Heima er bezt - 01.12.1964, Page 15
sem sagðir eru eitt af þrennu óteljandi á íslandi. Þá var
einnig staðnæmzt um stund hjá minnismerki Stephans
G. Stephanssonar og litið yfir Skagafjörðinn, sem „skein
við sólu“ í allri sinni fegurð.
Til Akureyrar var komið um kl. 8 síðdegis, og var
gist á Hótel Varðborg. Engum kom þó til hugar að
ganga til náða svo snemma, og hélt hópurinn út að skoða
bæinn í veðurblíðunni. Fyrst löbbuðum við upp kirkju-
tröppurnar og reyndum að telja þær, en bar ekki sam-
an um, hve margar þær væru. Þá var og skoðuð hin veg-
lega kirkja, sem helguð er minningu séra Matthíasar.
Síðan var rölt um bæinn og dáðst að skrúðgörðunum,
sem hvergi eiga sinn líka á landi hér. Segja má að tvennt
sé það, sem alveg sérstaklega einkenni höfuðstað Norð-
urlands: Blómskrúð og snyrtimennska.
A sunnudagsmorgunn var aftur haldið af stað. Fyrsti
áfangastaðurinn var Grund í Eyjafirði. Sjálfsagt þótti
að skoða kirkjuna þar, sem er ein með fegurstu guðs-
húsum landsins.
Áfram var haldið, yfir Vaðlaheiði í Vaglaskóg, áð
þar nokkra stund og nærst á skrínukosti og skógarilmi.
Þá var haldið að Goðafossi, síðan að Grenjaðarstað
og skoðað byggðasafnið. Mývatn var næsti ákvörðun-
arstaður. Ekið var sunnanverðu við vatnið, fram hjá
Skútustöðum og Garði, bæ Þuru, gengið í Dimmuborg-
ir og TröIIakirkju. Landslag við Mývatn er sérkenni-
legt og fagurt og mun verða okkur, sem sáum það þenn-
an sólskinsdag, ógleymanlegt. Var nú degi tekið að
halla og haldið heim að hótelunum, en þar beið okkar
kvöldverður og gisting, og var öll þjónusta 'þar hin
ágætasta.
Mánudagsmorgunn rann upp með heiðskírum, blá-
um himni, sem speglaðist í kyrrum fleti vatnsins.
Áfram varð að halda, austur í Námaskarð og síðan
áfram. Þar var hátt til lofts og vítt til veggja. Til hægri,
langt í fjarska sást Herðubreið fögur og tíguleg, þar
sem hana bar við himinn. Þegar komið er austur yfir
Jökulsá, er beygt í norður, ekið niður með ánni að Detti-
fossi, sem „kveður sterkt svo standberg nötra“. Síðan er
enn haldið áfram niður Axarfjörð og aftur yfir Jök-
ulsá, en nú vestur yfir og skömmu síðar er ekið inn í
eitt af undrum veraldar: Ásbyrgi.
Farið var fyrir Tjörnes til Húsavíkur, síðan sem leið
lá til Akureyrar, þar sem gista skyldi næstu nótt.
Á þriðjudagsmorgunn var árla risið úr rekkjum, því
nú þurfti að nota tímann vel fram að hádegi, en þá átti
að halda heim. Eftir var að skoða m. a. Nonnasafnið,
Lystigarðinn og svo að reyna viðskiptin í hinum glæsi-
legu verzlunum.
Um eitt leytið var svo lagt af stað heim. Var nú að-
eins eftir að skoða kirkjuna á Þingeyrum, sem Ásgeir
Einarsson alþingismaður lét reisa þar, fyrir nálægt 90
árum, og lagði fram af eigin fé tæpa 2/3 kostnaðarverðs-
ins. Kirkja þessi er einhver sú fegursta á landi voru.
Var nú haldið áfram heimleiðis og ekið um Laxárdals-
heiði og út Skógarströnd, og þótt við hefðum heillast
af fegurð Norðurlands, þá fannst okkur samt fegurst
við Breiðafjörð með sínar óteljandi eyjar.
Síðla kvölds komum við heim til Stykkishólms úr
þessari lengstu ferð, sem enn hefur verið farin á vegum
kvenfélagsins. Þátttaka var mjög góð, og gekk ferðin í
alla staði að óskum, enda veðurguðirnir okkur dásam-
lega hliðhollir.
ÞÓRHILDUR JAKOBSDÓTTIR:
um við aö
Eigum við að spinna
úr vetrar nöprum vindum
vorsins hlýja þráð?
Eigum við að vefa
úr klakans kalda garni
klæði af sólskinsbráð?
Eigum við að seiða
fram úr svörtum næturskuggum
sólskinsdægur löng?
Eigum við að breyta
byrstum byljasogum
í blíðan fuglasöng?
Eigum við að rækta
úr urð og gráu grjóti
grænan sléttan völl?
Eigum við að byggja
úr bleiku mánaskini
bjarta silfurhöll?
Eigum við að leggja
um gróna götuslóða
glæstan beinan veg'?
Og ganga svo til sælla sólskinslanda
saman, þú og ég?
<--------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Fremsta röð frá vinstri: Kristensa Jónsdóttir, Camilla Kristjánsdóttir, Vilborg Lárusdóttir, Sigríður Guðmundsdóttir, Soffía
Pálsdóttir, Ásta Pálsdóttir, Magðalena Pálsdóttir, Soffía Guðmúndsdóttir, Guðbjörg Helgadóttir. Miðröð frá vinstri: Sigurborg
Jónsdóttir, Maria Bjarnadóttir,Maggj Lárenzinusdóttirjóhanna Bjarnadóttir, Unnur Jónsdóttir, Edda Kristjánsdóttir, Jóhanna
Gunnarsdóttir, Margrét Tómasdóttir, Ólöf Ólafsdóttir, Fanney Ólafsdóttir, Kristin Þórarinsdóttir, Kristín Davíðsdóttir, Lovisa
Ólafsdóttir, Ingibjörg Pétursdóttir, Jóhanna ]óhannsdóttir. Aftari röð frá vinstri: Ragna Hansen, Bergþóra Þorgeirsdóttir, Asta
Jónsdóttir, Ingibjörg Jónsdóttir, Petrína Scemundsdóttir, Sólborg Bjartmars, Sigriður Bjarnadóttir, Hansína Jóhannesdóttir, Pet-
rea Andrésdóttir, Guðmunda Jónasdóttir, Unnur Torfadóttir, Magðalena Níelsdóttir, Dagbjört Nielsdóttir.
Heima er bezt 445