Saga - 1978, Side 88
82
GÍSLI ÁGÚST GUNNLAUGSSON
í grein, sem hann ritaði í Andvara 1889. Fjallar Páll þar
nokkuð um skyldur einstaklingsins í „borgaralegu fjelagi",
sem hann telur þrenns konar:
„I. Að menn eigi beinlínis skaði mannfjelagið.
II. Að menn eigi sjeu mannfjelaginu til byrði.
III. Að menn gagni mannfjelaginu."
Það er einkum annað atriði þessarar skilgreiningar, sem
snertir stöðu þurfamanna og „valdið til að framfylgja
henni“ er „einkum fólgið í því, að sá, sem er öðrum til
byrði, þurfamaðurinn, missir rjettindi, og aðrir verða
að ráða yfir honum."11)
Þessi skilgreining er í fullu samræmi við fátækralöggjöf
19. aldar. Samkvæmt henni voru þurfamenn sviptir nær
öllum borgaralegum réttindum. Þeir höfðu engin stjórn-
málaréttindi (kosningarétt, kjörgengi) og sveitarstjórnir
gátu svipt þá fjárforræði, ef þurfa þótti. Þá áttu þeir það
á hættu, að fjölskyldur þeirra væru „leystar upp“ og þeir,
konur þeirra og börn „sett niður“ hvert í sínu lagi. Á
fyrri hluta 19. aldar tíðkaðist, að niðursetningar væru
látnir „fara á milli“ bænda í fleiri eða færri mánuði í
senn eftir gjaldgetu hvers og eins, en er líða tók á öldina,
varð það nær undantekningarlaust aðalreglan, að ómagar
væru settir niður til eins árs í senn.12) Jafnframt virðist
það hafa farið í vöxt, að fjölskyldur væru settar niður í
heilu lagi, en þeim ekki tvístrað.13)
Það réttindaleysi þurfamanna, sem hér hefur að nokkru
verið lýst, tók Páll Briem til meðferðar í ritgerð sinni.
Taldi hann að löggjöfin yrði að taka tillit til þeirra orsaka,
sem lágu að baki styrkþarfar þurfamanna, þannig að þeir
11) Páll Briem: Nokkur landsmál, einkum fátækramálið og skatta-
málið, Andvari 1889 (15. ár), bls. 16.
12) Andrés Eyjólfsson: Framfærslumál Hvítársíðuhrepps í hundrað
ár, Sveitarstjórnarmál, 1. hefti 1943, bls. 1.
18) Andrés Eyjólfsson: sama ritgerð, bls. 2.