Morgunblaðið - 23.04.2009, Blaðsíða 38
38 Minningar
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 23. APRÍL 2009
Þegar fréttin kom
um að Ranna hefði
kvatt þetta jarðlíf
sunnudaginn 5. apríl toguðust á í mér
léttir fyrir hennar hönd að baráttan
varð ekki lengri og líka mikil eftirsjá.
Minningarnar fylltu huga minn og
allar góðar. Vináttusamband í rúm-
lega hálfa öld er afar mikils virði.
Minningarnar eru margar og um þær
má hafa bæði sögð og ósögð orð. Ég
minnist samveru okkar í Gaul-
verjabæ. Ranna varð fljótt hnyttin í
svörum og hafði hárbeittan og háðsk-
an húmor. Það kom oftar en ekki af
stað hlátursköstum, þar sem við
frænkurnar skiptumst á að vera í
kasti. Amma hennar Guðfinna (Erla)
og móðurbróðir, Þorsteinn, voru
skáld. Kannski var það í genunum
hennar að elska bækur, því engan
veit ég meiri lestrarhest. Hún sagði
mér oft frá góðum bókum, sem hún
hafði verið að lesa og við höfðum það
fyrir sið að skiptast á jólabókunum í
byrjun nýs árs.
Ég minnist heimsókna í Búrfell.
Sérstaklega er minnisstæð ferð sem
við mæðgurnar fórum til Óla og
Rönnu að áliðnu sumri. Við gengum
inn í Búrfellsgjá, tíndum ber og borð-
uðum berjaskyr. Ég minnist hjóla-
ferðar niður að Sviðugörðum. Við
frænkurnar áttum góðan dag hjá
Siggu frænku. Ekki má gleyma
frænkuhittingunum sem síðast varð
frændfólkshittingur, sem Ranna
leiddi saman ásamt öðrum. Þar hitt-
umst við barnabörn ömmu og afa í
Seljatungu.
Fleiri minningar verða ekki tíund-
aðar hér en tryggð hennar og um-
hyggja fyrir mér og mínum geymdar
í hjartanu um ókomna tíð.
Þegar fjölskyldan flutti aftur á Sel-
foss byrjaði Ranna að vinna á leik-
skóla og fann fljótt að hún vildi vinna
á þeim vettvangi. Hún lærði til leik-
skólakennara og varð leikskólastjóri í
Leikskólanum Árbæ, sem þá var
byggðasamlag við nágrannasveitar-
félögin og börnin um 25. Síðar var
byggt í Fosslandinu og leikskólinn
stækkaður í 98 barna skóla. Það var
því mikil aukning á umsvifum, bæði
hvað varðar barnafjölda og manna-
forráð.
Þú veist í hjarta þér kvað vindurinn
að vegur drottnarans er ekki þinn.
Heldur þar sem gróanda þytur fer
og menn þerra svitann af enni sér
og tár af kinn, og tár af kinn.
Þ.V.
Kveðjustund okkar á fimmtudag 2.
apríl er mér dýrmæt. Sendum Óla,
Guðjóni, Ara Má, Önnu Margréti,
Gauja frænda og öðrum í fjölskyld-
unni samúðarkveðjur héðan af
Engjaveginum.
Takk fyrir samfylgdina, mín kæra.
Sigríður Ólafsdóttir.
Mikið finnst mér undrastutt síðan
við krakkarnir í Seljatungu og Gaul-
verjabæ vorum að setja upp leikrit.
Einmitt á þessum árstíma, þá var
handhægt að setja upp svið í hlöð-
unni, þegar lítið var orðið eftir af
heyi. Leikstjórinn í þessum frum-
sömdu listgjörningum var án undan-
tekninga Ranna. Það kom einhvern
veginn af sjálfu sér – og hún fór létt
með að láta kvartanir yngri frænkna
og systur sem vind um eyru þjóta, ef
þær voru með eitthvert múður vegna
hlutverkaskipunar. Þar komu fram
stjórnunarhæfileikar hennar, hún
þurfti sjaldnast að beita hörðu eða
vera með hávaða, það varð allt eitt-
hvað svo áreynslulaust og ljúft ná-
Rannveig Ágústa
Guðjónsdóttir
✝ Rannveig ÁgústaGuðjónsdóttir
fæddist á Tryggva-
götu 4 á Selfossi hinn
6. desember 1952.
Hún lést á Heilbrigð-
isstofnun Suðurlands
á Selfossi sunnudag-
inn 5. apríl sl.
Útför hennar fór
fram frá Selfoss-
kirkju 18. apríl sl.
lægt henni. Rúm 40 ár
eru nú liðin frá þessum
bernskuvorum. Og nú
er þessi yndislega
frænka okkar horfin af
heimi, svo allt, allt of
fljótt.
Hún ólst upp í sveit-
inni í Gaulverjabæ,
næstelst í hópi 4 systk-
ina, hjá foreldrum sín-
um Guðjóni og Mar-
gréti. Guðjón er
móðurbróðir okkar og
samgangur milli heim-
ilanna í Seljatungu og
Gaulverjabæ var mikill. Krakkahóp-
urinn á svipuðum aldri og samrýmd-
ur. Ranna hafði létta og ljúfa lund,
hún var bráðgreind og lestrarhestur
mikill, stundaði íþróttir og keppti um
tíma fyrir ungmennafélagið í sveit-
inni, Samhygð. Hún var hvarvetna
hrókur alls fagnaðar, hláturmild með
blik í auga. Hún kynntist manni sín-
um, Ólafi Árnasyni, ung að árum. Og
fljótlega komu börnin, drengirnir
tveir, Guðjón Helgi og Ari Már á
þremur árum, og eftir nokkurt hlé
heimasætan Anna Margrét. Móður-
hlutverkið leysti Ranna af hendi með
mikilli prýði, og þau hjón áttu alla tíð
hlýlegt og fallegt heimili. Hún starf-
aði á leikskóla um langt árabil, dreif
sig síðan í fjarnám við Kennarahá-
skólann og útskrifaðist sem leik-
skólakennari. Síðustu árin var hún
leikskólastjóri í leikskólanum Árbæ á
Selfossi, og víst er, að þau eru ekki fá,
börnin á Selfossi, sem minnast henn-
ar með hlýju þakklæti í dag.
Á fullorðinsárum okkar hittumst
við ekki eins oft og við hefðum
kannski viljað. En alltaf þegar við
hittumst, var eins og við hefðum sést
síðast í gær, alltaf nóg að spjalla um
og hlæja að, rifja upp atvik frá liðnum
tímum. Þær eru svo margar mynd-
irnar sem renna í gegnum hugann;
Ranna með Guðjón Helga nýfæddan,
Ranna og Óli í heimsókn í sumarbú-
stað, hafandi hjólað frá Selfossi upp í
Hreppa; Ranna í fimmtugsafmælinu
sínu, geislandi glöð í faðmi fjölskyldu
og vina. Eftir snarpa baráttu við
krabbameinið hefur nú leikstjórinn
okkar gengið hljóðlega út úr salnum,
eftir sitja persónur og leikendur og
sakna sárt. Mestur harmur er kveð-
inn að Óla, börnunum, öldruðum föð-
ur og systkinum. Við sendum þeim
innilegar samúðarkveðjur og lútum
höfði í virðingu og þökk fyrir sam-
fylgdina.
Ingibjörg, Sigurður og Einar Vig-
fúsarbörn frá Seljatungu.
Eimpípan blístrar í síðasta sinn;
sé ég að komin er skilnaðarstund.
Hugstola sleppi ég hendinni þinni.
Handtakið slitnar, sem þakkaði
kynni,
samvistir allar og síðasta fund. –
Sálirnar tengjast við tillitið hinsta
taug, sem að slítur ei fjarlægðin blá.
Brenna í hjartnanna helgidóm innsta
hugljúfar minningar samveru-
stundunum frá.,
(Erla.)
Hversu erfitt er ekki að sætta sig
við það að hún Rannveig Ágústa
frænka mín skuli kvödd svo snemma
burt frá mikilvægum verkefnum sem
hún naut og glímdi við. Þau mikil-
vægustu voru uppvöxtur barna-
barnanna, umhyggja fyrir fjölskyld-
unni og síðan stjórnun og rekstur
Leikskólans Árbæjar á Selfossi.
Ranna var mikil fagmanneskja og
lagði metnað sinn í að byggja upp
góðan leikskóla með áherslu á hreyf-
ingu og heilsu, umhverfismennt og
félagslega færni barnanna. Hún lagði
sig fram um að auka við þekkingu
sína sem kennari og skólastjóri, afl-
aði sér framhaldsmenntunar í leik-
skólafræðum og stjórnun til að geta
betur tekist á við krefjandi viðfangs-
efni til hagsbóta fyrir nemendur sína.
Við Ranna vorum bæði systra- og
bræðrabörn og því voru samskipti
okkar mikil allt frá barnæsku. Sem
barn var ég „kúarektor“ í Gaul-
verjabæ og gafst þá oft tími til leikja
og starfs með frændsystkinum mín-
um, einnig fengu þau stundum frí frá
sveitastörfunum og dvöldu hjá okkur
á Selfossi og oft var þá glatt á Hjalla.
Ranna var snemma bókhneigð og las
allt sem hún náði í. Allar barnabækur
voru marglesnar og auk þeirra
renndi hún í gegnum hverja skáld-
söguna af annarri barn að aldri. Hún
bjó snemma yfir miklum orðaforða
og kunni frá ýmsu að segja sem við
sem seinlæsari vorum þekktum ekki.
Mörg spaugileg orðatiltæki flugu og
talsmáti hennar og tilsvör gátu verið
beinskeytt og hnyttin.
Að lokinni hefðbundinni skóla-
göngu fór Ranna út á vinnumarkað-
inn og vann við ýmis störf. Ung
kynntist hún mannsefni sínu, Ólafi
Árnasyni, og stofnuðu þau heimili.
Eftir að börnin þeirra þrjú voru fædd
ákvað hún að hefja framhaldsnám og
innritaðist í Fósturskóla Íslands það-
an sem hún brautskráðist sem leik-
skólakennari. Hún var góður náms-
maður, veittist námið létt þó að ekki
gæfist alltaf mikill tími sökum barna-
uppeldisins. Ranna var félagsvera,
hafði ánægju af samskiptum við fólk
og naut því skólaverunnar. Hún var
vinur vina sinna, traust og trú-
mennska skiptu hana mestu máli.
Áður en veikindi hennar dundu yf-
ir áttum við þess kost að fara með
Rönnu og Óla til Vopnafjarðar þar
sem við hlýddum á lestur úr ljóðum
ömmu okkar og móðurbróður. Bæði
nutum við þess að vera á slóðum feðr-
anna. En samvistir af þessu tagi urðu
því miður of fáar. Hún tókst af miklu
æðruleysi á við sjúkdóm sinn þótt
hún mætti sín lítils gagnvart hinum
illvíga vágesti. Það er sárt að sjá á
eftir henni frænku minni en sárar er
það eiginmanni, föður, börnum og
barnabörnum. Ég og fjölskylda mín
vottum þeim einlæga samúð og biðj-
um algóðan Guð að blessa minningu
Rannveigar Ágústu.
Þó að sleppi hendi hönd,
hinsti nálgast fundur,
eigi slitna andans bönd
algerlega sundur.
(Erla.)
Trausti Þorsteinsson.
Hver minning dýrmæt perla að liðnum
lífsins degi,
hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka
hér.
Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem
gleymist eigi,
og gæfa var það öllum, er fengu að
kynnast þér.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Elsku hjartans Ranna, okkur
skortir orð til þess að lýsa hve sárt
það er að hugsa til þess að þinni jarð-
vist sé lokið.
Reynum að skilja, með því að ein-
blína á að þér hefur verið ætlað mik-
ilvægt starf á himnum, sem enginn
annar hefði getað leyst, svo sérstök
varst þú.
Þökkum þér alla vináttu og tryggð,
með völdum línum úr ljóði, sem eru
okkur svo minnisstæðar og komu
upp í hugann þegar við reynum að
koma tilfinningum okkar og þökkum
á blað, Guð geymi þig, elsku vin-
kona.
Sofðu, engill, sofðu, því nú er komin nótt
sjálfsagt eru fleiri sem sofa einnig rótt.
Fáum ekki skilið hvað ræður öllu hér
og ekki heldur hvers vegna var sótt,
einmitt að þér.
Sofðu engill sofðu, við biðjum fyrir þér
svo Drottins höndin leiði þig hvar sem
hann er.
Við varðveitum með lotningu minning-
una um þig
er vörðuð verður leið þín upp á æðra
stig.
Sofðu, engill, sofðu, við þökkum
auðmjúk þér,
sem gafst okkur svo mikið í jarðvist þinni
hér.
Við eigum bara erfitt með að sætta
okkur við það
að þú sért tekin burtu og flutt á annan
stað.
Sofðu, ljúfust, kæra og lúrðu undir sæng
megi Drottinn geyma þig undir hlýjum
væng.
Við hittumst bara aftur þegar húmar
aftur að
og Drottinn vill fá fleiri á þennan ljúfa
stað.
(Þorbjörg Gísladóttir)
Elsku Óli, Guðjón, Ari Már og
Anna Margrét, tengdabörn, barna-
börn, systkini og aðrir aðstandendur,
megi Guð og allir góðir vættir um-
vefja ykkur, leiða og styrkja á þess-
um sorgartíma.
En minninguna eigið þið og hana
tekur enginn frá ykkur.
Þið eigið hug okkar allan.
Ingibjörg og Sjöfn.
Stórt skarð var höggvið í sam-
starfshópinn þegar Rannveig Á. Guð-
jónsdóttir leikskólastjóri í Árbæ lést
sunnudaginn 5. apríl s.l. Rannveig
hóf störf 1987 á gæsluvellinum við
Stekkholt á Selfossi. Síðan starfaði
hún í leikskólanum Ásheimum, en
þar sem Rannveig vildi gera vel það
sem hún tók sér fyrir hendur fór hún
í Fósturskóla Íslands og útskrifaðist
þar sem leikskólakennari með glæsi-
brag 1992. Rannveig fór í framhalds-
nám í stjórnun við Kennaraháskóla
Íslands og útskrifaðist þaðan 2006.
Eftir útskriftina 1992 hóf hún störf
sem deildarstjóri í leikskólanum
Glaðheimum. Í janúar 1998 lá leið
hennar í leikskólann Árbæ þar sem
hún varð leikskólastjóri og stýrði þar
óslitið þar til hún varð að láta af störf-
um vegna veikinda fyrir ári síðan.
Leikskólinn Árbær flutti í nýtt og
stærra húsnæði 2002 og 2006 voru
tvær deildir settar við leikskólann
þannig að hann varð 6 deilda.
Rannveig var glæsileg og tignar-
leg kona. Framkoma hennar, eðlis-
læg gleði og hláturinn gerðu það að
verkum að hún var hrókur alls fagn-
aðar og við minnumst hennar fyrir
lífsgleði, jákvæðni og kímnigáfu.
Rannveig valdi ekki alltaf auðveld-
ustu leiðina, enda keppniskona og
tilbúin að leggja ýmislegt á sig til
þess að komast í mark. Stundum
þurfti að hnippa í Rannveigu þegar
keppnisskapið gerði það að verkum
að hún fór á undan sjálfri sér. Rann-
veig lét aldrei deigan síga gagnvart
velferð barna og hafði mikinn metnað
fyrir hönd leikskólans. Þannig var
Rannveig, metnaðarfullur fagmaður
sem Sveitarfélagið Árborg var svo
lánsamt að hafa sem leikskólastjóra.
Með henni höfum við upplifað
margt saman, skemmtilegt, erfitt,
þroskandi og árangursríkt. Fyrir það
viljum við þakka og biðjum góðan
guð að styrkja fjölskyldu Rannveigar
og vini.
Kristín Eiríksdóttir, Ingibjörg
Stefánsdóttir, Heiðdís Gunn-
arsdóttir, Eygló Aðalsteinsdóttir,
Ásthildur Bjarnadóttir, Helga
Geirmundsdóttir, Ísrún Alberts-
dóttir, M. Sigríður Jakobsdóttir
og Sigríður Pálsdóttir.
„Sá sem vildi losna við alla sorg og
söknuð, yrði að kaupa það því dýra
verði að elska ekkert í heiminum.“
( Sigurður Nordal)
Þessi orð flugu mér í hug þegar
Rannveig Ágústa Guðjónsdóttir, vin-
kona mín, eða Ranna eins og við köll-
uðum hana ávallt, kvaddi þennan
heim langt um aldur fram.
Ranna var alin upp í Gaulverjabæ
og ég kynntist henni ekkert að ráði
fyrr en á unglingsárum, en hafði ein-
staka sinnum séð hana og vitað af
henni með Hjördísi æskuvinkonu
minni.
Þegar við vorum komnar í Gagn-
fræðaskólann frétti ég að stelpan úr
Flóanum myndi verða í skólanum á
Selfossi næstu vetur. Mér leist satt
að segja ekkert á blikuna. Myndi hún
ekki samstundis stela minni bestu
vinkonu frá mér? Hvernig myndi
þetta eiginlega fara?
En það var ekkert við þessu að
gera. Ranna kom í skólann og frá
fyrsta degi fann ég að áhyggjur mín-
ar voru algjörlega óþarfar.
Hún hreif mig strax með glaðværð
sinni og einlægni og það var eins og
við hefðum þekkst alla tíð. Hún stal
ekki vinkonu minni frá mér heldur
eignaðist ég þarna aðra yndislega
vinkonu.
Þetta voru áhyggjulaus og spenn-
andi ár og margt að gerast, skóli,
skemmtanir, pískur, hlátur og pínu-
lítið kæruleysi.
Um þetta leyti kynntist Ranna
honum Óla Árna. Óli var vel kynntur
hér á Hrauni því hann hafði átt hér
heima um tíma og einnig verið vinnu-
strákur nokkur sumur.
Framtíðin var ráðin. Ranna hafði
eignast traustan og góðan lífsföru-
naut.
Alvara lífsins tók við, gifting, bú-
skapur, meiri menntun, barneignir,
uppeldi og vinna. Það var í mörg horn
að líta.
Þau eignuðust þrjú myndarbörn
og von er á áttunda barnabarninu.
Ranna var stolt af fjölskyldu sinni og
henni var mjög umhugað um vel-
gengni þeirra.
Hún menntaði sig sem leikskóla-
kennari og veitti leikskólanum Árbæ
forstöðu þar til hún þurfti að hætta
vinnu vegna veikinda sinna.
Nú hefur rödd hennar hljóðnað og
hlátur hennar heyrist ekki framar.
En minningin um góða konu lifir.
Ég er þakklát fyrir að hafa kynnst
Rönnu og fyrir allar góðu stundirnar
sem ég hef átt með henni og fjöl-
skyldu hennar. Þær verða mér
ógleymanlegar.
Við Hrafnkell kveðjum með sorg
og söknuði góða vinkonu og sendum
fjölskyldunni allri innilegar samúðar-
kveðjur.
Sigríður Gestsdóttir.
Í dag kveðjum við Rannveigu Guð-
jónsdóttur, leikskólastjóra okkar til
margra ára. Sumir hafa unnið með
henni í áraraðir, aðrir hafa eingöngu
hitt hana sl. ár þegar hún kom í heim-
sókn til að heilsa upp á vinnufélagana
og börnin. Þegar við fengum frétt-
irnar um að hún væri dáin, þá hitt-
umst við öll í salnum í Árbæ. Til okk-
ar kom sr. Óskar H. Óskarsson,
prestur í Selfosskirkju. Hann vildi að
við segðum eitthvað sem minnti okk-
ur á Rönnu. Það var margt. En upp
úr stendur: Glæsileg kona, hlý mann-
eskja, góður vinur, góður leiðtogi,
góður hlustandi, hláturmild,
skemmtileg, fordómalaus, keppnis-
manneskja, heilbrigð manneskja,
hugsunarsöm, úrræðagóð, huggandi,
drífandi og alltaf tilbúin til að vera
fremst í flokki þegar eitthvað
skemmtilegt var í vændum.
Hún var tilbúin til að veita fólki
tækifæri þegar aðrir þorðu ekki. Hún
var til staðar fyrir þá sem á þurftu að
halda, hún var foringi sem lét liðið
sitt sitja fyrir og var alltaf tilbúin til
að hjálpa.
Ógleymanleg verður okkur Kaup-
mannahafnarferðin sl. vor, hún þá
nýbúin að fá þessar niðurstöður að
hún væri með krabbamein. Ekki lét
hún það aftra sér frá því að koma
með okkur í þessa ferð. Í ferðinni
varð til ógrynni minninga sem eru
ómetanlegar í hjörtum okkar. Bar-
átta hennar var þá rétt að hefjast, við
tók erfið lyfjameðferð sem tók á hana
og allt hennar fólk, vonin var sterk og
enginn átti heitari ósk en þá að allt
færi vel. En nú réttu ári eftir að hún
greinist er hún öll, síðasta orrustan
töpuð.
Hún hafði stundum á orði að það
væri galli við leikskólastjórastarfið
hversu lítill tími gæfist til að njóta
samvista við börnin, en sá hluti
starfsins hugnaðist henni vel. Hvað
hún var stolt þegar börnin voru að út-
skrifast úr Árbæ og ýmsar stundir
sem við áttum með henni í leik og
starfi rifjast upp. Íslenskri tungu
unni hún mjög og átti ekki erfitt með
að mæla fram ýmsa speki sem ekki er
á allra vörum dagsdaglega enda er
dagur íslenskrar tungu ávallt í heiðri
hafður í Árbæ.
Öllum sem kynntust henni þótti
vænt um hana, djúp er virðing okkar
fyrir henni og hennar verður sárt
saknað og það á svo sannarlega við
hana þetta spakmæli: „ Góður maður
ber gott fram úr góðum sjóði hjart-
ans.“
En umfram allt var hún Ranna
okkar allra sem við minnumst með
söknuði, en jafnframt gleði yfir að
hafa fengið að kynnast henni og deila
með henni sorgum og gleði um stund.
Við vottum eftirlifandi fjölskyldu