Gripla - 01.01.1979, Síða 161
GERÐIR GÍSLASÖGU
157
alla M-gerðina ómerkilega fyrir þá sök. En ekki er hægt að fordæma
aðra og sjá í gegnum fingur við hina. Hið sama verður að ganga yfir
báðar gerðir, og sannast sagna eru það harla léttvæg rök gegn sögu
að í henni finnist efni sem ber keim af fornaldarsögum. Efnisatriði af
því tagi er að finna í fjölmörgum íslendingasögum, og sumum þeirra
gömlum. í Eglu er sagt frá víkingu og einvígum við berserki,11 Björn
Hítdælakappi heyr einvígi við mikinn kappa og berst við flugdreka,12
svo að dæmi séu nefnd. Fornaldarsögur hafa verið sagðar hér á landi
a. m. k. frá byrjun 12. aldar, sbr. frásögn Sturlungu af Reykhólabrúð-
kaupinu 1119.13 Því er á engan hátt óeðlilegt að áhrifa frá þeim gæti
í íslendingasögum, og þá helst þegar sagt er frá atburðum sem gerast
utanlands.
Ugglaust verður seint úr því skorið hvort frásögnin af víkingaferðum
þeirra Súrssona er upprunaleg í Gíslasögu, en ekki er úr vegi að hyggja
nokkuð að því hvers konar verk Gíslasaga hefur verið þegar hún í
öndverðu kom frá hendi höfundar síns. Flest bendir nefnilega til að
hún hafi ekki verið svo fullkomin sem talið hefur verið til þessa. Bæði
í S og M er allmikið af klausum sem eru óþarfar fyrir söguþráðinn og
oft til stórra lýta á list sögunnar. Skulu nú tínd til örfá dæmi:
Þegar Ari Þorkelsson er fallinn í hólmgöngu við Björn hinn blakka
kveðst Gísli bróðir hans ætla að ganga á hólm við Björn frekar en
berserkurinn fái konu Ara og eignir. Ekkja Ara ræður Gísla til að fá
léð sverð hjá Kol þræl. Hún hafði látið hjá líða að ráða bónda sínum
þetta ráð og því er það óþörf árétting í M þegar Ingibjörg segir: ‘Eigi
var ek af því Ara gipt at ek vilda þik eigi heldr átt hafa . . .’ (ísl. fornr.
VI, 5.) Þessi viðurkenning Ingibjargar er ekki í S en þar er hliðstæð
játning þegar Auður bregður Ásgerði svilkonu sinni um að hún beri
hlýrri hug til Vésteins Vésteinssonar en Þorkels bónda síns. Þá svarar
Ásgerður því til að svo muni henni þykja nokkra stund, og bætir síðan
við í S-textanum: ‘. . . ok meira ann ek honum en Þorkeli bónda
mínum, þótt vit megim aldri njótask.’ (Membr. Reg. Dep., bls. 21.)
Allmikið er af klausum í báðum gerðum þar sem lýst er fornum
siðum og venjum. Ur S má taka sem dæmi:
í þenna tíma var kristni komin í DanmQrk, og létu þeir Gísli
11 ísl. fornr. II, 114-119, 126-127, 202-206, og víðar.
12 ísl. fornr. III, 120-122, 124.
13 Sturlunga saga I, Rvík 1946, bls. 27.