Menntamál - 01.12.1950, Blaðsíða 13
MENNTAMÁL
211
eldi æskulýðsins, og aðferðir þess, hið kerfisbundna lexíu-
nám og yfirheyrslur, talsvert varhugaverðar. Þó getur
þetta gengið skaplega, þegar um nemendur er að ræða,
sem hafa innri skilyrði til þess að standast þær ströngu
kröfur, sem skólinn gerir til þeirra. En það er að mínu
áliti aðeins nokkur hluti hvers aldursflokks. Þegar þessir
skólar eiga að taka við öllum unglingunum, eru þeir knún-
ir til að leita nýrra leiða að minnsta kosti fyrir þá nem-
endur, sem gamli skólinn hæfir alls ekki. Þetta verður ekki
gert, nema sem flestir, sem að þessum málum vinna, leggi
sig fram og þeim sé ljóst, hvaða verkefni bíður þeirra.
í þessu sambandi skulum við gera okkur Ijóst, að skólar
hljóta að vera einhverjar hinar kyrrstæðustu stofnanir
þjóðfélagsins. Bóndinn, iðjuhöldurinn og útvegsmaðurinn
keppa fast að því að bæta starfsháttu atvinnugreina sinna,
ella eiga þeir á hættu að bíða lægra hlut í lífsbaráttunni.
Það er sterkt afl, sem knýr þá til endurbóta, sjálf sjálfs-
bjargarviðleitnin. Endurbætur á starfsháttum skóla vekja
sjaldnast gróðavonir. Þær eru þjóðfélaginu kostnaðar-
samar, og því hættir forráðamönnum þess að tregðast við
þeim. Allur almenningur hefur ríka hneigð til þess að
hugsa sér, að skólar eigi alla tíð að vera, eins og þeir voru
í hans ungdæmi. Og við, kennarar, erum ekki nema menn,
við græðum ekkert á umbótunum, þær kosta okkur fyrir-
höfn, og okkur þykir minnkun að því að breyta til um
starfsaðferðir og viðurkenna, að aðrir fari skynsamlegar
að. En þó á vaxandi kynslóð það undir trúnaði okkar, að
við gerum það, sem við getum bezt, henni til heilla. Og
vissulega langar okkur ekki til að fá þann dóm, að fyrir
svefnsemi okkar hafi íslenzkir skólar orðið að nátttröllum
í nútíðinni.
A. H.