Sameiningin - 01.09.1953, Blaðsíða 8
54
Sameiningin
Æfi Jesú
Eftir ÁSMUND GUÐMUNDSSON
Reykjavík, 1952
„Æfi Jesú“ er heilmikið rit, bæði að efni og vöxtum.
Stærðin er 400 blaðsíður alls, í átta blaða broti. Allur ytri
frágangur hinn prýðilegasti — bæði pappír, leturgerð og
prentun; og myndirnar ekki sízt, tuttugu litmyndir, sem
prýða bókina, gjörðar eftir málverkum listamannsins Carls
Blochs.
Uppdráttur Gyðingalands hefði þó mátt vera nothæfari:
nöfnin færri og gleggri — fyrst bókin er ætluð almenningi.
Og tölurnar á uppdrætti musterisins eru ólæsilegar með öllu.
í heilan aldarfjórðung hefir höfundurinn verið að leggja
sig eftir fræðum frumkristninnar og öðrum lærdómi, sem
þar að lýtur. Mikið af ávexti þess starfs liggur nú fyrir
augum almennings í þessari bók; og verður ekki annað
sagt, en að þar sé vel á efni haldið. Málið er hreint og fagurt.
Staðalýsingar eru glöggar með afbrigðum og skáldlegar,
eins og t. d. lýsingin á Nasaret og útsýni þaðan (bls. 59 og 60)
eða Sesareu Filippí og fjöllunum þar í kring (bls. 173 og ’4),
og ýmsar fleiri.
Höfundurinn er frábærlega fróður um alt sem lýtur að
sögu guðspjallanna. Hann glöggvar og prýðir hverja frá-
sögn með aðföngum úr þeim auði. Og ímyndunaraflið notar
hann óspart, bæði til að fylla í eyður, og eins þegar hann
skygnist eftir þeim sálaröflum, sem liggja á bak við orð eða
athafnir. Ekki varð ég þess var, að hann misbyði góðum
smekk með þessu móti.
En það sem bókin hefir sérstaklega til síns ágætis er
ástin og lotningin, sem höfundurinn ber til Jesú Krists.
Lýsingar hans á orðum, verkum og gjörvöllu lífi Jesú eru
undursamlega fagrar og viðkvæmar; til dæmis: Jesús tólf
ára í musterinu (bls. 62, 63), freistingarsagan (76—82), týnda
dóttirin (139—141), Getsemane (299—-303). En hér er erfitt
að velja. Bókin öll ber vitni um það, hve ljúft og hjartfólgið
höfundinum er þetta verk, að skrifa um Jesú Krist.