Vikan - 28.06.1984, Blaðsíða 24
Heimilið
Hlauprétti má ekki frysta
Hlaupréttir eru ákaflega fallegir á að líta. Þeir eru
því litrík skreyting á veisluborð, auk þess sem yfirleitt
er hægt að gera öllum til hæfis meö einum slíkum
rétti.
Misjafnt er hvað er látið í hlauprétti. Sumir láta ein-
ungis grænmeti og bera með því sósu úr sýrðum
rjóma, majonsósu, fínsöxuðum kryddjurtum og sítr-
ónusafa. Einnig er hægt að gera fiskirönd með græn-
meti og sjávarréttum og bera með henni franska sósu
úr sýrðum rjóma, majonsósu, tómatsósu, sinnepi og
ögn af karríi. Slíkur sjávarréttur á einnig mjög vel við
sem forréttur.
Best er að byrja á því að hella hluta af hlaupinu í
formið og láta stífna í ísskáp. Formið má hafa hvaða
lögun sem er, allt eftir smekk. Raðið síðan hluta af
grænmetinu ofan á og hellið aðeins meira af hlaupi og
látið stífna. Þannig er rétturinn byggður upp smám
saman þar til hann er tilbúinn. Látið hann síðan bíða í
ísskápnum í 3-4 tíma eða yfir nótt.
Þegar hlaupið er losað úr forminu er best að renna
hníf eftir kantinum og láta heitt vatn renna augnablik
á botninn á forminu. Réttinum er síðan hvolft á fat og
skreyttur eftir smekk.
Athugið að hlauprétti sem þennan má ekki frysta.
Frostiö eyðileggur hlaupeiginleikann og hlaupið lek-
ur niður. Aftur á móti má frysta frómas sem búinn er
til úr eggjum, rjóma og matarlímsblöðum.
Ódýr lausn
þar sem gluggakistur eru litlar
Ekki eiga allir svalir eða garð til að svala blómaáhuga sínum.
Fyrir þá birtum við þessa frábæru hugmynd að blómaglugga.
Þarna er pláss fyrir plöntur á bekk fyrir framan gluggann sem er
þægilegt ef gluggakistur eru litlar. Síðan er hægt að hengja blóm í
grindina að ofan og eins láta vafningsjurtir liðast upp hliðarbit-
ana.
Þegar gestirnir
streyma
Handlagið fólk ætti ekki að vera í vand-
ræðum með að nýta sér þessa hugmynd.
Þetta getur verið gestarúm eða rúm
handa táningnum þegar hann vill rýma
til í herberginu. Litlu borðin sitt hvorum
megin við upprúlluðu dýnurnar eru sett
fram fyrir bekkinn, tveimur dýnum
rúllað út (þaö er mýkra að hafa tvær
dýnur en ekki nauðsynlegt) og rúmið er
tilbúið. Til þess að skreyta dýnuna hafa
verið bundnir í hana rauðir spottar hér
og þar og fæturnir á bekknum málaðir
rauðir í stíl.
24 Vikan 26. tbl.