Heima er bezt - 01.06.1981, Blaðsíða 30

Heima er bezt - 01.06.1981, Blaðsíða 30
Botna gamla hennar Þóru var raunar mesta þægðar- skepna og hafði aldrei brugðizt mér, það ég vissi. Þóra gamla hafði hana í kví, steypti saman undan henni og sendi einhverjum sér nátengdum safndallinn. En Botnu var illa við þursaskeggið, og svo gekkst hún upp við smjaðrið í Bíldu. „Hún Bílda kallar okkur madömur," sagði hún við hinar, um leið og hún stóð upp og hlassaði. „Ég verð með.“ „Ég fer ekki fetið,“ sagði Bjartleit. „Þið ættuð að kannast við fánaganginn og undirferlið í henni Bildu. Drengurinn sefur ekki næsta lengi, og svo sækir hann ykkur fram í Sel í nótt og þá fáið þið að teýgja úr klaufunum.“ Smalinn umlaði í svefninum, hefur víst haft eitthvert veður af fyrirhugaðri kröfugöngu, en kom ekki til sjálfs sín, sneri sér á hina hliðina og svaf enn vært og lengi. Loks vaknaði ég, nuddaði stírurnar úr augunum, kast- aðist á loft. „Guð minn góður, ég hef sofið yfir mig!“ Mér lá við gráti, leit upp. Það var komið fast að náttmálum — og ærnar á næsta leiti. En gleði mín varð skammvinn. Hér var ekki nema tæpur þriðjungur af ánum — og Bjartleit stóð þarna jarmandi og horfði ógn raunalega á mig. Gæðaskepnan vorkenndi mér. „Ég skil, Bjartleit mín, frenjan hún Bílda hefur stolizt fram í Selstún og haft hinar með sér.“ Ég var frekar rislágur, þegar ég kom með þetta hrafl í kvíarnar um kvöldið, nokkru fyrr en venjulega. Mjalta- konurnar voru ekki mættar, þegar ég var búinn að kvía. Ég mætti þeim á leiðinni heim. Það kom á þær, er þær sáu mig: „Hvað er að sjá þig, Mundi? Ertu veikur?“ „Ég kom ekki með allar ærnar, — vantar meiripartinn af þeim,“ stundi ég upp og lá við að fara að kjökra. Þóra gamla leit skrýtilega við mér og sagði: „Þú ferð þó ekki að vola út af þessu, drengur. Alltaf getur komið fyrir, að ær vanti, og þetta hefur aldrei komið fyrir þig fyrr. Nú ferðu heim að sofa, vaknar snemma í fyrra- málid og kemur með hinar. Tobba rekur þessar skjátur út í Ásana fyrir þig eftir mjaltir. Ég get látið mér detta í hug, að þú fáir einhvern tímann að súpa af því seyðið að vera að drösla þeim yfir í Síðumúlasel í Kjarardal. Þangað hefur alla tíð þótt löng fjárgata. Það sýna selin.“ „Dettur þér í hug, að ég láti allar þessar ær missa máls?“ Það var farið að síga í mig. Ég yfirgaf þær í fússi og fór rakleitt inn í eldhús til eldri Helgu. Eldhúsið var í barnsaugum mínum ákafiega stórt. Skuggsýnt var hið efra og mótaði fyrir fylkingum af hangiketskrofum uppi undir rjáfri. Helga kraup við hlóðin. Hún var há kona, beinvaxin og heldur holdskörp, augun blá og brá oft á þau mildum, fjarrænum glampa. eins og hún sæi eða væri að hugsa eitthvað sérlega geðfellt. Þarna sem hún sat við að baka kökur við hlóðaglæðurnar, fór þó ekki mikið fyrir henni. Ég sá, að hún hafði borið stóra strokkinn fram í eldhús, og á strokklokinu var feikistór, nýhnoðuð smjörskaka, en fjallhár kökustöpull á fjöl við hlóðasteininn. Hún starði inn í glæðurnar eins og hún væri að ráða einhverjar rúnir. Hún leit blíðlega við mér, er hún varð mín var. Augna- ráðið var spurult og ekki laust við áhyggjublæ. „Ertu kominn, Mundi minn? Viltu glóðheita köku með glænýju smjöri?“ Hún stóð upp, skar væna sneið af smjörskökunni, Iét á undirskál og rétti mér ásamt glóðvolgri köku. Ég ætlaði að fara að stynja upp, hvernig komið væri, en í því heyrði ég fyrirgang. Eldhúshurðinni var hrundið upp eins og einhver færi með asa. Inn kom yngri Helga, há og glæsileg kona, en ærið fyrirferðarmikil, fannst mér. Ég húkti lúpulegur með kök- una, því að mér þótti nokkur gustur standa af húsfreyju. Annars var hún mér jafnan góð, en ég hafði minna við hana saman að sælda en eldri Helgu, móður hennar. Það hafði líka alltaf vakið óhug hjá mér, hve gildvaxin hún var; mér ægði, að hún skyldi vera svona gildvaxin, kona á bezta aldri. Svo andlitið, sem raunar var fallegt nema hvað ég kunni ekki við þessa móleitu flekki á því, en aftur á móti gazt mér vel að smáhrukkunum á andliti gömlu Helgu. Enn var það, að ég svaf í bænum eldri Helgu. Hún minnti mig oft á að lesa kvöld- og morgunbænir mínar og biðja fyrir foreldrum mínum. Bæði af þessum ástæðum og öðrum var mér sérstaklega hlýtt til hennar. Ég var ekki viss um, að yngri Helga hafi strax tekið eftir mér þarna í eldhúsinu, þótt hana hefði ekki brostið kjark til að fara sínu fram, þótt hún hefði séð mig. Það var allmikill móður í henni er hún sneri sér að móður sinni og mælti skjótum orðum: „Það hefur verið lagið á strákgerpinu honum Munda í dag. Annaðhvort hefur hann sofið eða verið að ólmast við strákana. Það vantar mikið af ánum ykkar pabba og hér um bil allar ærnar okkar Runólfs míns!“ Eldri Helga svaraði af mestu hógværð, en nokkrum þunga: „Þú veizt það nú, Helga mín, að drengurinn hefur mörgu að sinna. Þarna fer hann á fætur undan öllum á morgnana til að smala, mokar svo fjósið og er á sífelldum þeytingi, þegar hann er heima, háttar ekki fyrr en komið er fram á nótt, þegar búið er að reka féð. Barnið þarf einhvern tím- ann að sofa....“ Meira heyrði ég ekki af orðaræðunum. Ég stóð upp í skyndi, lagði kökuna á borðið, snaraðist út úr eldhúsinu, hljóp í einum spretti upp að túngarði. Þaðan tók ég sprett- inn til fjalls. Þegar ég var kominn rösklega miðhlíðis, var ég búinn að fá óþolandi hlaupasting undir vinstri síðuna. Ég kastaði mæðinni og fór úr ytri buxunum. Tók svo aftur sprettinn, linnulaust upp á brún. Var þá að byrja að koma blóðbragð í munn mér. Ekki linaði ég samt á hlaupunum, en þaut eins og óður væri fram allar fjallabrúnir ýmist hábeljandi eða snöktandi. Þannig hélt ég ferðinni áfram alla leið fram í Selstún. Ég get ekki lýst hinum undursamlega, dularfulla næturfriði, sem hvíldi yfir dalnum. Áin, sums staðar Iognhyljaslétt, raulaði hinn eilífa söng sinn. Allt í hvíld og kyrrð. Hversu margar minningar geymdi ekki þessi unaðsdalur? Framhald. 214 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.