Samvinnan


Samvinnan - 01.02.1958, Side 3

Samvinnan - 01.02.1958, Side 3
SAMVINNAN Sannleikurinn eltir lygina uppi UPPLÝSINGAR ÞÆR, sem Erlendur Einarsson forstjóri gaf um rekstur og afkomu Hamrafells í síðasta hefti Sam- vinnunnar, hafa vakið mikla athygli. í heilt ár hafa hat- ursmenn samvinnufélaganna breitt út þá þjóðlýgi, að SÍS og Olíufélagið mundu græða 15 milljónir króna á þessu skipi 1957, en sannleikurinn reyndist vera sá, að reksturs- hagnaðurinn er 1,7 milljón og fyrirsjáanlegt verulegt tap á skipinu í ár. Því miður sannaðist hér, eins og sagt hefur verið, að lýgin kemst norður á Langanes áður en sann- leikurinn nær inn að Elliðaám. Með hinum stórvirku áróð- urstækjum nútímans var þessari staðlausu kviksögu dreift um landið og ekkert skeytt um sannleikann í málinu. o o o UPPRUNI GRÓUSÖGUNNAR er athyglisverður fyrir samvinnumenn. Faðir hennar mun vera „kaupfélags- stjórinn" Ingólfur Jónsson, fyrrverandi ráðherra, sem stýrir kf. Þór á Hellu á Rangárvöllum. Fer varla hjá þvi, að menn dragi í efa trú hans og áhuga á samvinnuhug- sjóninni, sem hann telur sig vinna fyrir, þegar hann ríður á vaðið með svívirðilegar árásir á Hamrafell, eitt mesta átak, er samvinnuhreyfingin hefur unnið fyrir íslenzkan þjóðarbúskap. En Ingólfur birti í Morgunblaðinu árás á skipið og rekstur þess sama daginn og það kom til lands- ins. Sennilega er það einnig Ingólfur, sem fann upp töluna 15 milljónir, sem rógsmennirnir hafa talið vera gróða af skipinu, og eitt er víst, að hann er í fremstu röð þeirra manna, sem hafa sýknt og heilagt hamrað á þessari upp- lognu tölu. o o o ERLENDUR EINARSSON gaf í grein sinni nokkrar skýr- ingar á hinum duttlungafullu olíuflutningum, sem ís- lendingar eru mjög háðir, þar sem olía er stærsti liður í innflutningi þjóðarinnar. Meðan Ieigja þarf erlend skip til að flytja rúmlega helming alls innflutnings af olíum, getur þjóðin ekki slitið sig úr tengslum við heimsástandið í þessum málum, og raunar erfitt hvort eð væri. Þegar flutningagjöldin fyrir olíu til íslands geta sveiflazt milli 220 shillinga og 23 shillinga á einu ári, er það ekki sann- gjörn krafa, sem andstæðingar samvinnumanna hafa gert í skrifum sínum, að banna Hamrafelli að fá hæstu farm- gjöldin, þegar þau ríkja, en heimta að það sigli fyrir þau lægstu, þegar svo horfir við. Forráðamenn skipsins gerðu sér að sjálfsögðu, áður en skipið var keypt, fulla grein fyrir þessum aðstæðum. Þeir kröfðust þó aldrei hæstu gjalda fyrir Hamrafell og skipið sigldi fyrir 160 sh., meðan erlend leiguskip fengu 220. Hins vegar hefur Hamrafell fylgt lægstu farmgjöldum erlendra skipa, þótt kaupgjald og allur reksturskostnaður sé hér hærri en erlendis, og greiða verði 16% yfirfærslugjald af kaupverði Hamrafells, en það er stórfé. Þetta er vissulega sanngjörn afstaða manna, sem hafa tekið á samvinnusamtökin þá ábyrgð að taka 48 milljóna króna lán, og verða með rekstri skips- ins að standa við þá miklu skuldbindingu. Niðurstaðan af rekstri Hamrafells fyrsta árið, og útlit um reksturinn annað árið, eru fullkomin réttlæting á þessum sjónar- miðum, og alger fordæming á þeirri þjóðlýgi, sem haldið hefur verið á lofti um 15 milljónir króna gróða, og að skipið hafi aðeins verið rekið með gróða fyrir augum. o o o HAMRAFELL verður vafalaust mikið rætt lengi enn. Er það sorglegt, þegar fjölmennustu samtök landsins, sam- vinnusamtökin, gera slíkt stórátak til þess að koma tug- milljónasiglingum á íslenzkar hendur, að þá skuli slík orrahríð að þeim gerð innanlands. Hér er um að ræða einn lið í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar í efnahagsmál- um. Áður en Olíufélagið kom til sögunnar, var olíuverzlun landsmanna, sem veltir mörg hundruð milljónum króna, meira og minna í höndum erlendra auðhringa. Nú er þó stærsta olíufélagið al-íslenzkt, en einstaklingar hafa fet- að í fótspor samvinnumanna og reynt að gera hin olíu- félögin einnig íslenzka eign. Áður en Hamrafell kom til landsins, var þjóðin algerlega háð erlendum aðilum um alla aðdrætti á mestu innflutningsvörum sínum, olíuvör- unum. Nokkrum mánuðum síðar bar Suezdeiluna að, og var þá um hríð algerlega ókleift að fá nokkur erlend skip leigð. Þá kom Hamrafell sér vel — en skipið og forráða- menn þess fengu engu að síður að launum vanþakklæti og svívirðingar frá sterkum öflum í þjóðfélaginu. o o o SAGAN MUN SANNA, að áróðurinn gegn Hamrafelli var ekkert nema ósvífin eiginhagsmunabarátta gegn mikil- vægu þjóðþrifamáli. Hefur raunar farið eins áður, þegar skorin var upp herör gegn samvinnumönnum. Ættu stað- reyndimar í slíkum málum, þótt stundum séu þær seinni í svifum en lýgin, að færa landsmönnum heim sanninn um eðli þeirra árása, sem sí og æ eru gerðar á samvinnu- hreyfinguna. Þetta er annarleg gerningarhríð, kostuð með stórfé úr gróðavösum peningamanna, gerð af ótta við samtök fólksins sjálfs. En það hefur sýnt sig fyrr og mun sannast enn, að það þarf meira til að granda þessum sam- tökum. Áróðursmennirnir gera of lítið úr skynsemi íslenzks almennings. SAMVINNAN 3

x

Samvinnan

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.