Gripla - 01.01.1979, Page 59
FJANDAFÆLA GÍSLA JÓNSSONAR LÆRÐA
55
beins Grímssonar, og segir á forsíðu fyrir kvæðinu að hann sé ‘upp
kloradur ad nyu 1773 af Joni Suein(ssine)’. (í þriðja tölustaf 7 er
dregið með ritblýi eins og hafi átt að breyta honum í 2.) Aftarlega í
þessum hluta er kvæði til konu sem misst hefur mann sinn og er það
‘ort af sal(uga) Jone Halldors sine’ (Heyrðu núna, hringaslóð). Úr upp-
hafsstöfum erinda má lesa HERDJS ALEXJVSDOTTER. Tvær systur
voru með því nafni í Árneshreppi í Strandasýslu og varð sú hin eldri
ekkja 1764.29 Til hennar kynni kvæðið að vera ort. Þá fer á eftir sálmur
(Herra Jesú, hjálpin manna) þar sem upphafsstafir erinda mynda nafnið
HALLGJERDVR. Því næst eru vísur til konu, og við lok þeirra at-
hugasemd skrifara: ‘epter atoris hendi upp klorad anno 1781 af Jone
Sueinss(ine)’.
Á auða síðu í lok gamla hlutans er m. a. hripað: ‘Þessi blod a hofd-
ings kuin(na) Gudrun Gudmundsdotte[r] a Kalldbake’. Guðrún var
kona Jóns Sveinbjörnssonar bónda á Kaldbak, Strand. Dóttir þeirra
var gift Gísla Sigurðssyni hreppstjóra. Þau fluttust frá Kaldbak 1824
að Bæ á Selströnd.30 Aukablöðin sem bætt er aftan við gamla hlutann
í JS 26 8vo eru sum gerð úr umslögum bréfa til Gísla hreppstjóra, sem
þá hefur verið kominn að Bæ.
Annað nafnakrot verður ekki rakið út í æsar. Þó má geta þess að á
ungu blöðin aftast í handritinu er hripað ‘Gisli Gisla son’, en það hét
sonur Gísla hreppstjóra í Bæ. Þar er einnig nafnið ‘Solveig Biarna
dottir’, og gæti hún verið dótturdóttir Gísla hreppstjóra með því nafni,
dóttir Bjarna Ásgeirssonar og Solveigar Gísladóttur. Önnur kona með
þessu nafni var Solveig Bjarnadóttir frá Goðdal, barnsmóðir Gísla
Gíslasonar frá Bæ, og kæmi hún líka til greina.31 Þá er á nokkrum
stöðum nafn Ragnhildar Þorsteinsdóttur, og er að sjá sem hún hafi
verið eigandi. Óvíst er hver hún var, en benda má á að stúlka með
þessu nafni var í Sunndal á heimili Jóns Jónssonar bónda, þegar þar
var tekið manntal 1845. Annar bóndi í Sunndal var þá Gísli Gíslason
frá Bæ.32 Á spássíu í gamla hluta handritsins stendur að því er virðist
‘Beniamin Biarnason’. Maður með þessu nafni var í Strandasýslu.33
29 Jón Guðnason, Strandamenn, Rvk. 1955, bls. 527 og 524.
30 Sama rit, bls. 436 og 386.
31 Sama rit, bls. 386 og 415.
32 Manntal 1845. Handrit í Þjóðskjalasafni.
33 Finnur Sigmundsson, Rímnatal II, Rvk. 1966, bls. 20.