Samvinnan - 01.12.1986, Síða 5

Samvinnan - 01.12.1986, Síða 5
Greiðslukort fyrir félagsmenn Aáttatíu ára afmæli Samvinnunnar stendur íslensk samvinnuhreyfing á vegamótum: Erfiðleikar steðja að henni, og hún hefur orðið fyrir áföllum. Vagga hreyfingarinnar stendur í sveitum landsins eins og kunnugt er, og bændur hafa frá upphafi verið stoð hennar og stytta. Þeir hafa lifað bæði súrt og sætt um dagana eins og þjóðin öll, en jafnan tekist að leysa vandamál sín farsællega - oftast með samtakamætti og samvinnu. Á stofnári Samvinnunnar, 1907, var til dæmis ekki bjart framundan hjá íslenskri bændastétt. Sauðasalan til Englands hafði lagst niður skyndilega, en á henni höfðu bændur byggt afkomu sína að miklu leyti um langt skeið. Þá tóku menn höndum saman og byggðu sláturhús bæði sunnan lands og norðan - og tókst með samstilltu átaki að rétta hlut sinn. Nú virðist hins vegar slíkt andstreymi og þrengingar dynja yfir bændur, að hætta er á að heilar byggðir í strjálbýlinu fari í eyði næstu árin. Vonandi tekst að koma í veg fyrir slíkan harmleik; von- andi leggst bændum eitthvað til nú sem fyrr, svo að úr rætist betur en á horfist. Á síðasta kaupfélagsstjórafundi lét hinn nýi forstjóri Sambandsins, Guðjón B. Ólafsson, svo ummælt, að fé- lagsmenn kaupfélaganna þyrftu að finna betur en nú er, hvern hag þeir hafi af því að taka þátt í samvinnustarfinu. Þetta eru orð að sönnu, og á þessu atriði hlýtur hreyf- ingin að standa eða falla. Það er ekkert launungarmál, að þróunin hefur því mið- ur orðið sú hin síðari ár, að tengslin milli félagsmanna og fyrirtækja samvinnuhreyfingarinnar hafa minnkað jafnt og þétt. Mörgum finnst munurinn á einkafyrirtækjum og sam- vinnufyrirtækjum harla lítill orðinn í seinni tíð. Ef það er rétt, þá er ekki að undra þótt einlægir samvinnumenn þreytist á að vegsama grundvöllinn, sem allt starf þeirra á að byggjast á. Til hvers er það, ef ekki er hægt að benda á raunverulegan ávinning af því að vera félags- maður í kaupfélagi? En það er ekki við grundvöllinn og hugsjónina að sakast. Hvort tveggja er jafn traust og það hefur alltaf verið og sami reginmunurinn á fyrirtækjum einkaaðila og samvinnumanna. Kaupfélögin eru öllum opin, en þeir einir geta gerst aðilar að einkafyrirtækjum, sem hafa efni á að kaupa hlutabréf í þeim dýrum dómum. í einkarekstri greiða menn atkvæði eftirfjármagni, en í samvinnufélagi hefur hver maður eitt atkvæði. Og í einkafyrirtækjum rennur gróðinn óskiptur til fárra eigenda, en kaupfélögin endurgreiða tekjuafgang sinn til félagsmanna. Hið síðastnefnda byggist að sjálfsögðu á því, að eitthvað sé til skiptanna - og verslunin, einkum í dreifbýl- inu, á erfitt uppdráttar um þessar mundir. En fylgjast samvinnumenn nægilega vel með tíman- um? Eru þeir nógu fljótir að tileinka sér nýjungar og breytingar í verslun og viðskiptaháttum? Þegar greiðslukortin voru í þann veginn að hefja inn- reið sína í landið, birtist í Samvinnunni (1. hefti 1984) ít- arleg grein um plastpeningabyltinguna svokölluðu eftir Margeir Daníelsson, núverandi framkvæmdastjóra Samvinnulífeyrissjóðsins. Þar segir meðal annars svo: „Vel kemur til greina innan ekki mjög langs tíma, að samvinnuhreyfingin standi sameiginlega að útgáfu fé- lagsmannakorts, annaðhvort debet- eða kredit-korts, eða sérstaks heimildarkorts, sem gæfi félagsmönnum rétt til að versla á sérstökum kjörum eða njóta hagræðis af tilboðum, sem veitt væru annað slagið. Slíkt félagsmannakort, sem ég hef kosið að kalla „Samkort", auðveldar einnig aukin tengsl kaupfélag- anna við félagsmenn sína í formi upplýsingastreymis. Sömuleiðis gefur það kost á nákvæmari og skjótvirkari arðsúthlutun til félagsmanna. Reynsla sú sem fengist hefur af framangreindu korti í Svíþjóð verður að teljast nokkur hvatning til íslenskra samvinnumanna. Útgáfa félagsmannakorts mun krefjast ítarlegs undir- búnings og kann í því sambandi að vera nauðsynlegt að stofna nýtt kortafyrirtæki, „Samkort", með aðild sem flestra samvinnufyrirtækja. Yrði af stofnun slíks fyrirtæk- is, teldi ég hentugast að rekstur þess væri í höndum Samvinnubankans vegna sérhæfingar hans á þessu sviði.“ Hér er aðeins ein hugmynd af mörgum, sem hugsan- lega gæti eflt tengslin milli félagsmanna og samvinnu- fyrirtækjanna. Stærð þeirra og fjölbreyttur rekstur gæti gert „Samkorf eftirsóknarvert, ef því fylgja hlunnindi og afsláttur sem um munar. í von um betri árangur og bjartari tíð á nýju ári sendir Samvinnan lesendum sínum og velunnurum hugheilar jólakveðjur með bestu þökk fyrir gott samstarf á liðnum árum.

x

Samvinnan

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.