Fréttablaðið - 02.09.2009, Side 6
6 2. september 2009 MIÐVIKUDAGUR
DÓMSMÁL Jónas Ingi Ragnarsson, oft kenndur
við „líkfundarmálið“, pantaði hráefni sem nota
má við amfetamínframleiðslu undir því yfir-
skini að það væri fyrir þróun eldvarnaefnis,
sem hann og Tindur Jónsson unnu saman að.
Aðalmeðferð í máli Jónasar Inga og Tinds
hófst í héraðsdómi Reykjaness í gær. Þeir eru
ákærðir fyrir að hafa staðið að framleiðslu
fíkniefna í iðnaðarhúsnæði í Hafnarfirði
sumarið 2008. Í húsnæðinu fundust meðal ann-
ars 38 kíló af efninu P-2-NP, sem notað er til að
búa til milliefnið P-2-P, sem notað er við fram-
leiðslu á amfetamíni og metamfetamíni.
Jónas Ingi og Tindur neita báðir að hafa
ætlað að framleiða fíkniefni. Við skýrslutöku í
gær sagðist Jónas Ingi hafa verið þjónustu aðili
fyrir fíkniefnaframleiðendur, það er útvegað
mönnum í „þessum iðnaði“, eins og verjandi
hans komst að orði, löglegt hráefni og búnað til
fíkniefnaframleiðslu, svo sem mjólkursykur,
vogir, lampa og fleira. Á vordögum 2008 hafi
aðili, sem Jónas neitar að nefna, beðið hann um
að útvega sér efnið P-2-P. Efnið er eftirlitsskylt.
Taldi Jónas því að erfitt yrði að flytja það inn til
landsins og ákvað að búa það til sjálfur og selja
fyrrnefndum aðila. Hann hafi talið í mesta lagi
um brot á reglugerð að ræða en ekki lagabrot.
Kvaðst hann hafa vitað að hægt væri að nota P-
2-P til framleiðslu á amfetamíni en ekki spurt
kaupandann til hvers hann ætlaði að nota það.
Tindur, sem hefur lokið einu ári í efnafræði
við Háskóla Íslands, fór upphaflega að vinna
fyrir Jónas Inga með það í huga að aðstoða hann
við að framleiða eldvarnaefni. Jónas Ingi bar
fyrir rétti að þáttur Tinds í málinu hefði verið
„takmarkaður“. Ekki hafi liðið á löngu þar til
Jónas Ingi hefði beðið Tind um aðstoð við sam-
setningu tækja sem hann notaði við framleiðslu
á P-2-P. Hann hefði ekki sagt Tindi hvað hann
ætlaði að framleiða. Tindur hefði þó fljótlega
áttað sig á hvaða efni væri um að ræða.
Í skýrslutöku kvaðst Tindur hafa gert sér
grein fyrir að framleiðsla á P-2-P væri eftir-
litsskyld en ekki vitað að nota mætti efnið til
að framleiða fíkniefni. Honum hefði þótt þetta
spennandi verkefni og því ákveðið að halda
samstarfinu við Jónas Inga áfram. Hann sæi
eftir því núna.
Saksóknari lagði fram uppskrift af símtali
milli Jónasar Inga og Tinds, sem lögregla hler-
aði, þar sem þeir töluðu um „eldvarnakover“.
Útskýrði Tindur að þeir hefðu viljað lágmarka
áhættuna. Jónas Ingi hefði því notað eldvarna-
verkefnið sem yfirskin þegar hann pantaði P-2-
NP til að vekja ekki grunsemdir.
bergsteinn@frettabladid.is
Notuðu eldvarnaverkefni sem
yfirskin en töluðu af sér í síma
Jónas Ingi Ragnarsson notaði eldvarnaverkefni sitt og Tinds Jónssonar sem yfirskin til að kaupa hráefni í
meinta amfetamínframleiðslu. Hann segist ekki hafa ætlað að framleiða fíkniefni heldur selja milliefnið.
Á LEIÐ Í DÓMSSAL Jónas Ingi Ragnarsson, fremstur á myndinni, á leið til aðalmeðferðar í Héraðsdómi Reykjaness í
gær. Tindur Jónsson fylgir í humátt á eftir með sólgleraugu og hulið andlit. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
FÓLK Bekkir meðfram göngu-
stígnum sem liggur með suður-
strönd Reykjavíkur og áfram inn
í Fossvogsdal eru of fáir, að sögn
hverfisráðs Vesturbæjar, sem vill
að bekkjunum verði fjölgað til
muna.
„Á ferðum okkar um stíginn
rekumst við oft á eldri borgara
sem sitja á þeim örfáu bekkjum
sem nú þegar eru á leiðinni
og hefur okkur oftsinnis verið
tjáð að gott væri að geta gengið
lengra, en of strjált sé á milli
bekkja til að mögulegt sé að hvíl-
ast reglulega. Einnig er margt
fólk með ung börn sem gæti vel
nýtt sér fjölgun bekkja til að setj-
ast niður með nesti eða hreinlega
til að njóta fagurs útsýnis,“
útskýrir hverfisráðið. - gar
Stígakerfi borgarinnar:
Bekkir of fáir
fyrir göngufólk
Prófessor í lyfjafræði við Háskóla Íslands, sem var
lögreglunni innan handar við rannsókn málsins,
bar fyrir dómi í gær að sitt mat væri að iðnaðar-
húsnæðið í Hafnarfirði væri ætlað til „stórfelldrar
framleiðslu á fíkniefnum“.
Auk efna og búnaðar sem þyrfti til að fram-
leiða P-2-P hefði mátt finna þar önnur efni og
áhöld sem nýttust á seinni stigum til að fullvinna
amfetamín og metamfetamín. Þó vantaði nokkur
nauðsynleg efni. Til að framleiða metamfetamín
vantaði þó aðeins vetnisgas; það væri hægt að fá
sent heim frá söluaðila samdægurs. Kvaðst hann
að auki ekki geta komið auga á neina tengingu
við framleiðslu á eldvarnaefni í iðnaðarhúsnæð-
inu og sæi „engan annan augljósan tilgang“ en að
framleiða ætti þar fíkniefni.
„ENGINN ANNAR AUGLJÓS TILGANGUR“
BRETLAND Vorið 1944 töldu Þjóðverj-
ar miklar líkur á því að Bandamenn
myndu ráðast inn í Frakkland frá
Íslandi, í því skyni að frelsa Frakk-
land undan hernámi nasista. Þetta
kemur fram í skjölum, sem þjóð-
skjalasafnið í Bretlandi birti í gær.
Í skjölunum segir frá ferð þriggja
manna, Þjóðverjans Ernsts Freseni-
us og Íslendinganna Hjalta Björns-
sonar og Sigurðar Júlíussonar, sem
nasistar sendu til Íslands til að
kanna skipaferðir og herflutninga.
Í frétt breska dagblaðsins
The Tele graph, sem byggð er á
skjölunum, segir að selveiðimaður
nokkur hafi séð til ferða þremenn-
inganna skammt frá Borgarfirði
eystri og þótt þeir grunsamlegir.
Þrír njósnarar Bandamanna,
sem hétu Miller, Hoan og Frick,
fréttu af þessu þar sem þeir sátu
að snæðingi á hóteli á Seyðisfirði
5. maí 1944. Þeir héldu af stað og
handtóku mennina, sem síðan voru
sendir til Bretlands og voru þar í
haldi til stríðsloka. Í yfirheyrslum
þar gáfu Íslendingarnir fúslega
upplýsingar um ferðir sínar, en
Fresenius vildi sem minnst segja.
Mennirnir þrír eru sagðir hafa
gengið í njósnaskóla í Noregi, þar
sem þeir lærðu leyniskrift, dulmál
og skemmdarverkastarfsemi.
Fresenius hafði áður búið hér á
landi í nokkur ár. Hann var frum-
kvöðull í ylrækt á Reykjanesi við
Ísafjarðardjúp, en hélt aftur til
Þýskalands nokkru eftir valdatöku
Hitlers. - gb
Þrír njósnarar nasista fóru um Ísland vorið 1944:
Áttu að fylgjast með skipum
HITLER OG FÉLAGAR Tveir Íslendingar og
einn Þjóðverji voru sendir til Íslands til
að njósna um yfirvofandi árás, sem nas-
istar töldu að yrði skipulögð frá Íslandi.
NORDICPHOTOS/AFP
LÍBÍA, AP Lockerbie-sprengju-
maðurinn Abdel Baset al-Megra-
hi liggur nú á sjúkrahúsi í Líbíu.
Að sögn emb-
ættismanna þar
í landi hefur
heilsu hans
hrakað gríðar-
lega undan-
farna daga.
Al-Megrahi
var sleppt úr
fangelsi í Skot-
landi 20. ágúst
síðastliðinn af
mannúðarástæðum. Hann þjá-
ist af krabbameini í blöðruháls-
kirtli. Við komuna til Líbíu tóku
hundruð manna fagnandi á móti
honum.
Al-Megrahi var eini maðurinn
sem var sakfelldur fyrir
sprengju árás í flugvél Pan Am-
flugfélagsins yfir Lockerbie í
Skotlandi árið 1988. - þeb
Lockerbie-sprengjumaður:
Heilsu al-Megra-
hi hrakar hratt
LÖGREGLUMÁL Stúlka á fermingar-
aldri fékk gat í naflann á almenn-
ingssalerni í verslunarmiðstöð í
Reykjavík í sumar. Stúlkan hafði
komist í kynni við mann á netinu
sem setti lokk í naflann að henn-
ar ósk. Samkvæmt upplýsingum
lögreglu er ekki um einsdæmi að
ræða. Upp komst um málið þegar
stúlkan þurfti að leita til læknis
vegna graftar í naflanum, þar
sem lokkurinn var fjarlægður.
Forráðamaður hennar tilkynnti
um málið til lögreglu í kjölfarið.
Lögreglan vill benda forráða-
mönnum á að kynna sér vefsíður
um örugga netnotkun, til dæmis
saft.is. - þeb
Stúlka á fermingaraldri:
Lokkur settur í
nafla á salerni
ABDEL BASET
AL-MEGRAHI
Á meirihluti í HS Orku að vera í
opinberri eigu?
Já 81%
Nei 19%
SPURNING DAGSINS Í DAG
Hefur þú áhyggjur af því að
Vítisenglar hafi haslað sér völl
á Íslandi?
Segðu skoðun þína á visir.is.
KJÖRKASSINN