Fréttablaðið - 04.06.2011, Page 76
4. júní 2011 LAUGARDAGUR48 48
menning@frettabladid.is
Ljósmyndasýning Svavars
Jónatanssonar verður
opnuð Skaftafelli í dag.
Myndirnar eru unnar úr
myndbandsverki sem hann
lauk við í fyrra.
Svavar Jónatansson ljósmyndari
hefur síðan 2007 ferðast reglu-
lega með flutningabílum og rútum
um landið og tekið myndir út um
hliðarrúðuna á nokkurra sekúndna
fresti. Hann hefur komið sér upp
myndabanka sem í eru um 200 þús-
und myndir. Í fyrra kom út verkið
Innland/Útland-Ísland, myndbands-
verk sem samanstóð af 40 þúsund
ljósmyndum og frumsaminni tón-
list Daníels Ágústs Haraldssonar.
Svavar heldur tvær sýningar
með sérunnu efni frá svæðum
Vatnajökulsþjóðgarðs og Snæfells-
jökulsþjóðgarðs. Sú fyrri opnar í
gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs
í Skaftafelli í dag. „Upphaflega
ætlaði ég að ferðast um landið á
mótorhjóli og taka stakar myndir
hér og þar,“ segir Svavar um verk-
efnið. „En síðan þróaðist hugmynd-
in út í það að fá far með flutninga-
bílum og rútum og taka myndir á
nokkurra sekúndna fresti.“
Svavari telst til að hann hafi
farið fjóra heila hringi í kringum
landið, auk ótal styttri skottúra.
Hið mikla magn mynda sem hann
hefur tekið býður upp á nær ótelj-
andi möguleika til úrvinnslu, til
dæmis að afmarka sýningar við
ákveðin svæði og stækka ákveðnar
myndir.
„Ég komst að því að ég átti fleiri
en eina mynd frá sumum stöð-
um sem voru teknar frá svo til
nákvæmlega sama sjónarhorni. Í
kjölfarið fór ég að leita skipulega
og hef fundið slíkar myndir frá um
hundrað ólíkum stöðum. Í fyrstu
réð tilviljun því að ég náði fleiri
en einni mynd af sama stað en
með árunum eru ákveðnir staðir
sem ég þekki úr grunninum sem
ég mynda alltaf þegar ég fer fram
hjá þeim; það er næstum eins og ég
sé með þá forritaða í hausnum. Ég
held ég eigi til dæmis um fimmtán
myndir af Svínafellsjökli.“
Gífurleg vinna fór í að vinna úr
og skipulegga myndagrunninn, en
Svavar segir umfangið aldrei hafa
dregið úr honum móð. „Þvert á
móti, þessi hugmynd hefur haldið
mér hugföngnum frá því hún byrj-
aði að gerjast 2007 og kveikt enn
meira í mér eftir því sem á líður
frekar en hitt.“
Sýning Svavars frá Snæfells-
jökulsþjóðgarði opnar á Hellnum
22. júní næstkomandi. Spurður
um framhaldið segist Svavar ætla
að halda áfram að safna mynd-
um í sarpinn og bæta við nýjum
landshlutum. „Svo væri auðvitað
frábært að fara út fyrir landstein-
ana og vinna með annars konar
landslag.“
Sýningin í Skaftafelli er í sam-
starfi við Vatnajökulsþjóðgarð
og styrkt af Vinum Vatnajökuls.
Sýningin á Snæfellsnesi er í sam-
starfi við Snæfellsjökulsþjóðgarð
og styrkt af Menningarráði Vest-
urlands. Báðar sýningarnar standa
fram á haust. Nánari upplýsingar
um verkefnið má finna á inlando-
utland.com bergsteinn@frettabladid.is
Ísland í gegnum
HLIÐARGLUGGANN
SVAVAR OG DANÍEL Sá síðarnefndi samdi tónlist við myndbandsverk Svavars.
FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM
Dans ★★★
Haze
Beijing Dance Theatre
Sýnt í Þjóðleikhúsinu á Listahátíð Reykjavíkur
Hreyfing í fyrirrúmi
Eftir miðja 20. öld breiddist ballettinn út frá Vesturlöndum til landa eins og Tyrk-
lands, Íran, Japans og Kína. Eftir að ballettinn hafði náð fótfestu í þessum löndum
fylgdi vestrænn nútímadans á eftir, í fyrstu sem þáttur í þjálfun dansaranna en
seinna sem sjálfstætt listform. Beijing Dance Theatre var stofnað 2008 og er fyrsti
nútímadansflokkurinn í Kína samkvæmt heimasíðu flokksins. Þó að hann skil-
greini sig sem nútímadansflokk byggir hann á færni í hefðbundnum ballett auk
nútímadansins. Hann leggur einnig áherslu á
að tengja hefðbundna kínverska menningu
og dans inn í listsköpun sína þó að það sé
lítt sýnilegt í þessu dansverki.
Í sýningunni Haze var klassísk fagurfræði
í hreyfiforða dansaranna áberandi. Langar
beinar línur, strekktar ristar og ögun í hreyf-
ingum báru ballettþjálfuninni vitni en einnig
mátti merkja sterk áhrif frá móderndansi
millistríðsáranna. Móderndansinn kom fram
sem andsvar við ballettinum í upphafi 20.
aldar og hafði öðlast sess sem viðurkennt
þjálfunarform (t.d. Graham-, Horton- og
Limon-tækni) upp úr miðri öldinni. Móderndansararnir vildu vinna með þyngdar-
lögmálinu en ekki reyna sífellt að yfirvinna það eins og í ballettinum, og gólfvinna
varð hluti af dansinum.
Dansarar Beijing Dance Theatre eru allir ungir og vel þjálfaðir. Búningarnir,
þröng æfingaföt, gerðu dönsurunum auðvelt fyrir að nýta hreyfifærni sína og gáfu
áhorfendum tækifæri til að njóta hverrar hreyfingar. Lítill sem enginn munur var á
hlutverkum kynjanna í dansverkinu. Það eina sem skildi þau að var að stelpurn-
ar voru í æfingabol og þröngum dansbuxum en strákarnir í sams konar buxum
en berir að ofan. Hreyfingin og framsetning á líkamlegri færni dansaranna var í
forgrunni í sýningunni. Dýnan á gólfinu, risastór og mjúk, undirstrikaði þetta því
vegna hennar gátu dansararnir leyft sér að stökkva, detta og kasta sér af fullum
krafti án þess að vera hræddir um meiðsli. Dýnan gerði dansinn þannig leikandi
og skemmtilegan á að líta en á sama tíma gerði hún danssköpunina stundum
ónákvæma, sérstaklega í upphafi verksins. Það var greinilega ekki alltaf auðvelt að
stoppa sig á réttum tíma eða á réttum stað á svona mjúku undirlagi. Óreiðan gaf
verkinu þó hlýjan blæ og kom í veg fyrir að sýningin líktist æfingatíma eða fim-
leikasýningu í stað listræns dansverks.
Dansverkið Haze er einfalt og fallegt verk. Sviðsmyndin og ekki síst lýsing voru
vel gerð og þegar ég áttaði mig á því að reykurinn sem lagðist yfir sviðið og salinn
var tákn misturs og mengunar tók ég hann fullkomlega í sátt. Í huganum þakkaði
ég fyrir tært sveitaloftið sem hafði umlukið mig fyrr um daginn. Tónlistin var flott,
eilítið eintóna og þunglyndisleg á köflum, en í fullu samræmi við það sem gerðist
á sviðinu. Verkið er ólíkt því sem íslenskir dansáhorfendur hafa undanfarið fengið
að sjá á sviði hér heima. Dansleikhúsformið hefur verið sterkt hér, auk þess sem
ögrandi framsetning hugmynda og afbygging hvers konar hefur verið vinsæl. List-
dansinn hefur mörg andlit, sem hvert og eitt býr yfir sinni sérstöku „fegurð“. Mikið
og fjölbreytt úrval dans og danstengdra sýninga, eins og Listahátíð hefur boðið
upp á nú í vor, gerir starf dansgagnrýnandans skemmtilegt. Sesselja G. Magnúsdóttir
Niðurstaða: Áhugaverð sýning þar sem áhorfendur fengu að sjá unga og
vel þjálfaða dansara sýna getu sína í fallegu hreyfilistaverki.
HVAÐ? HVENÆR? HVAR?
Laugardagur 04. júní 2011
➜ Tónleikar
15.00 Hljómsveitin Lame Dudes fagn-
ar sumarkomu og nýútgefnum geisla-
disk í Cintamani búðinni, Bankastræti 7.
17.00 Söngsveitin Fílharmónía
heldur tónleika í Ísafjarðarkirkju. Yfir-
skrift tónleikanna er sótt í ljóð Tómasar
Guðmundssonar.
17.00 Schola Cantorum, Mótettukór
Hallgrímskirkju og Kammersveit
Reykjavíkur frumflytja verkið Fléttu
eftir Hauk Tómasson í Hallgrímskirkju.
Stjórnandi er Hörður Áskelsson.
17.30 Tónleikar með Camerarctica
verða haldnir kl. 17.30 í Hafnarborg í
tilefni Bjartra daga í Hafnarfirði.
20.00 Raftónleikar verða á Bakkusi í
kvöld í samstarfi við TodaysArt í Hol-
landi. Tónleikunum verður streymt beint
yfir í Korzo theatre í Haag.
23.00 Bang Gang, Ourlives og Cliff
Clavin halda tónleika á Nasa.
➜ Opnanir
14.00 Listmálararnir Ásta R. Ólafs-
dóttir og Bjarni Sigurbjörnsson opna
sýningar sínar í húsakynnum Reykjavík
Art Gallery í dag kl. 14. Yfirskrift sýning-
anna beggja er Fegurðin og fíflið.
16.00 Grafíksýningin Ísland –
abstrakt á abstrakt ofan opnar í dag kl.
16 í Hafnarhúsinu. Aðgangur ókeypis.
➜ Uppákomur
10.00 Sumarpartý verður í versluninni
Spúútnik á Laugavegi alla helgina.
Haffi Haff mun einnig frumflytja
sumarsmelli.
14.00 Hitt húsið heldur svokallaðan
All-but-clothes markað í dag.
Upplýsingar um viðburði sendist á
hvar@frettabladid.is
BARBARA ÁRNASON FRAMLENGD Vegna mikillar aðsóknar hefur verið ákveðið að framlengja yfirlitssýningu Barböru Árnason til og
með 15. júní. Á morgun verður Guðbjörg Kristjánsdóttir sýningarstjóri með leiðsögn kl. 15.00. Yfir 250 verk eftir listakonuna eru til sýnis auk fjölda
myndskreyttra bóka, jóla- og tækifæriskorta, jólamerkja og fleira sem Barbara hefur skreytt. Mörg verkanna á sýningunni eru í einkaeigu og hafa
aldrei áður komið fyrir almenningssjónir.