfram í sæmilegri sátt. Auðvitað liggur ekki alltaf í augum uppi hverjir bera ábyrgð og verður hver og einn að gera það upp við sig. Það skiptir máli að þeir sem fóru of geyst axli ábyrgð svo stór hluti forsvars- manna í atvinnulífi og stjórnmálum sé ekki flokkaður sem saka- menn. En lítið fer fyrir iðrun og enn kenna menn alheimskreppu og hryðjuverkalögum um ástandið. Það er mikið verk að ná aftur trausti erlendis, eins og nýleg könnun hefur sýnt, þótt hún beri vitanlega merki umfangsmikillar neikvæðr- ar umræðu sem stjórnvöld hafa lítið gert í að mæta. Nú þarf þjóðin „annað skip og annað föruneyti“, eins og sagt er. Við þurfum nýja þjóðarskútu, eða einfaldlega að draga þá gömlu á flot, sem getur komið okkur aftur í góð tengsl við umheiminn. Við þurfum öll að leggjast á árarnar í þeirri sjóferð. Róðurinn verður þungur en enginn vafi leikur á að áfangastað verður náð. Þjóðin þarf annað skip og annað föruneyti. Óhæfuverk og siðrof á heimavelli ÞORKELL SIGURLAUGSSON SKRIFAR ÚTGÁFUFÉLAG: 365 miðlar ehf. STJÓRNARFORMAÐUR: Ingibjörg S. Pálmadóttir FORSTJÓRI OG ÚTGÁFUSTJÓRI: Ari Edwald RITSTJÓRI: Jón Kaldal jk@frettabladid.is AÐSTOÐARRITSTJÓRI: Steinunn Stefánsdóttir steinunn@frettabladid.is Fréttablaðið kemur út í 90.000 eintökum og er dreift ókeypis á heimili á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri. Einnig er hægt að fá blaðið í völdum verslunum á landsbyggðinni. Fréttablaðið áskilur sér rétt til að birta allt efni blaðsins í stafrænu formi og í gagnabönkum án endurgjalds. Issn 1670-3871 Svo virðist sem ýmsir velti því nú fyrir sér, svona í og með, hvort einhver raunhæf rannsókn fari fram á því hverjir kunni að vera sökudólgar í „bankahruninu svokallaða“ á Íslandi (svo notað sé orðalag lögfræðinga), eða hvort einungis sé verið að syngja þjóð- inni hugljúfar vögguvísur um rannsókn, meðan beðið sé eftir tækifæri til að lýsa því yfir að hvergi hafi fundist nein gögn um að nokkurt saknæmt athæfi hafi verið framið, enginn hafi í raun- inni gert nokkurn skapaðan hlut af sér nema Jón Jónsson verkamaður sem tók sér lán til að kaupa flat- skjá og gat ekki borgað það. Þetta kemur væntanlega í ljós á sínum tíma, en meðan beðið er eftir því er kannske ekki úr vegi að velta fyrir sér annars konar ábyrgð í þessu máli, þeirri siðferðilegu ábyrgð sem menn bera gagnvart almenningi nú og gagnvart dóm- stól sögunnar síðar meir og er mun víðtækari en sú ábyrgð ein sem getur útvegað mönnum örugga vist bak við lás og slá. Ef gengið er út frá því, sem menn virðast yfirleitt hafa verið sammála um frá því að bankar fóru fyrst að velta fyrir einu ári, að rætur kreppunnar liggi í þeirri frjálshyggju sem hafði verið nán- ast einráð á Vesturlöndum um langt skeið, má segja að ábyrgðin skiptist í þrennt, á henni séu þrjú stig sem varða þrjá mismunandi hópa manna. Þessi stig eru frá- brugðin, en þau eiga öll sinn þátt í kreppunni, ef eitthvert þeirra hefði vantað hefði aldrei orðið nein kreppa, neitt hrun. Fyrsta stig ábyrgðarinnar liggur hjá hugmyndasmiðum frjáls- hyggjunnar, þeim sem settu fram kenningarnar um „væðingarnar“, einkavæðingu alls sem nöfnum tjáir að nefna, frelsisvæðingu sem stefndi að því að afnema reglur og eftirlit og þar fram eftir götunum, og boðuðu jafnframt krossferð gegn því sem þeir köll- uðu „forræðishyggju“, sem sé gegn velferðarkerfinu sem þá var við lýði. Þessir menn létu ekki við það sitja að smíða kenningarnar heldur tóku þeir sér fyrir hendur að reka áróður fyrir þeim með aðstoð alls kyns stofnana og þankatanka, en ef engir aðrir hefðu komið til sög- unnar hefðu þeir verið skaðlausir með öllu, líkt og veirur sem eru óvirkar. Þeir hefðu verið eins og hverjir aðrir þeir rugludallar sem stundum er hægt að rekast á í hinum akademísku undirheimum, ef vel er leitað. Þá kom nefnilega til sögunnar annað stig ábyrgðarinnar, en það liggur hjá þeim stjórnmálamönn- um sem beittu sér fyrir því að hrinda kenningum hugmynda- smiðanna í framkvæmd. Einir sér hefðu þeir ekki fengið neinu áork- að, hvað svo sem þeir hefðu viljað gera; menn geta reynt að ímynda sér hvað gerst hefði ef þeir hefðu ætlað að einkavinavæða banka og annað upp úr þurru í því andrúms- lofti sem ríkti fyrir fáum áratug- um og afnema um leið það aðhald sem alls kyns lög og reglur veittu. Til að geta fari út á þá braut þurftu þeir kenningar frjálshyggjunnar og linnulausan áróður kenninga- smiðanna. Sú spurning sem stund- um hefur verið á dagskrá við slíkar aðstæður, sem sé hvort þeir hafi ekki rangfært og afskræmt kenningarnar um leið, hvort fram- kvæmdin hafi ekki verið með allt öðrum hætti en kenningasmiðirn- ir vildu, er hér út í hött: ekki verð- ur annað séð en stjórnmálamenn- irnir hafi farið í einu og öllu eftir kenningunum. En þeir bera sjálf- ir ábyrgð á að hafa farið inn á þá braut, enginn þvingaði þá til þess, síst af öllu kenningasmiðirnir sem höfðu ekkert bolmagn til slíks. Þriðja stig ábyrgðarinnar liggur svo hjá þeim bröskurum, hvort sem menn vilja kalla þá ólígarka eða mógúla, sem gengu á lagið í „væðingunum“, þegar ekki voru lengur nein „höft“, neitt aðhald, létu greipar sópa um allt það sem nú var ofurselt þeirra eigin græðgi, og sólunduðu því að því er virðist í fjármálafyllirí og flott- ræfilshátt, ef þeir komu því þá ekki undan í einhverja skattapar- adísina. Þetta þriðja stig lá í hlut- arins eðli: ef menn afnema lög sem banna þjófnað er naumast tiltöku- mál þótt einhverjir fari að stela. En við það bættist annað: kenningarn- ar hvöttu þá beinlínis til þess, þær héldu því fram, þvert ofan í alla skynsemi, að með því að skirrast einskis við að mata sinn krók væru þessir menn í rauninni að vinna að almenningsheill. Því er alrangt að halda því fram að „stefnan hafi verið góð en mennirnir hafi brugðist“. Og þá vaknar sú spurning hvort ekki hafi verið eitthvert fjórða stig, stig þeirra manna sem trúðu fagurgala frjálshyggjunn- ar og fóru að taka lán á lán ofan, kannske til þess eins að fjármagna kaup á tryllitækjum með mann- hæðarháum hjólum. En hún er af öðru tagi. Reynsla Íslendinga sýnir að frjálshyggjan gat verið nokkurs konar vímugjafi eða ofskynjunar- lyf, og ábyrgð manna sem eru á valdi slíks er heimspekilegt vanda- mál sem ég ætla ekki að ræða hér. Ábyrgð EINAR MÁR JÓNSSON Í DAG | Frálshyggjan og hrunið UMRÆÐAN Þorleifur Gunnlaugsson skrifar um Hitaveitu Suðurnesja Hið opinbera, jafnt ríki sem sveitarfélög, á í miklum fjárhagsörðugleik- um. Lausafjárstaðan er slæm og það er freistandi að selja almannafyrirtæki eða hluta þeirra. Þekkt er erlendis að við aðstæður sem þessar mæta „hákarlarnir“ með það í huga að eign- ast almannafyrirtæki fyrir lítið fé. Í þessu felast hættur sem vel gætu hamlað endurreisn Íslands. Þegar Hafnarfjarðarbær og Grindavík neyttu forkaupsréttar og keyptu um 16% hlut í Hitaveitu Suðurnesja sem seldur var til Orkuveitu Reykjavík- ur var það gert til þess að gæta almannahagsmuna. Það sama átti við þegar OR bauð í 15% hlut Hafnar- fjarðar. Verið var að verjast einkavæðingaráformum þáverandi ríkisstjórna. Samkeppniseftirlitið felldi síðan þann úrskurð að Orkuveitan mætti ekki eiga meira en 10% í HS orku því það tryggði frekar hagsmuni almennings að fyrirtækið væri í einkaeigu en eigu almanna- fyrirtækisins OR. Meirihluti OR ákvað þá að selja allan hlutinn en hugmyndum um samfélagsleg markmið var varpað fyrir róða. Nú hefur Magma Energy gert tilboð sem rennur út á fimmtudag. Í tilboðinu er gert ráð fyrir því að OR kaupi hlut Hafnarfjarðar og þannig fái Magma um 32% hlut í HS. Þessi viðskipti myndu kosta OR um 1,3 milljarða króna í tap. Þar með væri HS orka komið í einkaeigu Magma og Geysis Green Energy en það fyrirtæki stendur á brauðfótum og alveg eins líklegt að Magma næði góðum meirihluta eða jafnvel fyrirtækinu öllu. Því hefur verið haldið til haga að auðlindin á Reykjanesi sé í almannaeigu samkvæmt lögum. Á það hefur hins vegar verið bent að HS orka fær auð- lindina leigða í 65 ár og sá samningur er framlengj- anlegur í önnur 65 ár. Sé þetta rétt er fyrirtækið búið að tryggja nýtingarrétt í allt að 130 ár á lágri leigu. Þar með er orkufyrirtæki í einkaeigu orðið allsráðandi á Reykjanesi langt fram á næstu öld. Hvað verður þá næst? Höfundur er borgarfulltrúi og situr í stjórn OR. Einkavæðing Hitaveitu Suðurnesja ÞORLEIFUR GUNNLAUGSSON Búin að gera fullt Í gær voru liðnir 100 dagar frá því að síðari ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðar- dóttur tók við völdum. Ríkisstjórnin stærir sig af því að á því tímabili hafi 42 af 48 málum á sérstakri aðgerða- áætlun þegar verið afgreidd. Þetta minnir óneitanlega á eins árs afmæli ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingar, þegar Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lögðu fyrst og fremst áherslu á að 75 til níutíu prósent mála á stefnuskrá stjórnarinnar hefðu verið afgreidd. Stundum skiptir tölfræðin bara engu máli. Sparnaðarátak Um sama leyti og ríkisstjórnin boðar mikið sparnaðarátak, þar sem hver króna skal spöruð, tilkynnir utanríkis- ráðuneytið að utanríkisráðherrafund- ur Norðurlanda og Eystrasaltsríkja, sem verður haldinn hér á landi 21. ágúst, fari fram í Bláa lóninu. Nú er Bláa lónið ekki ódýrasti sundstaður Íslands. Væri ekki nær að bjóða utanríkisráð- herrunum í Sundhöllina við Barónsstíg, fyrir tífalt lægra verð? Fjarlægðin og fjöllin Fyrir þremur árum kom út bókin Landsbankinn 120 ára í ritstjórn Eggerts Þórs Bernharðssonar. Í bókinni er stiklað á stóru í sögu bankans. Meðal annars er birt tilvitnun í Ísafold frá því í júní árið 1900. Þar stendur: „Íslendingar eru svo fámennir að nálega þekkir hver annan. Er þjóðin því þrasgjörn og tortryggin. Af mannfæðinni og vanþroska landsmanna leiðir og það að vér höfum ekki mörgum mönnum á að skipa sem eru jafn vel menntaðir, prúðir og mikilhæfir menn eins og bankastjórar í öðrum löndum.“ Síðan þá eru auðvitað liðin mörg ár. bergsteinn@frettabladid.is Dæmi um það sem tekið er fyrir í náminu: Lita- og línufræði Tónalgreining Vaxtarbygging Heitt og kalt rými Stórt og lítið rými Uppröðun hluta Stílistun á: Baðherbergi Svefnherbergi Barnaherbergi Eldhúsi Garðhýsi Stofu Og margt fleira. The Academy of Colour and Style býður nú upp á nám í innanhússtílistun. Farið er í helstu grunnþætti í lita- og línufræði. Einnig er kennt að meta stíl út frá persónunni sjálfri. Þá er hún greind út frá vaxtarbyggingu og litgreiningu en þær upplýsingar segja mikið til um hvernig einstaklingur vill hafa sitt nánasta umhverfi eins og liti og stíl. Nemendur vinna svo verkefni í hverri viku og taka þá fyrir stílistun á stofu, baðherbergi, barnaherbergi o.fl. Gestafyrirlesarar koma í tíma og kynna fyrir nemendum ýmis atriði sem koma þeim til góða. Hver önn tekur þrjá mánuði. Kennsla fer fram í Tækniskólanum einu sinni í viku frá 18-22. UPPLÝSINGAR OG SKRÁNING Í SÍMA 533 5101 Anna F. Gunnarsdóttir Stílisti Helga Sigurbjarnadóttir Innanhúsarkitekt Þorsteinn Haraldsson Byggingafræðingur INNANHÚSSTÍLISTANÁM

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.