Heima er bezt - 01.10.1978, Blaðsíða 18

Heima er bezt - 01.10.1978, Blaðsíða 18
SIGURLAUG GUÐMUNDSDÓTTIR, HORNAFIRÐI: Þegar ég eignaðist fyrstu peningana mína Mér hefur stundum dottið í hug, þegar ég heyri talað um öll þau ósköp af peningum, sem börn og unglingar hafa nú handa á milli og geta eytt þeim fyrir sælgæti og allskonar óþarfa sem hug- ur þeirra gimist, hver regin munur hefur orðið á kjörum fólks hér á landi síðan ég var barn. Langar mig því að segja frá því þegar ég eignaðist mína fyrstu peninga fyrir nærri 64 árum, en þá var ég 7 ára. Þetta var ekki stór upphæð á nútíma mælikvarða, aðeins einn tveggja króna silfurpeningur, en ég er þó viss um að ég gladdist meira, þegar ég eignaðist hann, heldur en börnin gjöra nú, þótt þau fái þúsundir króna í fermingar- og afmælisgjafir og aðrar stórgjafir við öll möguleg tækifæri. Ef til vill hef ég samt glaðst meira og innilegar yfir að eignast þessar krónur og atburðurinn orðið mér ennþá minnisstæðari af því ég hafði daginn áður orðið fyrir óhappi, og var því í döprum hug er mér hlotnaðist þetta óvænta happ. Þetta varseint á degi eitthvað um viku fyrir jól. Mamma var frammi í eldhúsi að búa til brauð fyrir jólin. Ég var því ein inni í herberginu, „húsinu“ sem þá var kallað, þar sem við mamma sváfum. Bræður mínir voru við einhverja vinnu úti svo og vinnumaðurinn. Ég vildi vera frammi hjá mömmu, en fékk ekki, þar sem ég var lasin af óvenju slæmu kvefi, sem þá var að ganga. Sagði mamma mér að hátta og lesa í bókunum mínum, en þær átti ég margar, enda orðin allæs fyrir löngu og var ég snemma mjög bókhneigð. Búið var að fara í kaup- staðarferðina fyrir jólin og vissi ég að einhversstaðar var geymdur lítill kertapakki með allavega litum jólakertum. En bæði var það að ég vissi ekki hvar þau voru og mér fannst meira gaman að geyma þau kerti til jólanna, og svo hafði verið keyptur pakki með stórum hvítum kertum og sagði mamma að ég mætti kveikja á einu þeirra, ef ég vildi heldur hafa svoleiðis ljós en lampaljós. Hún vissi sem var að böm eru alltaf nýungagjöm og myndi ég hafa gaman af að lesa við kertaljós. Kveikti hún svo á kertinu og setti í stjaka og lét hann á borð við rúmið mitt. Fór hún svo til sinna starfa. Er hún var farin fór ég að hugsa um að ég væri búin að lesa bækurnar mínar svo oft, að meira gaman væri að gjöra eitthvað annað að minnsta kosti fyrst. Klifraði ég því upp á stól og náði í kassa sem stóð á hillu uppi yfir dyrunum. Man ég hvað mér gekk illa að ná kassanum, því ég var ekki há í loftinu, en það tókst samt. í kassanum var ýmislegt dót, sem ég hafði gaman af að skoða og meðal annars var þar einn 10 króna gullpeningur sem mamma hafði fengið fyrir sauði er hún hafði selt skoskum fjárkaupmanni, sem hafði þá fyrir skömmu ferðast víða um land til að kaupa sauði. Vissi ég vel að peningurinn var geymdur þarna, en hafði aðeins einu sinni fengið að sjá hann og þótti hann mjög fallegur. Er ég hafði skoðað allt í kassanum fór ég að reyna að koma honum aftur á sama stað. Það gekk ekki vel en tókst þó að lokum. Þá datt mér í hug að ég skyldi fá mér einhverja bók úr bókaskápnum hennar mömmu. Það var miklu skemmtilegra en að lesa mínar bækur, sem ég var oft búin að lesa. Og hafði mamma ekki sagt að ég skyldi lesa á meðan hún væri frammi? Bækurnar mínar, já, en það var nú ekki sama og bækumar hennar mömmu, og mamma hafði stranglega bannað mér oft og mörgum sinnum að snerta bækurnar í skápnum á meðan ég væri svona ung. Stafaði það að sjálfsögðu af því, að hún hélt að ég færi ekki nógu vel með þær, en góðar bækur voru henni sem helgur dómur, sem varð að fara afar vel með. Ég hugleiddi þetta dálitla stund, en lykillinn stóð í skránni á skápnum og freistingin varð of sterk, en auð- vitað var ég staðráðin í því að passa vel að skemma ekki þá bók er ég tæki. Fyrir valinu varð eitt bindið af Ijóðmælum Matthíasar Jochumssonar, því ég hafði alltaf verið mjög ljóðelsk og kunni þá þegar mikið af ljóðum. Þegar ég opnaði bókina varð fyrst fyrir mér kvæðið Þorgeir í Vík. Fór ég að lesa það og varð mjög hrifin. Var ég búin að lesa 6 vísur þegar óhappið skeði. Þar sem ég hef alltaf verið mjög nærsýn þurfti ég að hafa bókina mjög nærri ljósinu og það vildi svo slysalega til að skar af kveiknum datt ofan á aðra blaðsíðuna og brenndi gat á blaðið, að vísu var það lítið gat, en þó nógu stórt til að brenna í burtu tvö orð. Mér varð mjög bilt við, og rétt í því kom mamma inn og sá hvað um var að vera. Varð hún reið, þótt stillt væri að jafnaði. Sagði hún að óhlýðni leiddi sjaldan gott af sér. Ég varð alveg eyðilögð yfir þessu og fór að vola. Skömmu síðar bar að garði ferðamann, sem bað um að lofa sér að vera um nóttina. Það var auðvitað sjálfsagt. Var hann mjög þreyttur og illa til reika, enda búinn að ganga 338 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.