SunnudagsMogginn - 29.08.2010, Blaðsíða 20
20 29. ágúst 2010
Skelfilegasta sem hægt er að hugsa sér
– Hvenær heyrðirðu fyrst um ásakanir
Guðrúnar Ebbu í garð föður síns?
„Ég heyrði fyrst ávæning af því fyrir
tveimur árum eða svo. Ég hafði aldrei
nokkurn tíma heyrt á það minnst áður.“
– Höfðuð þið rætt saman áður en hún
talaði í kirkjuráði?
„Já, hún hafði talað við mig áður og
skýrt mér frá reynslu sinni. Hún var með
ákveðnar ábendingar varðandi meðferð á
svona málum sem voru teknar til athug-
unar. Það var af hennar hvötum meðal
annars að Sigrún Pálína kom á fund
kirkjuráðs í fyrra og svo kom Guðrún
Ebba í sumar.“
Hann þagnar. En heldur svo áfram:
„Sifjaspell og ofbeldi gegn börnum er
það skelfilegasta sem hægt er að hugsa
sér. Það er eiginlega ægilegra en nokkur
orð fá lýst. Og það er mjög mikilvægt fyrir
einstaklinginn að segja sögu sína, eins og
áður hefur komið fram, til dæmis í sögu
hennar Thelmu Ásdísardóttur. Það er
stórt skref. Og það er líka mikilvægt fyrir
samfélagið, til að fólk geri sér grein fyrir
þeirri ógn og því böli sem þetta er.“
– Eftir því var tekið að Jóhanna Sigurð-
ardóttir forsætisráðherra sagðist hafa
íhugað að segja sig úr þjóðkirkjunni.
„Mér þykir afar miður að forsætisráð-
herra skuli hafa hugleitt að segja sig úr
þjóðkirkjunni. Ég hefði gjarnan viljað vita
eða heyra hvað þjóðkirkjan getur betur
gert. Samband ríkis og kirkju og tilvera
þjóðkirkjunnar á Íslandi er að mínu mati
ákaflega dýrmætur þáttur í því norræna
velferðarsamfélagi sem við byggjum. Ég
tel hina lútersku þjóðkirkju einn af horn-
steinum hins norræna velferðarsamfélags
sem byggist á mikilli sögu og siðfræði sem
er okkur sameiginleg. Þannig er þetta á
öllum Norðurlöndum – við höfum verið
samferða þeim.
Og það er vegna þess að þjóðkirkjan er
félagsnet, sem nær yfir samfélagið allt
með einum eða öðrum hætti. Þjóðkirkja
er ekki bara einhver stofnun eða embætt-
ismannakerfi. Þjóðkirkjan er samhengi
sem við stöndum í, samfélag sem er
sprottið upp úr þessum íslenska jarðvegi,
sem hefur verið ræktaður í aldanna rás
með orði og athöfn og iðkun, sem leitast
við að tengja fólk við hið góða, þá góðu,
traustu, óbilandi þætti, sem halda uppi
góðu mannlífi, góðu samfélagi. Það er
trúin, það er vonin, það er kærleikurinn,
umhyggjan um náungann, virðingin fyrir
manneskjunni, mannhelginni, og um-
fram allt skyldurnar við hið veika og
varnarlausa og við börnin. Þetta er svo
gríðarlega mikilvægt og þessir þættir,
þessi grunngildi, þau verða aldrei nærð
eða ræktuð gegnum Facebook eða blogg-
ið, neyslu eða áhorf. Þau eru nærð og
ræktuð með sögum og söng, athöfn og
iðkun, sem tengir okkur við samhengið,
samhengi kynslóðanna, og samfélag okk-
ar sem berum hita og þunga dagsins.“
– Hvað finnst þér um umræðuna um að
aðskilja ríki og kirkju?
„Já, spurningin um samband ríkis og
kirkju er ofarlega á baugi. „Á að vera
þjóðkirkja?“ er ein spurninganna sem
verða á borðum þjóðfundar og stjórnlaga-
þings. Hvað sjá menn fyrir sér með að-
skilnaði ríkis og kirkju? Við þurfum að
spyrja, hverju svörum við, og hvernig
sjáum við fyrir okkur útkomuna?
Ég hef í hyggju að beita mér fyrir því að
efnt verði til samtals í söfnuðum og stofn-
unum kirkjunnar um stöðu þjóðkirkj-
unnar í samfélaginu, þar með talið tengsl
ríkis og kirkju. Nauðsynlegt er að hið al-
menna safnaðarfólk fái tækifæri til að tjá
sig og taka þátt í að móta stefnu kirkj-
unnar gagnvart þeim mikilvægu spurn-
ingum sem tengjast þessari umræðu.
Þjóðkirkjan er ófullkomin eins og allar
mannlegar stofnanir og skipulag. En mér
finnst skipta miklu máli að hún er bundin
lögum og er opinber stofnun, öllum opin.
Þjóðkirkjan er fjölmennustu samtök á Ís-
landi og því eru þau bundin landslögum,
til dæmis barnalögum og stjórnsýslu-
lögum og söfnuðir og starfsemi hennar er
undir opinberu stöðugu eftirliti. Við meg-
um ekki horfa framhjá þessu.
Og núna ríður á að allt gott fólk taki
höndum saman um að vernda og byggja
upp traustar stofnanir sem styðji hið góða
samfélag, sem við viljum sjá gróa á Ís-
landi. Þjóðkirkjan, sóknir hennar og
söfnuðir, eru veigamikill þáttur einmitt í
því. Gleðistundirnar sem fólk lifir þegar
barn er skírt, þegar unglingurinn fermist
eða þegar fólk binst ævitryggðum, þetta
eru ómetanlegar vörður á lífsveginum,
sem einmitt tengja okkur við þetta djúpa
og sterka samhengi, sem við megum ekki
verða viðskila við, hver svo sem skoðun
okkar er á biskupum eða kirkjuráði eða
einstaka þjónum kirkjunnar. Og svo í
sorginni og áföllum lífsins, þá er þarna
ómetanlegur farvegur, sem svo ótal
margir finna og sækja sér styrk til, til þess
að geta haldið áfram.“
Íhuga málin frá öllum hliðum
– Hefurðu íhugað að segja af þér út af
þessu máli?
„Ég íhuga þessi mál frá öllum hliðum,
en mér er enn efst í huga að kirkjan takist
af einlægni á við vandann sjálfan. Ég ein-
setti mér í upphafi minnar embættistíðar
að vinna af heilindum að því að bæta
starfshætti kirkjunnar í meðferð kynferð-
isbrotamála og verja starfsmenn hennar
og þá sem henni treysta fyrir þeirri vá
sem af slíkum málum stendur. Ég tel að
margt hafi áunnist. En greinilega ekki nóg
og ég horfist í augu við ábyrgð mína í
þeim efnum. Skuggi þessa máls alls grúfir
enn yfir kirkjunni. Ég bind vonir við störf
rannsóknarnefndar og vil tryggja að það
endurreisnarstarf hefjist. Það er mik-
ilvægt að halda áfram að læra af þessu og
reyna að koma í veg fyrir að kynferðisbrot
eigi sér stað.“
– Það hefur gengið fréttamynd á net-
inu, sem sýnir þig og séra Geir Waage
ræðast við, með mynd af Ólafi Skúlasyni í
bakgrunni. Eftir að komið hefur fram,
hvaða mann Ólafur hafði að geyma, verð-
ur þá ekki að endurskoða, að honum skuli
vera skipað í öndvegi innan kirkjunnar?
„Málverkið sem um getur er meðal
málverka allra annarra biskupa sem hafa
gegnt því embætti síðastliðin tvö hundruð
ár. Ólafur gegndi þessu embætti og er
hluti sögu sem við getum ekki þurrkað út
og megum ekki þagga jafnvel þótt mál-
verkið hafi nú verið fært af tillitssemi við
sárar tilfinningar fjölda fólks. Þessi sorg-
arsaga á að vera okkur öllum áminning
sem við látum okkur að kenningu verða.“
– Hefurðu kannski verið of varfærinn?
„Eftir á að hyggja, þá hef ég verið of
varkár í að kveða upp dóma.“
– Þjóðkirkjan hefur þetta yfirbragð – að
hún þyki forn.
„Kirkjan er forn, aðeins yngri en Al-
þingi. Sagan er samfelld í meira en þús-
und ár. Hún á að standa vörð um forn
gildi og dýrmætan þjóðararf. En hún er
líka mitt í okkar samtíð. Og það hafa gríð-
arlegar breytingar orðið í starfi kirkj-
unnar og safnaðanna. Það er ótrúleg
gróska mjög víða í starfi safnaða í landinu,
gríðarlegur fjöldi fólks sem kemur af
mikilli trúmennsku og gleði að starfsemi
safnaðanna og nýtur þjónustu kirkjunnar.
Oft er bara horft til skrifstofu við Lauga-
veginn, eins og kirkjan sé biskupinn og
nokkrir prestar. En þetta er gríðarlega
stór hreyfing og hún geymir nánast allt
litróf íslensks þjóðlífs. Það er bara svo-
leiðis. Og fólk sem er í forystu safnaða um
land allt, þetta er fólk af öllum stigum
samfélagsins, og það birtir þennan fjöl-
breytileika.
Þjóðfélagið er í sárum eftir hrunið og
stofnanir þess laskaðar. Það er vont þegar
þjóðfélagið verður undirlagt af reiðinni og
neikvæðninni, æsingnum, hefndar- og
dómasýkinni. Það er skaðlegt ef við töp-
um okkur og skiljum börnin eftir í nepju
þessarar neikvæðu afstöðu til samfélags-
ins og grundvallarstofnana þess. Mér
finnst það vera svo mikilvægt verkefni, að
okkur takist sem kirkju og þjóð, að
styrkja okkur, eflast af innri styrk, af því
að vandamálin sem við er að etja á Íslandi
í dag, eru ekki bara efnahagslegs eðlis,
ekki einu sinni bara siðferðilegs eðlis, þau
eru líka andlegs eðlis. Það er andinn, sál-
arstyrkur manneskjunnar, sem um er að
ræða, ungra sem gamalla, og hann gerir
gæfumuninn.
Það sem er veigurinn í samfélaginu, það
eru ávextir andans, kærleiki, gleði, gæska
og góðvild, trúmennska, hógværð og
sjálfstjórn, þetta viljum við öll innprenta
börnunum og rækta með okkur sjálfum.
Þetta er verkefnið sem við eigum að ein-
beita okkur að.“
Karl Sigurbjörnsson segir mikilvægt verkefni „að okkur takist sem kirkju og þjóð, að styrkja okkur, eflast af innri styrk...“
’
„Mér þykir afar
miður að forsætis-
ráðherra skuli hafa
hugleitt að segja sig úr
þjóðkirkjunni. Ég hefði
gjarnan viljað vita eða
heyra hvað þjóðkirkjan
getur betur gert.“