Gripla - 01.01.1979, Síða 180
HERMANN PÁLSSON
ORÐ VÉSTEINS
Þótt Vésteinn Vésteinsson gegni býsna merkilegu hlutverki í Gísla
sögu, þá eru honum lögð orð í munn á einungis tveim stöðum í allri
sögunni. í fyrra skiptið hagar svo til, að Gísli hefur sent húskarla sína
tvo norður til Önundarfjarðar þeirra erinda að vara Véstein við og telja
hann frá að koma í heimsókn að sinni, og þó eru þeir Gísli og Vésteinn
virktarvinir og mágar. En Vésteinn hefur átt vingott við Ásgerði,
bróðurkonu Gísla, og hefur komizt upp um kunnleika þeirra, svo að
Vésteinn á fjandskap að mæta af afbrýði bónda hennar Þorkels, sem er
bróðir Gísla og býr samtýnis honum í tvíbýli við Þorgrím, mág þeirra.
Þorkell, Þorgrímur og seiðmaðurinn Þorgrímur nef eru þess albúnir að
veita Vésteini ómilda móttöku: þeir hafa gert vandað spjót, mikið
morðvopn, úr brotum óheillasverðsins Grásíðu. En sendimenn Gísla
fara á mis við Véstein og ná honum ekki fyrr en hann er kominn suður
um vatnaskil Gemlufallsheiðar. Þeir segja honum erindi sín og bera
fram jartegn máli sínu til sönnunar. Svör Vésteins eru ekki samhljóða
í tveimur varðveittum gerðum sögunnar, og er nokkur fróðleikur að
bera þær saman:
M
‘Satt eitt segið þið,’ segir
hann, ‘og myndi ég aftur hafa
horfið, ef þið hefðuð hitt mig
fyrr. En nú falla öll vötn
til Dýrafjarðar, og mun ég
þangað ríða, enda er ég þess
fús. Austmenn skulu hverfa
aftur. En þið stígið á skip,’
segir Vésteinn, ‘og segið Gísla
og systur minni þangaðkomu mína.’
S
‘Satt eitt segið þið,’ kvað
hann, ‘og mundi ég aftur hafa
horfið, ef þið hefðuð mig
fyrr fundið. En nú falla vötn öll til
Dýrafjarðar, og mun ég nú þangað ríða
því að ég er fús að hitta mág minn
og systur — hefur mjög langt orðið
funda í milli. En Austmenn skulu
aftur hverfa. Þið skuluð hafa leið hina
skemmstu, er þið eruð í göngu, og
segið Gísla og systur minni þangað-
komu mína. Ætla ég þar að koma
að heilum mér.’