Heima er bezt - 01.05.1983, Blaðsíða 15

Heima er bezt - 01.05.1983, Blaðsíða 15
var það ekki valið af verri endanum, því mamma var örlát og heimili okkar vel bjargálna, sem kallað var, þótt ríkidæmi væri ekki. Mamma gaf mér líka föt sem hún áleit að væru mátu- lega stór á drenginn, en komst fljótt að því að slíkt þýddi lítið, því húsmóðir hans tók þau strax af honum og hafði þau handa sínum börnum. Þá bað ég mömmu að gefa mér góða, hlýja sokka og vettlinga og notaði hann þetta á daginn er hann stóð yfir sauð- unum, faldi þetta svo á kvöldin, áður en hann fór heim, því aldrei var vitjað um hann á daginn, hvað vont sem veður var. Fór hann þá aftur í ræfl- ana, svo enginn fékk nokkurn grun um þetta. Leið svo veturinn, en um vorið bað ég mömmu að reyna að útvega drengnum annan samastað. Það var nú hægar sagt en gjört að ná honum úr klóm hreppstjórans, en mamma dó ekki ráðalaus, var hún bæði greind og ráðagóð. Tók hún sér ferð á hendur og fór til kaupmannshjóna, sem hún þekkti á Reyðarfirði. Voru þau hjón bæði virt og vinsæl og ekki voru þau síst góð við fátæklinga. Sagði hún þeim allt um hagi drengsins og bað þau reyna ef mögulegt væri að ná honum frá húsbónda hans. Þau tóku því vel og kvaðst kaupmaður ekki trúa öðru en hann gæti fengið hreppstjór- ann til að eftirláta sér drenginn, ef kænlega væri að farið. Sagðist hann sjálfur ætla að taka drenginn með- lagslaust og gæti hann látið hann hafa smá sendiferðir fyrir sig, hann vantaði einmitt dreng til þess. Einnig kvaðst hann myndi sjá honum fyrir einhverri uppfræðslu, fyrst hann væri svona vel gefinn. Skömmu síðar fór svo kaupmaður á fund húsbónda drengsins og bað hann að eftirláta sér drenginn, þvi hann þyrfti alveg nauðsynlega á greindum og duglegum dreng að halda sér til hjálpar og skyldi hrepp- stjóri ekki þurfa að óttast, að hann krefði hreppinn um meðlag með honum. Var hreppstjóri lengi tregur til, en kaupmaður sagðist skyldu sjá það við hann í einhverju, ef hann sýndi sér þetta vinarbragð og þá var björninn unninn. Gat höfðingja- sleikjan ekki látið sér úr greipum ganga slíkt tækifæri, til að vingast við slíkan mann. Fór svo drengurinn til kaupmanns- ins og reyndust þau hjón honum mjög vel. Var hann hjá þeim í 3 ár. Kaup- maður var vel menntaður og kenndi hann drengnum margt. En hann var afar næmur og engum vandkvæðum bundið að kenna honum hvað sem var. Meðal annars kenndi hann hon- um Norðurlandamálin og talsvert í enskri tungu. Á þeim árum voru Ameríkuferðir íslendinga hvað mest- ar og þar sem drengurinn var nú bú- inn að læra svo vel ensku, að hann var orðinn vel sjálfbjarga, ákvað hann að taka sér far með vesturförunum. Hafði kaupmaður ekki látið hann fara allslausan frá sér. Eftir það frétti ég ekkert af drengn- um í 3 áratugi. Var ég þá giftur og fluttur í annað hérað. Þá var það einn sólhlýjan sumardag að til mín kom ókunnur maður. Var hann ágætlega búinn og frjálslegur í fasi. Var auðséð að þar fór enginn hversdagsmaður. Er hann hafði heilsað mér mjög vinar- lega sagði hann: „Þekkirðu mig ekki vinur minn?“ Ég kvað svo ekki vera. „Manstu ekki eftir fátæka drengnum sem þú og móðir þín hjálpuðuð mest og best?“ Nefndi hann svo nafn sitt og kvað sig aldrei geta þakkað okkur svo sem vert væri. Nú væri hann orðinn bankastjóri í Montreal, vel efnaður, giftur og ætti góða konu og efnileg börn. „Og allt á ég þetta þér að þakka og kom ég aðeins til íslands til að þakka þér, og sjá þig, því við engan annan á íslandi hef ég nokkuð að virða.“ Var hann svo hjá mér í hálfan mánuð og höfum við síðan skrifast á og munum gjöra á meðan báðir lifum, sagði Gísli að lokum. Nú er sagan búin, en mig langar að endingu að geta þess að einn af sonum Gísla var seinna nafnkenndur fræði- maður. Er eitthvað til svo dularfullt og óáþreifanlegt í þessum efnisheimi sem við lifum í, að ekki sé hægt að skýra það? Getur það verið að hægt sé að sjá svipi framliðinna...? Hefði þessum spurningum verið varpað fram svo ég hafi heyrt í æsku, þá hefði ég þegar svarað neitandi. En svo kom fyrir mig atvik. Já, ósköp hversdagslegur atburður mun ykkur lesendum finnast. Þó er þessi atburður sá eini sem ég hef lifað, sem ég hef aldrei skilið, eða fengið skýringu á. Og frá því ég lifði þennan atburð hefi ég aldrei efast um að til væri margt sem við fæst sjáum eða skiljum hér í heimi. Og nú langar mig hér á eftir að skýra frá þessum atburði. Þeim at- burði, er varð þess valdur að ég hef aldrei síðan efast um að þeir látnu, bæði menn og skepnur, eru hér á meðal okkar, þó fæst verðum við nokkurs vör. Það var skömmu eftir 1930. For- eldrar mínir bjuggu þá í gamalli torf- baðstofu. Á efri hæð hennar voru miðbaðstofa, þar sem uppgangan var í baðstofuna, og útihús og framhús er sneru í suður með allstórum glugga á stafni. Á neðri hæð var sama her- bergjaskipan. En komið var inn í eld- húsið undir miðbaðstofunni inn úr löngum göngum. Og ekki þurfti að fara inn í eldhúsið áður en gengið var upp á pallskörina. Tveir gluggar voru á eldhúsinu. Sneru þeir upp að Aust- urfjallinu og voru þeir báðir uppi undir lofti. og bratt upp í þá. Djúpar gluggatættur voru að gluggunum úti, sem fljótt fylltust af fönn ef eitthvað snjóaði og vindur var. Svo er það á annan í jólum. Við erum að borða hádegismatinn. Úti er hríðarveður og gluggar hálffullir af fönn, svo rokkið er í eldhúsinu, þótt um hádag sé. En . . . allt í einu 158 Heimaerbezt RÖGNVALDUR ERLINGSSON EGILSSTÖÐUM: Var það kisi minn? heyrum við mjög vesældarlegt kattar- mjálm. Við hrökkvum öll við, höfðum ekki búist við neinu hljóði, og alls ekki svona ámátlegu og sársaukafullu veini. Þetta líktist helst neyðarópi. Gamla kisa min er setið hafði fyrir framan kolaeldavélina og látið fara vel um sig úfnar strax öll og stekk- ur þegar upp á matarbekkinn, þó þar væri fullt af matarílátum. Það hafði hún aldrei gert fyrr, en hún er líka vel upp alin og kurteis köttur. Við förum nú að horfa eftir hvaðan hljóðið komi og sjáum þá að utan við gluggann í snjóskaflinum situr gul- bröndóttur stór köttur alveg eins fast við rúðuna og hann komst og starir stórum umkomuleysisaugum á mat- arborðið. Pabbi bregður þegar við, klæðir sig í utanyfir fötin og fer út í hríðina og reynir að handsama kött- inn, en pabbi var mikill dýravinur. Stakk hann kjötbita í vasann, vonaði að það auðveldaði honum að ná kett- inum ef hann rétti honum mat. En hann átti þó frekar von á að þessi flækingsköttur myndi fljótt láta fætur forða sér er hann yrði hans var, því sú var reynsla okkar af svona flækingum. Þeir skutust alltaf í felur ef þeir urðu manns varir. Og ef til vill var reynsla þeirra af mönnum á þann veg að þeir hefðu fulla ástæðu til ótta. En nú brá svo við að strax og kötturinn varð pabba var kom hann til hans og nuddaði sér malandi upp við fótleggi hans. Hvort það var hungrið, eða hann var alinn upp við gott atlæti, en ævintýraþráin hafði villt út á þessa hálu lífsbraut, læt ég ósagt. Eftir því sem ég umgekkst kisa meira, en þetta var högni, þá tel ég líklegra að ævin- týraþráin hafi villt hann út á þessa flækingsbraut, því ekki virtist hann hræddur við neinn mann er til mín kom, meðan hann dvaldi hjá mér. Mér fannst það væri því mjög líklegt eftir háttalagi kisa. Hann hafði alist upp hjá góðu fólki! En eftir nokkra stund kom pabbi aftur inn, og með kisa. En þá kom strax vandamál í ljós, því kisa mín tók illa á móti gestinum. Kannski var þetta barnsfaðir hennar. Hún hafði nokkrum sinnum eignast kettlinga, þó við hefðum aldrei séð herra hjá henni. Ef til vill var þessi kisi bölvaður flag- ari og glaumgosi sem flakkaði á milli bæja og afvegaleiddi og táldró heið- virðar kattaheimasætur. Og svoleiðis háttalag hefur aldrei vinsælt þótt. En hér var því strax ljóst að til hávaða og árekstra myndi draga milli kisu minnar og gestsins. Og svo fylgdi vond lykt gestinum og eflaust óþrif einnig. Við ákváðum því þegar að reyna að geyma kisa í gripahúsi er Gimbrahús nefndist og var næst bænum af fjárhúsunum. Ég bjó mig því út í hríðina með kisa, þegar hann hafði fengið að borða eins mikið og við þorðum að leyfa honum eftir svona langa föstu eða sult því aldrei hafði ég séð horaðri skepnu, aðeins skinn og bein. Næstu daga, já, vikur, dvaldi hann í fjárhúsinu. Ég færði honum matinn einu sinni á dag, alltaf um leið og ég hýsti féð á kvöldin. Hann varð því fljótt hændur að mér og reyndi með ýmsu móti að sýna mér þakklæti sitt og vinarhót í athöfnum sínum. En svo var það eitt kvöld, þrem mánuðum eftir að hann kom, að hann var horfinn, og ég fann hann hvergi hvernig sem ég leitaði, eða kallaði. En ... mér kom það ekkert á óvart. Ég hafði alltaf búist við að er sól hækkaði á lofti og tíð batnaði myndi ævintýra- löngunin grípa hann, því flökkueðlið virtist svo ríkt í kisa. En ég saknaði hans. Það var líka orðinn svo ríkur vani hjá mér, að færa honum matinn og strjúka hann svolitið, að mér fannst tómlegt í húsinu fyrst á eftir. Og það leið hálfur mánuður að ekki kom kisi aftur, eða ég frétti neitt til hans. En þá er það eitt sinn síðla kvölds. Á þessum árstíma var alltaf siður að hýsa seint ef tíð var góð. En þennan dag hafði verið sólskin og stillt veður, svo ég var með seinna móti að hýsa um kvöldið. Það er því orðið dálítið rökkur í húsinu, en á því var bara einn gluggi, á stafninum yfir dyrunum beint á móti garðahöfðinu. En í þessu garðahöfði hafði kisi alltaf setið um veturinn, er ég færði honum matinn. Þegar ég hef staðið æðistund innan við dyrnar til að venjast rökkr- inu og láta mér birta fyrir augum, tek ég allt í einu eftir því að kisi minn er kominn aftur. Hann stendur þarna á garðahöfðinu, svona vinalegur að sjá með skottið spennt upp í loftið. En .. . ég heyri ekkert mal í honum, eins og hann var þó vanur í þessum stelling- um. En ærnar voru byrjaðar að ryðjast inn í húsið með hávaða og látum, svo kannski var ekki von ég heyrði í kisa malið. Ég hugsaði mér að hlaupa strax heim, en ég hef víst ætlað að ná í mat handa kisa. Hann hlaut að vera orð- inn svangur, þó hann bæri sig ekki þesslega eftir svona langa fjarveru. Og um leið og ég halla aftur dyrunum meðan ég geng heim eftir mat lít ég til kisa. Og um leið rís hann á fætur og horfir svo vinalega til mín. Alveg eins og hann var vanur er ég var að strjúka hann um veturinn. En þegar ég kem aftur með matinn er kisi horfinn. Og hvernig sem ég leita og kalla finn ég hann ekki. En tveim dögum síðar frétti ég eftir áreiðanlegum manni, sveitunga mínum nokkrar bæjarleiðir frá mér, að hann hafi skotið gul- bröndóttan kött að morgni fyrir tveimur dögum. Var það kisi minn? Eða getið þið lesendur góðir skýrt þessa sýn mína? Heima er bezt 159

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.