Árdís - 01.01.1954, Side 47
Ársrit Bandalags lúterskra kvenna
45
að foreldrar mínir lifðu af þau ósköp. Þótt okkur væri kent að
lesa og skrifa íslenzku í þá daga, þá var réttritun næstum ofurefli
fyrir telpu á níunda ári. Loksins var bréfinu lokið og setti ég það
sjálf í bréfakassann, því engum mátti treysta fyrir öðru eins. Og
svo sú endalausa bið til næsta blaðs.
Skyldi bréfið mitt verða birt? Ekki var verið að tefja á heim-
leið úr skóla þann fimtudag — þann langa dag, sem aldrei ætlaði
að líða.
Og sú sálarangist, þegar blaðinu var flett upp og ekkert bréf!
Eftir að fyrstu vonbrigðin liðu frá, þá byrjaði á ný eftirlöngunin.
Og svo kom blaðið með bréfinu í. Þarna var bréfið mitt, prentað
í Sólskini meðal annara, alveg eins og ég hafði skrifað það! En þau
undur! Þótt ég læsi það sjálf, þá mátti til að lesa það upphátt,
þegar við vorum öll komin í rúmið. Svefninn var langt í burtu það
kvöld. Meira að segja mátti lesa það upp aftur og aftur. Sú ógleym-
anlega stund, aðeins ein af þeim björtu endurminningum, sem
fyltu bernskuárin — sólskinsdagaævinnar.
Þessi litli sólargeisli, sem Sólskin færði mér í bernsku, gleymist
mér aldrei. Ég er bara ein af þeim fjölda barna og ungmenna, sem
eru í óborganlegri skuld við manninn, sem stofnaði litla barnablaðið
okkar. Manninn, sem elskaði börn og skyldi barnsandann, sem gat
sjálfur orðið barn í anda; manninn, sem bæði orti ljóð og samdi
sögur á svo léttu máli að við börnin skildum og höfðum not af.
Hver getur talið þær ánægjustundir, sem íslenzku börnin nutu af
því að einn maður hafði þá ást á börnum, að hann gaf sér tíma
til að skemta og fræða þau.
Ég er alveg viss um, að ef öll þau börn, þau Sólskinsbörn, sem
voru svo heppin að vera ung á þeim tíma, og sem, eins og ég, elskuðu
blaðið okkar væru hér nú, þá mundu þau vera mér sammála í því
að þakka ritstjóranum, sem byrjaði á þessu litla blaði, og sömu-
leiðis þeim, sem héldu því áfram, þakka þeim af einlægu hjarta
fyrir sólskin.