Morgunblaðið - 03.02.2009, Page 17
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 3. FEBRÚAR 2009
Jón B. Stefánsson, sem býr á Nes-inu og í Breiðdal, orti vísu um
stjórnarmyndunarviðræðurnar:
Þau eru jafnan söm við sig,
sæl með hugsun verga.
Í sjónhending þau minna mig
á Mjallhvít́ og sjö dverga.
Jóhanna Sigurðardóttir sagði
forðum: „Minn tími mun koma.“
Það rifjaðist upp fyrir Friðriki
Steingrímssyni í Mývatnssveit:
Framsókn er státin og stendur hér vörð
á Steingrím nú runnin er víma,
jagið að baki og jóðsóttin hörð
Jóhanna er komin á tíma.
Rúnar Kristjánsson á Skaga-
strönd var spurður hvort hann
styddi Jóhönnu:
Víst er nú í vitund minni
vafi hvort ég styð hana.
En ef hún líkist ömmu sinni
er ég sáttur við hana!
Jóna Guðmundsdóttir segist
binda vonir við Jóhönnu Sigurð-
ardóttur á limrublogginu:
Það er gáleysi að vera með gáska,
við gæta’ okkar þurfum í háska.
Nú Jóhönnu styðjum
og Steingrím við biðjum
um að stilla sig fram yfir páska.
VÍSNAHORN pebl@mbl.is
Af Jóhönnu og dvergum
Eftir Önnu Sigríði Einarsdóttur
annaei@mbl.is
Áföstudagskvöldum mætaSesselja Traustadóttir ogKjartan Guðnason meðbörn sín í TBR-húsið í
Laugardal og spila badminton. Fjöl-
skyldan er samsett og eru þau, þegar
mest er, sex á vellinum. Badmin-
tonleiknum getur því fylgt mikið líf
og fjör eins og gefur að skilja.
„Við erum ekki góð,“ segir Sess-
elja. „Við ætlum ekki að keppa í vor,
ekki næsta vetur og ekki heldur þar
næsta vetur – nema kannski innan
fjölskyldunnar. Þetta er hins vegar
mjög gaman og getur tekið virkilega
vel á.“
Hún segir hugmyndina að baki
badmintontímunum eiga rætur í því
að Sólrún (13 ára) og Hugrún (11 ára)
hættu nýlega í þeim íþróttum sem
þær höfðu stundað. Ásgeir (18 ára) og
Gréta Sóley (12 ára) eru hins vegar
enn á fullu í handbolta, körfubolta og
frjálsum íþróttum. „Það ýtti undir
þessa ákvörðun og það verður að
segjast að þetta er góð íþrótt fyrir
svona blandaðan hóp. Aldurinn skipt-
ir ekki sama máli hér og hann myndi
t.d. gera í hand- eða fótbolta.
Þetta er svo líka góður tími fyrir
okkur fjölskylduna að vera saman því
það verður að segjast eins og er að
það er ekkert auðvelt að ná öllum
þessum hópi saman. Þannig náum við
til dæmis sjaldnast öll að setjast að
kvöldmatarborðinu á sama tíma.“
Hjólað í sumarnóttinni
Fjölskyldan lætur sér þó ekki bad-
mintonið duga því þau hjóla líka tölu-
vert. Sjálf hjólar Sesselja, sem kennir
við Álftamýrarskóla, ýmist eða geng-
ur í vinnu og lætur hún vetrarfærðina
ekki stoppa sig, heldur skiptir þá ein-
faldlega yfir á nagla.
„Það eru svo mikil lífsgæði fólgin í
því að vera í göngu- og hjólafæri við
vinnustaðinn,“ segir hún, „og það var
mikil hamingjustund á dögunum þeg-
ar við létum farga hinum bílnum.
Þetta byrjaði annars allt með Hjól-
að í vinnuna-átakinu fyrir þremur ár-
um. Ég tók þátt í því og hjólaði sam-
fellt í þrjár vikur. Að þeim tíma
loknum var hins vegar ekkert inni í
myndinni að hætta.“
Krakkarnir eru líka dugleg að
ferðast um á hjóli, þó að þau hjóli
óneitanlega minna yfir veturinn. Það
skipti þó vissulega máli hve mið-
svæðis fjölskyldan býr, rétt við Laug-
ardalinn. „Krakkarnir hafa notið þess
að upplifa það hversu mikið frelsi
felst í því að ferðast um á hjóli og hafa
uppgötvað hvað þetta eru almennt
ótrúlega stuttar vegalengdir sem við
erum að fara. Mér finnst við vera
mjög heppin hvað þeim finnst þetta
sjálfsagður ferðamáti og eru lítið
betlin á skutl.“ Þau séu sömuleiðis
dugleg að nýta sér strætó sem stoppi
beint fyrir framan heimilið.
Hún segir hjólreiðarnar líka hafa
hentað vel þegar þau Kjartan voru að
setja saman sína blönduðu fjölskyldu.
„Í hjólreiðunum felst bæði nærvera
og samvera, en þó ekkert meiri en
maður sjálfur kýs. Það eru líka allir
glaðir á hjóli og þó að maður sé e.t.v.
eitthvað óhress þá verður maður bara
samt glaður eftir smástund.“
Þau hafa líka farið í hjólaferð utan
landsteinanna. Hjóluðu þá frá Passau
í Þýskalandi til Vínarborgar í Aust-
urríki. Þau eru hins vegar enn að leita
fyrir sér með góðar hjólaleiðir hér á
landi. „Það er erfitt að hjóla frá
Reykjavík,“ segir Sesselja. „Bílar aka
svo hratt eftir þjóðveginum og á hann
vantar axlirnar.“ Illfært sé þannig frá
höfuðstaðnum til Hveragerðis, sem
og upp fyrir Kjalarnes.
Þau hafa þó ekki látið það stoppa
sig og fóru t.d. í ferðalag um landið
með fjölskylduna á tveimur bílum svo
hjólin kæmust fyrir. Ekkert mál sé
nefnilega að hjóla með krökkum við
góðar aðstæður og var m.a. hjólað í
Húsafelli og Kaldadal. „Þá vorum við
að hjóla svolítið á nóttunni því það er
vel hægt að nota birtuna í júlí. Það
eru líka meiri stillur á nóttunni og
þetta var býsna magnað en óneit-
anlega líka svolítið kalt.“
ÞÆR Sólrún og Gréta Sóley
hafa gaman af badmintonæf-
ingunum með fjölskyldunni.
„Við ákváðum að prufa þetta,“
segir Sólrún, sem áður æfði
sund. Þær æfingar voru hins
vegar orðnar of tímafrekar.
„Við æfðum sex daga vikunnar
og það átti að fara að fjölga æf-
ingatímunum úr tveimur upp í
þrjá tíma á dag,“ segir hún.
Þær segja badmintonið
reyna vel á og fjölskyldan njóti
þess að spila saman án þess að
um keppni sé að ræða. Því sé
hins vegar ekki að neita að
keppnisskap leynist í fjöl-
skyldumeðlimum. „Aðallega
þó í mömmu,“ segir Gréta Sól-
ey og hlær. Oftast er hún að
koma beint af frjálsíþrótta-
æfingu. „Þannig að ég er alveg
úrvinda þegar badmintoninu
er lokið.“
Gaman að
spila saman
Morgunblaðið/Ómar
Fjölskyldusport Badminton er góð hreyfing fyrir fjölskylduna að mati þeirra Kjartans Guðnasonar og Sesselju
Traustadóttur og barna þeirra Ásgeirs, Hugrúnar og Grétu Sóleyjar. Á myndina vantar Sólrúnu.
„Það hjóla allir
í fjölskyldunni“
Sesselja og fjölskylda taka þátt í
Lífshlaupinu, landskeppni í hreyf-
ingu, sem ÍSÍ stendur fyrir og
hefst 4. febrúar nk.
www.lifshlaupid.is