Nýja stúdentablaðið - 01.12.1962, Blaðsíða 16

Nýja stúdentablaðið - 01.12.1962, Blaðsíða 16
16 NÝJA STÚDENTABLAÐIÐ Sú var tíðin, að hver ný skáldsaga Halldórs Kiljans kom lesandanum á óvart; í hverri sögunni af annarri nam hann nýtt land, sem ekki hafði sézt af tindum næstu sögu á undan. Sjálfstætt fólk, Ljósvíkingurinn, ís- landsklukkan, Atómstöðin, Gerpla — allar þessar sögur voru ekki aðeins nýjar bækur á sinni tíð; þær fluttu hver um sig spánnýjan skáldskap. Nú gerist Halldór Kiljan roskinn að árum, en helgar sig jafnframt leikritagerð í auknum mæli. Silfur- tunglið kom út árið 1954, Stromp- leikurinn í fyrra, Prjónastofan Sólin um daginn. En nú er annaðhvort, að sköpunargáfu skáldsins er tekið að förlast ellegar hann hefur eignazt nýtt metnaðarmál: að klappa sama steininn sem lengst og oftast. Þessi þrjú leikrit mega heita sama verkið, með nokkrum tilbrigðum; einkum er líkingin augljós með Strompleiknum og Prjónastofunni, þótt síðari leikur- inn sé að því leyti loftkenndari sem nýja útgáfan af Anda lampans, Ib- sen Ljósdal, er rúmfrekari persóna en frumútgáfan. Það er í sjálfu sér ekki sakarefni, þótt þrjú leikrit eins höfundar séu sama marki brennd — ef þau væru þá þróttmikill skáld- skapur. Það er allt í lagi að klappa sama steininn lengi lengi — ef það er þá sómasamlegur steinn. En því er ekki að heilsa. Ég held sköpunargáfa Kiljans sé komin á afturfararskeið. BJARNI BENEDIKTSSON FRÁ HOFTEIGI PR JÓNASTOFAN SÓLIN Boðskapur leikritsins, sem er mik- ill á lengdina, er litaður Bókinni um veginn eftir Laó Tse. Það er með sanni einhver yndislegasta bók, sem getur undir sólinni; en ég held það sé nærtækara að líta á hana sem lista- verk en siðfræði eða boðorðaskrá. Svo mikið er víst, að boðskapur skáldsins í Prjónastofunni er í bezta falli meinlaus — en oftar verður hann þó ærið barnalegur. I leikritinu sjáum við hvorki meira né minna en vasaútgáfu af atómstríði — og það er undirbúið með þeirri vizku, að heimurinn sé í sjálfu sér réttur og þess vegna allt fagurt sem í honum gerist. Og ályktun Ibsens Ljósdals eftir ósköpin er sú, að það fari aldrei neitt eins illa og beinast liggi við að halda. Ég held skáldum sé eins gott að vera ekki að fitla við atómstríð í verkum sínum, ef þeir skilja það ekki dýpri skilningu en þessari. Ég vona minnsta kosti, að þeir kump- ánar Kennedy og Krustjoff uppgötvi ekki þessa heimspeki. En það er nú einu sinni ekki boð- skapurinn, sem sker úr um gildi skáldverks — heldur líf persónanna. Allur boðskapur í skáldverki fellur dauður til jarðar, ef persónunum mistekst að lifa, ef mannlýsingarnar geiga. Og hvernig skyldi þá persónum Prjónastofunnar farnast í réttum heimkynnum sínum, á leiksviðinu? Svar við þessari spurningu er merg- urinn málsins. Ég fæ ekki betur séð en leikritið sé klofið ofan frá og niður í gegn. Við skulum skoða málið. Leikritið gerist í mjög raunveru- legu húsi. Þar inni eru raunverulegir hlutir, sviðslýsingar höfundar eru raunsæilegar: þarna hangir spjald, þar stendur borð, dyr á bakvegg og til beggja hliða, prjónavél, vindur, sími, miðstöð. Og sjálfur bakgrunn- ur atburðanna er show-mennskan í ís- lenzku þjóðlífi og síðan hugsanlegt atómstríð. I stuttu máli: hér er raun- sæi, skírskotanir til umheims og sam- tíðar, umgerð leiksins og undir- straumur hans er sótt til veruleikans. En þegar kemur að persónunum sjálf- um og ræðu þeirra, þá verður allt annað uppi á teningnum. Þær tala sem sé ekki í samræmi við umgerð leikritsins; öll ræða þeirra er víðs- fjarri dramatísku raunsæi. I díalókn- um eru engin átök af neinu tagi, held- ur talar ein persónan í vestur og hin í austur; ein spyr á Hornströndum, hin svarar í Hornafirði. Þær afgreiða hver aðra með spakmælum og lýrísk- um millispilum og tylla einhvernveg- inn aldrei tánum á það sviðsgólf, þar sem þeim er þó gert að standa. Þetta eru að miklum hluta persónur draum- leiks og ævintýrs. Leiksvið þeirra ætti að vera ský í annarlegu ljósi, sem enginn áhorfandi leiksins hefði séð áður né síðan. Þetta eru ekki per- sónur, sem að réttu lagi ganga um dyr eða sitja við borð, heldur fólk, sem liggur á skýjabing og virðir það- an fyrir sér ókunna jörð í töfrabirtu. Persónurnar og tal þeirra gæti stað- izt í óraunverulegum kynjaheimi; umhverfið og undirstraumurinn

x

Nýja stúdentablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Nýja stúdentablaðið
https://timarit.is/publication/608

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.