Gripla - 01.01.1979, Page 111
FIMM HUNDRUÐ ÁRA DÓMUR 107
Handrit 5-gerðar, texta Vilhelms Frímanns Jónssonar, er að finna í
Lbs. 1313 4to.
A höfum við borið saman við Lbs. 1727 8vo, sem er skrifað af Oddi
Erlendssyni, að nokkru leyti 1835. Hvorttveggja er með gamallegu sett-
letri og örugglega skrifað af sama manni.
X er að vitnisburði skrifara gerð “eptir annari, sem Jón Þorsteinsson
á Vindási á Landi hafði undir hendi”, og ber X þess glögg merki að
vera skrifuð beint eftir A: Annars vegar er stafsetning og bönd að heita
má allt að einu, og hins vegar eru settir punktar á tveim stöðum í X,
þar sem A er sködduð og verður ekki lesin með vissu.
Y fylgir eftirfarandi vitnisburður: “Að þetta framanskrifaða eptirrit
af dómi um Holtamanna og Landmanna-afrjett, sé samhljóða öðru mér
sýndu eptirriti, sem töluverðt var farið að mást en þó ennþá var læsilegt
það votta eg hérmeð. Vatnsdal. 20. d. ágústm. 1858. St. Thordersen
settur”. Enda þótt Y fylgi ekki stafsetningu A af jafnmikilli smásmygli
og X, leikur þó enginn vafi á að Y er einnig skrifuð eftir A, en A hefur
þá ekki verið eins sködduð og þegar X var gerð.
B fylgir einnig A þar sem A og aðrar uppskriftir A-gerðar greinir á.
B á því ugglaust rætur að rekja beint til A að svo miklu leyti sem B er
uppskrift en ekki fals.
Z, Þ og Æ skipa sér saman í flokk hvað texta snertir, þ. e. a. s. hafa
nokkur sameiginleg frávik frá texta A (og um leið X og Y), sem þó eru
öll óveruleg og breyta engu efnislega. Sum sameiginleg lesbrigði Z, Þ
og Æ gagnvart A kynnu að vera upphaflegri og benda til sameiginlegs
forrits sem verið hefði systurrit eða hugsanlega móðurrit A, en með því
að sameiginlegu frávikin eru svo óveruleg, eins og áður segir, er ekki
loku fyrir það skotið, að sameiginlegt forrit Z, Þ og Æ hafi verið dóttur-
rit A. Um þessa þrjá texta skal það að öðru leyti tekið fram, að Z og
Þ hafa hvor um sig æðimargar sérvillur sem girða fyrir að annaðhvort
þessara handrita væri af hinu komið, en á hinn bóginn er Æ náskylt Z,
og hefði jafnvel mátt ætla að Æ væri skrifað eftir Z, ef Z væri ekki að
öllum líkindum yngra handrit en Æ.
Samkvæmt framansögðu virðast eftirfarandi kostir trúlegastir, að því
er varðar samband textanna: