Heima er bezt - 01.03.1987, Page 23
ARNFRÍÐUR SIGURGEIRSDÓTTIR
á Skútustöðum:
Að vetumóttum
(Erindi flutt á slœgjufundi)
í kvöld minnist ég Mývatnssveitar, um
leið og ég kveð sumarið og þakka því
liðna hamingjudaga. Þó að það færði
okkur stundum hret og kulda, andaði
hálfu oftar frá því sólskini og sunn-
anblæ.
Aldrei hefur mér virzt sveitin mín
fegurri en í faðmi þess, hvort sem
geislar morgunsólar féllu á vötn
hennar, bláfjöll og grænan gróður,
eða kvöldsólin sló gullnum bjarma á
láð og lög. „Blessuð sértu, sveitin
mín.“ Sú bæn stígur upp frá hjörtum
allra til hinnar glæsilegu móður, sem á
ást okkar og aðdáun. Skartklæði hafa
henni verið gjörð fyrr og síðar, bæði af
börnum hennar, gestum og gangandi.
Aldrei hef ég þó gerzt svo djörf að
bæta þar við einu spori, en þakklát er
ég þeim, sem hafa glæst hana í
bundnu máli og óbundnu, og annast
vildi ég mega um allt það, sem má
auka sæmd hennar og halda minn-
ingu hennar í heiðri.
Fáir munu þeir, sem að koma úr
austri eða vestri, og staðnæmzt hafa,
þar sem fyrst sér yfir Mývatnssveit,
hvort heldur er í Námaskarði eða á
Brattaási, að þeir kenni ekki fagnaðar
við fegurð hennar, og þá eigi síður
ferðamaður sá, sem reikar árdegis um
bakka Laxár og lítur hvítfyssandi
öldur hennar glitra í sólarljósinu, eða
hinn, er berst yfir spegilslétt vatnið á
hljóðu vorkvöldi, þræðir víkur þess og
voga milli blómskrýddra hólma og
hávaxinna dranga, en hverfur svo að
lokum milli blárra fjalla í leit að kirkju
meistarans mikla og finnur þar hvíld
og frið.
Eins og að líkindum lætur, hefir
mörgum þessum mönnum orðið ljóð
á munni á slíkum stundum, og munu
nokkur nöfn hér nefnd, því til sönn-
unnar.
Einar Benediktsson kveður um
Slútnes, Sigurður Vilhjálmsson
minnist Laxár, Stórugjár og Reykja-
hlíðar, Jakobína Johnson Dimmu-
borga, Indriði á Fjalli og Guðmundur
á Sandi tala hlýlega til byggðarinnar,
þegar þeir fara þar um, og ýmsir fleiri.
Mun þetta allt varðveitast enn um
langan tíma.
Öðru máli gegnir um stökurnar,
sem þó munu hafa legið mönnum
lausari á tungu fyrr á árum en kvæðin.
Segi vísurnar ekki til sín sjálfar,
gleymist oft tilefni þeirra og upphaf-
leg mynd, og jafnvel stundum höf-
undarnir sjálfir.
Meðal fyrstu vísna, sem ég kunni,
voru tvær vísur, sem mér var sagt að
væru um Mývatnssveit, og tildrög
þeirra þessi: Það var á einu hausti, að
haldin var veizla nokkur að Ytri-Nes-
löndum. Var eitt af því, sem haft var
þar til skemmtunar, að menn ortu
vísur hver í kapp við annan og kváðu
við raust. Höfðu þeir frændurnir,
Gamalíel Halldórsson og Illugi Ein-
arsson, gjört sína vísuna hvor. Vísu
Gamalíels heyrði ég fyrst fullorðin og
lærði ekki, en vísa Illuga, sem ég
kunni í bernsku, er svona:
Sumri hallar, hausta fer,
heyri snjallir ýtar,
hafa fjallahnjúkarnir
húfur mjallahvítar.
Þóttu vísur þessar vel kveðnar þá.
Helga Sigmundsdóttir, heimasæta í
Vindbelg, var þarna ein meðal boðs-
gesta. Þótti henni halla á kvenfólkið
við kveðskapinn. Leitaði hún þá lið-
sinnis Kristínar Andrésdóttur á Hofs-
stöðum. Hafði Kristín oft verið á
hagyrðingaþingi með öðrum Mý-
vetningum og ætíð þótt hlutgeng. Við
þetta tækifæri kvað hún:
Fýkur mjöllin feiknastinn,
fegurð völlinn rænir.
Hylja fjöllin sóma sinn,
silungshöllin skænir.
Þessa vísu lærði ég barnið um leið
og vísu Illuga.
Helga Sigmundsdóttir var talin
gáfuð kona og gagnmerk. Hún varð
þriðja kona Helga Ásmundssonar
bónda á Skútustöðum. Sagði hún
sögu þessa syni þeirra, Hjálmari, föð-
ur séra Helga á Grenjaðarstað, en
hann fóstursyni sínum og frænda,
Hjálmari bónda í Vagnbrekku, en
Hjálmar mér. Er þetta samhljóða frá-
sögn ömmu minnar, sem var dóttir
Kristínar, stjúpdóttur Helgu. Heyrði
ég i æsku engan efa sannindi sögu
þessarar.
Undraðist ég því mjög, þegar ég á
fullorðinsárum sá þess getið í tímariti,
að einmitt þessar tvær vísur, sem ég
hef tilgreint, væru ortar á Austur-
landi, og löngu síðar sá ég því sama
haldið fram í „Heimskringlu“. Telja
Austlendingar þeir, sem að þessu
standa, máli sínu til sönnunnar, að
vísur þessar hafi verið til í skrifaðri
bók i eigu þeirra, sem þeir telja, að
hafi kveðið þær. Þetta álít ég þó litla
sönnun, því að um þessar mundir og
síðar var algengt, að menn, sem gátu,
skrifuðu í bækur kvæði og vísur eftir
ýmsa höfunda, þekkta og óþekkta,
eins þeir, sem aldrei höfðu vísu ort.
Gætu vísur þessar hafa borizt til
Austurlands með Halldóri Jónssyni
hreppstjóra á Arnarvatni, sem um
þessar mundir fluttist þangað, en
hann var hagyrðingur sjálfur og hefir
sennilega verið einn meðal þeirra,
sem ortu á Neslöndum.
Að lokum vil ég geta þess, að vísuna
„Sumri hallar, hausta fer“, hefi ég séð
Heima er bezt 95