Heima er bezt - 01.11.1965, Blaðsíða 2

Heima er bezt - 01.11.1965, Blaðsíða 2
Eitt af sérkennum aldar vorrar eru hin auknu sam- skipti milli þjóðanna. Tækni nútímans hefur numið burt fjarlægðirnar, ef svo mætti að orði kveða. Vér förum heimsálfanna á milli á fáeinum klukkustundum, og fregnir af viðburðum, sem gerast hinum megin á hnetti vorum, berast nokkrum mínútum eftir að þeir gerast. Jafnvel sá Kínamúr, sem tungumálin reistu fyrr milli þjóðanna, er óðum að hrynja til grunna. Það má þakka aukinni menntun almennings og þeim skilningi, að það sé nauðsyn að geta látið í Ijós hugsanir sínar á öðru tungumáli en sínu eigin, og skipzt á hugmyndum við annarra þjóða menn á þeirra eigin tungu. Og jafnframt því sem tungur stjórþjóðanna verða almennari, hefir vaxið virðing fyrir tungumálum hinna smærri. En samfara þessum nánari samskiptum, eða sem af- leiðing þeirra, hefir þeirri skoðun stöðugt vaxið fylgi, að þjóðunum beri að vinna saman, og bera hver annarar byrðar, ef svo mætti að orði kveða. Tvær heimsstyrjaldir á einum mannsaldri hafa sýnt það, að vísasta leiðin til tortímingar mannkyninu, menningu þess og þroska er það að beita vopnavaldi til framdráttar hagsmunum sín- um. Styrjaldir eru ekki einungis böl hinna sigruðu held- ur einnig sigurvegaranna sjálfra. Sífellt opnast augu fleiri og fleiri ráðamanna fyrir því, að samstarf og samn- ingar séu farsælli lausn málanna, en hnefaréttur og vopnavald. Af þessu hugarfari eru sprottin hin víðtæku samtök Sameinuðu þjóðanna. Þetta er að vísu ekki nýtt með öllu. Tilraunir hafa verið gerðar áður í sömu átt, en aldrei hafa þjóðir heims náð eins langt og nú, og þeim skilningi vex fylgi, að þessi samtök ein megi verða þess megnug að skapa frið og láta rétt verða drottnandi í heiminum. Nær daglega berast oss fregnir af þessu starfi. Stund- um bera þær þess vitni að nokkuð þoki áleiðis í rétta átt en oft virðist oss í fjarlægðinni að starf Sameinuðu þjóðanna sé meira óendanleg ræðuhöld en framkvæmd- ir. En þótt þetta sé ekki með öllu rangt fer því fjarri að Sameinuðu þjóðirnar séu óvirkar, þótt vér í fásinninu hugsum svo. A þessu ári eru samtök þessi 20 ára. Það er ekki lang- ur tími í sögu þjóðanna. En víst er, að á þessum 20 ár- um hefir langtum meira verið unnið að því að færa þjóðirnar nær hverri annarri og skapa gagnkvæman skilning og samhjálp, en áður á 20 öldum tímatals vors. Og þetta hafa Sameinuðu þjóðirnar unnið. Nokkur dæmi skulu nefnd. Deilur milli þjóða, sem hefðu getað leitt til víðtækra styrjalda, hafa verið settar niður með samningum. Risavöxnum fjárhæðum hefir verið varið til að bægja brott hungri og sjúkdómum meðal vanþróaðra þjóða, og þeim verið hjálpað áleiðis til efnahagslegs sjálfstæðis og menningarþroska. Mark- víst er unnið að vísindarannsóknum á ýmsum sviðum, sem mega verða öllu mannkyni til blessunar. Og um- fram allt hefir sú skoðun sífellt unnið á, að allir menn eigi jafnan rétt til að lifa frjálsu menningarlífi án tillits til litar, trúarbragða eða kynferðis. Ef allt þetta á að dæmast einskis virði, er vandséð, hvað af störfum sam- tíðar vorrar hefir gildi í framtíðinni. Og þótt ef til vill sé meira skrafað og skrifað en brýnasta nauðsyn krefur, hefir við starf Sameinuðu þjóðanna, skapazt meiri frið- arhugur en áður voru dæmi til. Persónuleg kynni ráða- manna þjóðanna létta þeim samstarfið. Og gegnum allt ræðuflóðið frá öllum þjóðum heims skapast víðari sjón- deildarhringur, dýpri skilningur og meiri félagsandi, en þegar hver pukrar í sínu horni. Einkum er þetta mikilvægt smáþjóðunum, sem eiga allt sitt líf undir friðsamlegri þróun heimsmálanna. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna gefst þeim tækifæri til að láta til sín heyra og vinna málum sínum fylgi. í trausti þessa höfum vér íslendingar tekið þátt í þessu samstarfi þjóðanna frá upphafi. Vér höfum fyllt upp skuldbindingar vorar og tekið lífrænan þátt í hinu marg- þætta starfi eftir því sem aðstæður hafa leyft. Með því höfum vér aukið kynni á landi voru og þjóð og skapað oss virðingu á hinum alþjóðlega vettvangi. En slíkt er sterkasta vörn smáþjóðanna. Og þar sem atkvæði vort er jafngilt hinum stóru, hefir það skapað oss ábyrgðar- tilfinningu að fara með það eins og sæmir sjálfstæðri menningarþjóð. En réttur vor og ábyrgð á þessum vett- vangi skapar oss sjálfstraust. Þótt margt sé uggvænlegt í heiminum, eygjum vér samt ljósa bletti framundan, og við fátt munu bjartari vonir tengdar en hið aukna samstarf og vaxandi skiln- ing milli þjóðanna. St. Std. 386 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.