Saga - 1978, Page 142
136
GÍSLI ÁGÚST GUNNLAUGSSON
skilningi en gætt hafði í skrifum um þennan málaflokk
oftast áður. Þorkell Bjarnason ritaði og nokkrar greinar
um þetta efni, sem sömuleiðis voru flestar í skilningsrík-
um tón. Ugglaust hafa greinar af þessu tagi varpað nokkru
ljósi á stöðu og hagi þurfamanna og aukið skilning almenn-
ings á málefnum þeirra. Sömuleiðis hafa hin fjölmörgu
frumvörp og þingsályktunartillögur, sem flutt voru á al-
þingi um þetta efni haft sömu áhrif. Víst er, að almenn-
ingur skildi betur stöðu þurfamanna um aldamótin en
verið hafði áður, og dæmi eru til þess, að sveitungar hafi
hjálpað nábúum sínum í þeim tilgangi að forða þeim frá
því að lenda á sveitinni. Þannig gáfu sveitungar fátæks
bónda, Rögnvalds Guðmundssonar á Svarfhóli í Súðavík-
urhreppi, honum kú með þeim formála, að „hann fargaði
ekki gripnum fyrir skuldir." Kýr þessi átti raunar eftir að
draga á eftir sér umfangsmikil málaferli, sem ekki til-
heyra að öllu þessari sögu, en fordæmi sveitunga Rögn-
valds, ber þó vitni um skilning á högum hans og viðleitni
til að forða honum frá því að þurfa að leita á náðir
hreppsins.82)
Vera má, að lækkun fátækrabyrðarinnar á landinu hafi
heldur hvatt almenning til mannúðlegri afstöðu til þurfa-
manna, er kom fram um aldamót. Erfitt er um slíkt að
dæma, en vafalaust hafa sameiginleg áhrif þeirra þátta,
sem hér hafa verið raktir, átt mestan þátt í því að breyta
viðhorfi almennings í garð þurfamanna til hins betra.
Engu að síður vantaði mikið upp á, að þurfamenn væru
undir sömu sök seldir og annar almenningur, hvað félags-
lega stöðu og lagaleg réttindi varðar. Á þessu varð nokk-
ur breyting á næstu árum, einkum eftir að raunhæfar al-
þýðutryggingar komu til sögunnar. Enn liðu þó nokkrir
tugir ára, uns lagaleg og félagsleg réttindi þurfamanna
voru að fullu orðin sambærileg við réttindi annarra stétta
þjóðfélagsins.
82) Jón Guðnason: Skúli Thoroddsen I, Rvík 1968, bls. 234—237.