Heima er bezt - 01.10.1978, Blaðsíða 7

Heima er bezt - 01.10.1978, Blaðsíða 7
Núpur, Dýrafjörður séður úr Skógarbrekkum. eyri var heimavist, en ekki í Reykjavík. Ég borðaði alltaf í heimavistinni, alla veturna, sem ég var á Akureyri, og bjó þar í tvo vetur, en aðra tvo hjá Snorra heitnum Sigfússyni, fyrrv. námsstjóra. — Hvernig undir þú svo hag þínum á Akureyri, — með æskuslóðir föður þíns inni í Garðsárdalnum fyrir augun- um daglega? — Vel. Mér leið ágætlega á Akureyri og þótti gott þar að vera. Ég átti ágæt samskipti við margt frændfólk mitt norður þar, og var hálfgerður heimagangur hjá sumum frænda minna á Akureyri. — En hvað um veðurfar og umhverfi — var það ólíkt því sem þú hafðir átt að venjast í heimahögum þínum? — Nei, það læt ég allt vera. Dýrafjörður og Eyjafjörður eru álíka norðarlega, og hvað veðurfarið snertir er áreið- anlega minni munur á Dýrafirði og Eyjafirði en t.d. Dýrafirði og Reykjavík. Eins og ég sagði áðan, þá hefur hagkvæmnin vafalaust ráðið miklu um það að ég fór í Menntaskólann á Akureyri, en auk þess hefur pabba áreiðanlega verið Ijúft að ég væri á þeim slóðum þar sem hann þekkti vel til, og í námunda við frændfólk mitt, sem myndi rétta mér hjálparhönd, ef eitthvað bjátaði á fyrir mér. — Og þegar menn taka sig upp til langdvalar fjarri átthögum sínum, skiptir auðvitað ekki neinu höfuðmáli, hvort ferðalagið er einum sólarhring lengra eða skemmra? — Nei, að sjálfsögðu ekki. Ég fór alltaf með skipi að heiman og heim, og hafði gaman af þeim ferðalögum, enda ekki sjóveikur til baga, þótt ekki léti sjóveikin mig alveg afskiptalausan. Einu sinni man ég að ég fór með Súðinni gömlu, og hún stanzaði á hverri einustu höfn á milli Dýrafjarðar og Akureyrar. Það var löng ferð, en ekkert leiðinleg. — Þú sagðist hafa unað vel hag þínum í Menntaskól- anum á Akureyri. Hverjir kennara þinna heldur þú að þér séu minnisstæðastir? — Þegar svo er spurt, kemur nafn Sigurðar Guð- mundssonar fyrst upp í hugann. Hann er með eftir- minnilegustu mönnum, sem ég hef kynnzt. En margir aðrir eru mér einnig minnisstæðir. Dr. Kristinn Guð- mundsson var fjárhaldsmaður minn á meðan ég var í skólanum, en hann var kunnugur fólki mínu og mér frá gamalli tíð, þar sem hann hafði verið einn af nemendum pabba í Núpsskóla. Þá kemur mér enn fremur í hug dr. Trausti Einarsson, en hann kenndi einmitt eina þá náms- grein, sem mér lék hvað mestur hugur á að nema. Síðast en ekki sízt vil ég svo nefna Þórarin Björnsson, síðar skólameistara á Akureyri, ég á mjög góðar minningar um þann ágæta mann. — Hvernig stóð á því að þú valdir þér veðurfræði að sérgrein, þegar þú hafðir lokið stúdentsprófi? — Já, það er nú það. Mér fannst þá, að veðurfræðin væri sú námsgrein, sem væri einna skyldust því, sem mér hafði þótt skemmtilegast að læra í menntaskóla. Ég leit Heima er bezt 327

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.