Rauðir pennar - 01.01.1936, Page 36
JÓHANNES ÓR KÖTLUM
MAXIM GORKI.
Það brast einhver strengur í brjósti mér,
er barst til mín fregnin um andlót þitt,
einhver lifandi strengur, sem lá frá þér
inn í litla íslenzka hjartað mitt,
einhver strengur, sem þoldi ekki dauðans dóm,
einhver dirrindí-strengur, viðkvæmur, sár,
— hann hrökk í sundur og hrundi sem tór
og ég heyrði veikan, titrandi óm,
sem þá endað er Ijóð eða lokið er sögn.
... Og svo löng, löng þögn.
Og í þögninni heyrði ég hjarta mitt slá,
— ég hugsaði ekkert, ég fann bara til.
Og öll mín sorg varð að einingarþrá,
— ég varð allur að lygnum og djúpum hyl,
ég varð allur að gljúpri, iðandi mold,
ég varð allur að bjartri, vermandi sól,
og ég tók þig í faðminn og bjó þér ból
og blómin mín kysstu þitt dána hold ...
En svo þaut í fjallinu, snöggt, — svo snöggt,
að menn sneru sér við. Hvað var þar á ferð?
Og harðjaxlar skelfdust, — ég heyrði svo glöggt,
hvernig hnefarnir krepptust um bagal og sverð.