Gripla - 01.01.1979, Side 49
FJANDAFÆLA GÍSLA JÓNSSONAR LÆRÐA
45
vmm þetta fiós salugj sera Gyssur Gamalielz son, þá eg var á Thorffu-
stódum efri nu firir 9 árum, Og eg villdi fiossinz trodning eckj leingur
30 lýda, til sanninda merkis hier vmm skriffa eg mitt naffn hier vndir, ad
Melracka dal i Wijdirzdal, þann 22 Januarij dag, Anno 1657.
Gijsli Jonsson
m: Eh
Þetta ad vera Rietta Copiu eptir Originalnum vottum vid vndirskriff-
35 adir, Ad Stadarbacka J Midfyrdj, þann 26 Julij, Anno 1658.
Biarni Arngrýmsson Sigurdur Jonsson
Egh med Eh.
Ingjaldur Illugason sem um er rætt í bréfinu var lögréttumaður og
hafði umboð Miðfjarðarjarða.13 Hann lést 26. maí 1643, og hefur
ágreiningur Jóns Jónssonar á Torfustöðum neðri og Ásgríms ívarssonar
í efra bænum risið fyrir þann tíma. Þá var Gísli kominn í Miðfjörð, en
ekki kemur fram á hvaða bæ hann var. (Síðar segir Jón frá Grunnavík
að Gísli hafi búið á Króksstöðum í Miðfirði.) Árið 1648 eða um það
bil hefur Gísli verið á Torfustöðum efri í Miðfirði, en síðar hefur hann
farið í Melrakkadal í Víðidal, þar sem hann var þegar bréfið var skrifað
1657.
í latínuriti Páls lögmanns Vídalíns (1667-1727), Recensus poetarum
et scriptorum Islandorum hujus et superioris seculi, hefur verið grein
um Gísla í Melrakkadal. Rit Páls er ekki til í upphaflegri mynd, en hefur
varðveist í ágripi Hálfdanar Einarssonar skólameistara og í íslenskri
þýðingu séra Þorsteins Péturssonar á Staðarbakka. Hálfdan hefur tekið
greinina um Gísla upp í ágripið, lítið stytta að því er virðist, en þó er
smávegis umfram í þýðingu séra Þorsteins sem líklegt er að Hálfdan
hafi sleppt. Upphafi greinarinnar snarar Hálfdan á íslensku og þjappar
efninu saman, svo að frásögnin af uppvexti Gísla verður hóti rækilegri
í þýðingu séra Þorsteins. Er þar sagt að hann væri almúgakyns, og var
hann haldinn hafa lært ungur fjölkynngi hjá föður sínum, en farið öðru
vísi með, því að faðir hans gerði engum mein og hélt heimuglega hjá
sér sinni konst, en Gísli tók með aldrinum að verða ófrægur og óþekkur
öllum góðum mönnum og jafnvel föður sínum fyrir ómennsku og
galdra. Nítján vetra gamall fór Gísli út í Grímsey að forða sér frá sví-
virðu, segir enn eftir riti Páls, og var hann þar til 36 ára aldurs. Þegar
13 Einar Bjarnason, Lögréttumannatal, bls. 251-2.