Rauðir pennar - 01.01.1936, Page 158
Svo megi hinn ágæti borgari furður hér finna:
fjöll eins og hófspor, eimgos, sem bergrifa spýr,
gljúfur og fossa og hornbjargsins háu
höll, þar sem sjófuglinn býr.
Og höfundur sá, er vill kynna sér kjör manna og háttu:
kirkjustað biskups, sem troðið í poka var,
laug mikils sagnfræðings, klettaey kappans,
sem kvíða í myrkrinu bar.
Og munið hinn seka, er fákur hans féll og hann mælti:
„Fögur er hlíðin, og aftur um kyrt ég sezt“,
konuna gömlu, sem vitnaði: „Eg var þeim
verst, er ég unni mest“.
Því Evrópa er fjarri, og einnig þá raunveruleikinn.
Við öræfa- og söguhefð landsins þeir kaupa sér dvöl,
sem dreymir sitt líf vera í óþökk, til einskis,
og andlitin fölu, sem böl
of heitra tálkossa tærði, á þess öræfum laugast.
En tekst það? Því Heimur og Nútími og Lygi eru sterk.
Og hin örmjóa brú yfir beljandi ána
og bærinn í fjallsins kverk
eru eðlileg virki og herstöðvar héraðarígsins,
sem hollustu þegnsins bindur við merkjastein.
Og í bóndanum þarna, sem berst á hesti
út bakkans vallgrónu hlein,
sig þumlungar líka blóðið á bugðóttum leiðum
og biður um svör, eins og þitt: Finnst ei trúnaður neinn?
Ó, hvað dvelur réttlætið? Hver er gegn mér?
Ó, hví er ég stöðugt einn?
158