Heima er bezt - 01.12.1964, Page 28
breyting í þessum efnum. Þegar hefur verið getið um
Sunnanfara og Skírni. Haukur hóf göngu sína vestur á
ísafirði 1898, tók hann brátt að flytja myndir, bæði
myndskreyttar sögur og síðar fréttamyndir af ýmsu
tagi. Mnn ætlun útgefanda, Stefáns Runólfssonar, hafa
verið að hafa Hauk eitthvað í líkingu við hin vinsælu
dönsku blöð Hjemmet og Familie-Journalen. En útgáf-
an gekk illa, og kom Haukur síðast út 1914, og var þá
lokið 11 árgöngum. Var hann þó vinsæll, enda flutti
hann spennandi reyfara, m. a. byrjuðu Leyndardómar
Parísarborgar að koma út í Hauk, skreyttir fjölda
mynda.
Þegar Sunnanfari hafði hætt göngu sinni um skeið
hóf Þorsteinn Gíslason útgáfu Óðins 1906. Var hann að
efnisvali mjög skyldur Sunnanfara, og flutti fjölda
mynda, einkum mannamynda. Innan í Ó-inu í nafni
blaðsins á kápu var mynd af Óðni með hrafna sína. Þá
verður að geta barnablaðanna tveggja, Æskunnar og
Ungs íslands, sem bæði fluttu mjög margt af myndum
þegar frá upphafi, en Æskan var stofnuð 1898 og Unga
Island 1905. Hlutu þau miklar vinsældir unglinga og
áttu myndirnar vissulega sinn þátt í því. Einnig flutti
unglingatímaritið Fanney 1905—1909 allmikið af mynd-
um. Má yfirleitt segja, að flest þau tímarit, sem stofnuð
voru eftir aldamótin, og ekki sízt þó þegar kom fram á
annan tug aldarinnar hafi flutt meira eða minna af
myndum, enda þótt myndamót yrði enn að sækja til út-
landa. Verður það ekki nánar rakið hér.
En þótt tímaritin væru myndasnauð, voru vikublöð-
in það ekki síður. Að vísu skal það ekki fullyrt, en nær
er mér að halda, að mynd hafi ekki sézt í íslenzku viku-
blaði fyrir aldamót, þegar frá eru tekin sérstök hátíða-
blöð, svo sem 50 ára afmælisblað Þjóðólfs. Ekki vil ég
þó fullyrða þetta, því að mér hefur ekki gefizt kostur á
að fletta blöðum sem skyldi til að ganga úr skugga um
það. Meðal hinna fyrstu blaða, sem flutti myndir var
Gjallarhorn á Akureyri á árunum 1902—04. Flutti það
meðal annars allmargar myndir frá stríðinu milli Rússa
og Japana. Annars fer ekki að koma verulegur skriður
á, að blöðin flytji fréttamyndir fyrr en á styrjaldarár-
unum 1914—18. Voru þá myndir frá stríðinu í þeim að,
staðaldri, en eins og vænta mátti, voru þær nokkurra
vikna gamlar, þegar þær komu til íslands og enn eldri,
þegar þær komu í hendur íslenzkum lesendum eins og
samgöngum var þá háttað, en vel voru þær þegnar og
vissulega skoðaðar af meiri vandvirkni en þær myndir,
sem vér fáum nú daglega heim til okkar af atburðum,
sem gerzt hafa lengst úti í heimi fyrir fáeinum klukku-
stundum. Ekkert skal fullyrt um, hvaða blöð hafi gerzt
brautryðjendur í myndflutningi, en ætla má að hin
ungu dagblöð, Vtsir og Morgunblaðið hafi verið þar
framarlega og við hlið þeirra gömlu vikublöðin ísafold
og Lögrétta.
Hér hefur verið drepið á sitthvað um myndir í blöð-
um og tímaritum fram á annan áratug þessarar aldar.
Þótt fljótt sé yfir sögu farið verður ljóst, að ekki var
um auðugan garð að gresja í þessum efnum, og að
myndir eru bæði fábreyttar og fáar allt fram undir
1920. Var það einkum þrennt, sem til kom. Kostnaður
við öflun mynda og myndamótagerð, vanhæfni margra
prentsmiðjanna að prenta myndir, svo vel færi á, og þó
umfram allt það, að engin myndamótagerð var til í
landinu sjálfu. Meðan svo stóð á, var vitanlega ókleift
að heita mátti að flytja samtíma fréttamyndir. Það þótti
því nokkrum tíðindum sæta, þegar Morgunblaðið flutti
samtíma myndir í sambandi við morð, er framið var í
Reykjavík 1913. Voru þær skornar í linoleum og frem-
ur illa gerðar sem vænta mátti.
Árið 1920 hóf Ólafur Hvanndal prentmyndagerð í
Reykjavík og lætur Eimreiðin þess getið í fyrsta hefti
þess árgangs, að höfundamyndirnar, sem þar eru birtar,
en það var þá nýjung að birta myndir höfunda með
greinum þeirra, séu fyrstu myndirnar, sem hér séu gerð-
ar eftir ljósmyndum.
Með íslenzkri prentmyndagerð verða tímamót í sögu
íslenzkrar bókagerðar og blaðaútgáfu. En um líkt Ieyti
og hún hófst gerast og þau tíðindi að risin er upp stétt
íslenzkra málara og teiknara, sem taka að gera myndir
í bækur og blöð, verður síðar að því vikið nánar. Hér
skal aðeins bundinn endi á sögu myndagerðar í blöð-
um og tímaritum með því að geta Spegilsins, sem stofn-
aður var 1926. Eins og menn minnast, var hann skop-
blað, og teikningar ætíð mikilvægur þáttur í því, sem
hann flutti. Gerði Tryggvi Magnússon listmálari flest-
ar þeirra á fyrri árum Spegilsins. Tveimur árum yngri
en Spegillinn var Fálkinn, sem tók upp þann þráðinn,
er Haukur hafði látið niður falla, en nú með miklu meiri
myndarbrag, enda ólíkar aðstæður. Lifir hann enn bezta
lífi, enda þótt margir keppinautar hafi risið á legg. Er
fróðlegt að bera saman hin fyrstu blöð Fálkans frá 1928
og blöðin eins og þau eru í dag. Sá samanburður segir
oss langa sögu um þróun tækninnar á sviði íslenzkrar
myndagerðar og myndprentunar.
(Framhald.)
SLÉTTUBÖND
eftir Friðbjörn í Staðartungu.
Saman flétta bragi ber,
bundna nettum höndum.
Gaman þetta ekld er
undir sléttuböndum.
FRÍMERKJASAFNARAR
Einar Jakobsson, Dúki, Sæmundarhlíð, Skagafirði, auglýsir:
Halló krakkar og frímerkjasafnarar! Sendið mér 30 eða fleiri heil
íslenzk frímerki og ég mun senda ykkur 100 mismunandi útlend í
staðinn.
Jón H. Magnússon, Lækjarskógi, pr. Brautarholti, Dalasýslu,
auglýsir: Frímerkjasafnararl Fyrir merki frá 1900—1940 fáir þið 7
erlend í staðinn; fyrir merki frá 1941—1953 fáið þið 6 erlend; fyrir
merki frá 1954-1964 fáið þið 5 erlend.
456 Heima er bezt