Saga - 1978, Page 106
100 GÍSLI ÁGÚST GUNNLAUGSSON
verði sem skýrust, þannig að komið verði í veg fyrir deilur
og úrskurði.
Zóphónías Halldórsson í Viðvík ritaði nefndinni á veg-
um prestafundar er haldinn var á Sauðárkróki 3. júlí
1902. Segir Zóphónías það vilja fundarins, „að lögunum
um ábyrgð presta út af giftingum þeirra, sem hafa þegið
sveitarstyrk, er eigi hefur verið endurgoldinn, væri breytt
í þá átt, að prestar hefðu eigi ábyrgð á eldri skuldum en
5 síðustu ára“, en áður var ábyrgð presta í þessu tilliti
engum tímamörkum bundin og lágu ströng viðurlög við
giftingu hjóna í trássi við þessa tilskipun.40)
Ekki fólu allar þær tillögur og ábendingar, sem nefnd-
inni bárust í sér breytingar á fátækralögunum. Þannig
ritaði hreppsnefnd Vindhælishrepps nefndinni 19. apríl
1902 og mæltist til þess, að lengd sveitfestitímans yrði
óbreytt frá því, sem verið hafði, eða 10 ár. Taldi hrepps-
nefndin, að ákvæði þetta hefði reynst vel þau 54 ár, sem
það hefði verið við lýði, og væri því ástæðulaust að breyta
því.
Eins og að framan greinir er næsta erfitt að meta, hve
mikil áhrif tillögur sem þessar höfðu á frumvarpssamn-
ingu nefndarinnar, þar eð þær báru flestar mót þeirrar
umræðu, sem orðið hafði á undangengnum árum á alþingi
og í blöðunum. Þó er greinilegt, að nefndin tók nokkurt
tillit til þessara tillagna, t.d. var ábyrgð presta á, að
hjónaefni hefðu ekki þegið sveitarstyrk einungis látin ná
til síðustu 5 ára, eins og prestafundurinn á Sauðárkróki
lagði til. Ekki er að finna í frumvarpi nefndarinnar önnur
ákvæði, sem benda til, að sérstakt tillit hafi verið tekið
til þeirra ábendinga, er henni bárust. Engu að síður eru
þessar tillögur góðar heimildir um nokkrar þær hugmynd-
ir, sem uppi voru um þetta málefni um aldamótin, og þótti
því tilhlýðilegt að geta þeirra helstu hér.
40) Lovsamling for Island, VIII, bls. 539.