Gripla - 01.01.1979, Page 189
DULARGERVI í HALLFREÐAR SÖGU
185
eigninni og raunar kemur það ekki við sögu síðar. En í Stjórn skiptir
vopnið miklu máli. Svo hagar til að Davíð er vopnlaus þegar hann
kemur á fund Abimelechs biskups. Davíð segist vera sendur af Sál í
leyndum erindum, ‘oc því hefi ek visat fra mer ollvm svæinvm i ymsa
staði. at engi maðr skylldi vita með hvershattar boðskap ek fer.’ í
Hallfreðar sögu hefur hetjan að vísu með sér tuttugu og fjóra förunauta
og lætur þá bíða sín meðan hann fer heim á bæinn, en í Stjórn er það
í rauninni tilbúningur að hann hafi vísað sveinum sínum frá sér, því að
hann er einn síns liðs. Nú biður Davíð Abimelech um vopn: ‘Fa þv
mer ef þv hefir at varðvæita vapn nockvð. spiot eða sverð. þvi at sva
braðvm bar at vm hæimanferð mina at ek gaða æigi at taka vapn min.’
Hann svaraði: ‘Vapn hefi ek æigi til nema þv vilir hafa sverð þat er
þv tokt af Goliath risa oc hefir her hirðt verið siðan hia hinu helga
clæði epoth.’ Davíð svaraði: ‘Þetta sverð vil ek gjama af þer þiggia.
þvi at ecki man annað iafngott finnaz a ollu Gyðinga landi.’ En sverðs-
lánið hefur alvarlegar afleiðingar, því að Sál verður ævareiður þegar
hann kemst að þessu og lætur taka af lífi Abimelech biskup og hálfan
níunda tug kennimanna.
Nú er það eftirtektarvert, að í Hallfreðar sögu granar Þorleif hver
Hallfreður er, en í Stjórn neitar heiðni konungurinn að trúa því að
maðurinn í dulargervinu sé Davíð. Að lokum má geta þess, að for-
sendingar eru engan veginn óþekktar í hetjusögum Gyðinga, og má
t. a. m. minna á það, er Sál beiðist þess til mægðar af Davíð, að hann
færi sér ‘c. prepvcia af hæiðingjum Philistinoram . . . Oc fam davgvm
siðarr geck Dauid a hendr hæiðingiom Philistim með sina sveit oc
drepr af þeim .cc. manna. sneið hann af þeim prepucia . . .’ Og hug-
myndin um að blinda Þorleif gæti verið runnin frá Stjórn (Fyrri bók
Samúels, 11.2), þar sem lýst er boðum Naas við Gyðinga þegar þeir
biðja hann griða: ‘Kostr skal yðr af mer lifs oc griða með þeim skildaga
at ek skal stinga vt ið hægra avga or hofði hveriom yðr sem einvm
manni. til þess at þat verði sva æylif skomm ollo Israels folki.’ En hvað
sem öllu líður, þá er skemmtilegt til þess að hugsa að höfundur Hall-
freðar sögu skyldi sækja sér fyrirmynd til Davíðs þegar hann fór að
lýsa öðru skáldi kvenhollu.