Heima er bezt - 01.10.1978, Blaðsíða 26

Heima er bezt - 01.10.1978, Blaðsíða 26
SNÆBJÖRG SIGURGEIRSDÓTTIR: VINUR MINN Hann heitir Örlygur Pálsson, en fáir þekkja hans rétta nafn því einhverntíma í fyrndinni var honum gefið gælunafnið Ölli. — Þegar fólk " talar um hann segir það „hann Ölli“ í ein- hverjum sérstökum tón sem ég hef aldrei getað skilgreint. í þessum tón felst kannski hæðni, kannski meðaumkvun eða glettni, ég er ekki viss. Eða kannski er þessi tónn í rödd fólks bara tákn um hlutleysi, bara tómur og hljómlaus? — Ég veit það ekki og það skiptir heldur ekki meginmáli. En af hverju skyldi fólk tala um Ölla í sérstökum tón, frekar en aðra? Jú, það er af því að hann er ekki eins og við erum flest, hann er vangefinn. — Mér finnst það samt alls ekki réttlæta áðurnefndan tón. Fólk tekur því sem sjálfsögðum hlut ef einhver er rauðhærður, með hása rödd eða óvenju hár eða lágur. Það er bara eðlilegt, því fólk er ólíkt, ekki satt? Af hverju er Ölli þá ekki eðlilegur, þó að hann sé svolítið öðruvísi en aðrir? — Kannski að tónninn sé bara falskur? Mér finnst Ölli eðlilegasti maður sem ég hef kynnst. Snæbjörg Sigurgeirsdóttir á Önguls- stöðum er fædd 7. febrúar 1963. Hún er nemandi í 9. bekk í Hrafnagils- skóla. Snæbjörg á mjög auðvelt með að klæða hugsanir sínar í búning. Stíll hennar er víða svo myndrænn að lesandinn sér atburði og eiginleika sögupersóna ljóslifandi fyrir sér meðan hann les frásögn hennar. Þó varast hún að lýsa eiginleikum manna, heldur lætur hún þá sjálfa túlka þá með gerðum sínum og orðum. Hún hefur gott lag á því að láta heila frásögn felast í einni eða tveimur málsgrein- um. Eftirfarandi saga hlaut verðlaun úr Kristínarsjóði á síðast- liðnu vori. En Kristínarsjóður var stofnaður af nokkrum vinum og velunnurum Kristínar Sigfúsdóttur, skáldkonu frá Kálfa- gerði í Eyjafirði. Þeim sjóði er ætlað það hlutverk að verðlauna þá nemendur í Hrafnagilsskóla, sem sýna sérstaka færni í móð- urmáli sínu. I sambandi við það er efnt til sérstakrar ritgerðar- samkeppni innan skólans á hverjum vetri og taka allir nemendur þátt í henni. Snæbjörg hefur tvisvar hlotið verðlaun fyrir sínar ritgerðir ásamt þremur öðrum í hvort sinn. Það fer vel á því að hún hefur unnið til þessara verðlauna, því að hún er náinn ættingi Kristínar Sigfúsdóttur. A ngantýr H. Hjálmarsson. Hann er bara Ölli og ekkert annað. Það skiptir hann ekki máli hvort peysan hans er rauð eða blá, því hann er hreint og beint hann sjálfur, hvað sem öllu líður. En það má ekki taka það þannig að hann hafi engar skoðanir eða meiningar. Það veit guð að hann er ekki nein skynlaus vera, sem lifir án nokkurs tilgangs og deyr svo.— Það var annars ekki ætlunin að gera úr þessu heim- spekilega sögu í stíl við Laxness og Þórberg. Mig langar aðeins til að segja lítillega frá kynnum mínum af Ölla. Það var fyrir 6 árum að Ölli steig í fyrsta sinn inn á heimili mitt, þá 15 ára gamall. Pabbi hans og mamma voru að fara í utanlandsför, en þau voru vel efnum búin og teljast víst til þess hóps fólks sem sauðsvartur almúginn kallar „fína fólkið“. Mamma hans er fjarskyldur ættingi mömmu. Hún hafði aldrei haft neitt samband við okkur gegnum árin, fyrr en hún skyndilega birtist með son sinn og talaði ákaft um það hvað ættarböndin væru nú sterk og mikilvæg. Og hún sem aldrei hafði sent okkur jólakort hvað þá meira. En með hjálp sinna ævarandi ættarbanda og frændskapar gat hún talið mömmu á að hafa Ölla í einn stuttan mánuð, á meðan þau hjónin brygðu sér til Ameríku. „Hann hefur svo gott af því að vera í sveitinni,“ malaði hún, „innan um elsku litlu lömbin og grasið.“ Vesalings konan, hvað hún var grunnhyggin! Blessuð lömbin og grasið! Þetta var um miðjan janúar! En kannski hafa þessi orð aðeins sýnt hennar innsta vilja, því ef til vill hefur hún frá upphafi ætlað syni sínum að dveljast lengur en einn vetrarmánuð hjá okkur. Og þannig varð það einmitt. Þau hjónin komu aldrei að sækja Ölla. Það var eitthvað annað að gera hjá þeim, þau voru að flytja í nýtt húsnæði, karlinn var í aðgerð á Landsspítaianum og annað eftir því. Þegar liðið var rúmt ár frá komu Ölla, skrifaði mamma hjónunum og sagði að líklega væri það best fyrir báða aðila að Ölli yrði hjá okkur til frambúðar. Þau hjónin voru ekkert að malda í móinn. Það kann að hljóma undarlega, en ég virði þetta afskiptaleysi þeirra. Hefðu þau reynt að spyma við fótum, hefði það bara verið hræsni. Svo virtist sem Ölli saknaði foreldra sinna ekki teljandi. En ef minnst var á þau, varð andlit hans að einu brosi. Það sannar þakklæti hans í þeirra garð, þó svo að þau gæfu honum mestmegnis veraldleg gæði, en ekki mikla ástúð. Ölli er fullur af þakklæti til allra sem eitthvað fyrir hann gera, hversu lítið sem það er. Ef þú sendir honum lítið bros, færðu það margfalt til baka. 346 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.