SunnudagsMogginn - 06.02.2011, Side 29

SunnudagsMogginn - 06.02.2011, Side 29
6. febrúar 2011 29 Blóð, sviti og tár Stundum heyrast hægrimenn kvarta undan því að fréttastofa RÚV sé undirlögð af vinstrisinn- uðum fréttamönnum. Hverju svararðu slíkri gagnrýni? „Þetta er einfaldlega rangt – enda myndi frétta- stofan ekki njóta þess yfirburðatrausts sem mæl- ingar sýna ef þessar ásakanir væru réttar. Frétta- stofa RÚV og þeir sem þar starfa láta ekki stjórnast af öðru en faglegum metnaði. Það getur hentað einhverjum pólitískum lukkuriddurum í argi dagsins að saka RÚV um hlutdrægni en það er ein- faldlega ekki á rökum reist. Sjálfur er ég alvanur slíkum blammeringum á löngum fjölmiðlaferli. Harðkjarna vinstrimenn hafa sagt mig vera ramm- an hægrimann – gott ef ekki framlengingu bláu handarinnar – og harðsnúnustu hægrimennirnir telja mig gargandi kommúnista. Ætli þetta sé ekki bara ágætur staður fyrir útvarpsstjóra að vera á? Ég hef hinsvegar aldrei verið í stjórnmálaflokki og aldrei tekið þátt í stjórnmálastarfi. Ég er aftur á móti í stórmerkilegu félagi með þingmönnunum Árna Johnsen og Róberti Marshall en það er Bjarnareyjarfélagið, sem vonandi verður ekki not- að gegn mér. En aftur að alvöru málsins. Samkvæmt trúverð- ugleika- og traustsmælingum þá ber RÚV höfuð og herðar yfir aðra fjölmiðla. Það eru raunar einungis fjórar stofnanir í samfélaginu, sem mældar eru í þessum könnunum, sem njóta trausts meirihluta landsmanna og RÚV er sem betur fer ein þeirra. Staðan væri ekki þessi ef fréttastofa RÚV væri eins og hörðustu gagnrýnendur frá hægri og vinstri segja.“ Hver er skuldastaða RÚV, er fyrirtækið í fjár- hagsvandræðum? „Þegar formbreyting varð á rekstri RÚV vorið 2007 þá settu forsvarsmenn félagsins sér það markmið að koma krónískum og linnulitlum tap- rekstri RÚV í jafnvægi á tveimur árum. Þetta tókst okkur á tuttugu mánuðum. Frá febrúar 2009 hefur rekstur RÚV verið réttum megin við strikið og þar með er búið að snúa við áratuga stöðugum taprekstri. Þetta var ekki án fórna og kostaði blóð, svita og tár. Þessu markmiði náðum við – þrátt fyrir að í millitíðinni hafi skollið á kreppa og hrun – ekki síst vegna þess hversu úrræðagóðum og skapandi starfsmönnum við höfum á að skipa. RÚV er núna rekið réttum megin við núllið og af- koman gerir okkur kleift að standa undir göml- um skuldum. Staðan er vænlegri en hún var fyrir tveimur árum. Það er ekki þar með sagt að hér sé farið að drjúpa smjör af hverju strái en það hefur tekist að snúa rekstrinum við. Smám saman verður nú hægt að endurheimta eitthvað af því sem við þurftum að fórna í dagskránni.“ Skálkaskjól ríkisins Hvernig finnst þér staðan á íslenskum fjöl- miðlamarkaði vera í dag? „Hún er frekar dapurleg í þeim skilningi að allir fjölmiðlarnir eiga í vök að verjast fjárhags- lega og eru því einfaldlega ekki eins öflugir og góðir og æskilegt væri. En staðan á þessum markaði er líka skrýtin og allra skrýtnast er að ríkið – í gegnum Landsbankann sinn – skuli tryggja eins manns eignarhald og yfirráð Jóns Ásgeirs Jóhannessonar á stærsta fjölmiðlafyrir- tæki landsins. Það gengur eiginlega út yfir mörk allrar venjulegrar kaldhæðni að skattgreið- endum, sem þurftu að punga út um 280 millj- örðum króna, ef ég man rétt, til að endurreisa Landsbankann, skuli gert með afskriftum og endurfjármögnunum að tryggja áframhaldandi eign og yfirráð Jóns Ásgeirs á 365. Það er svo í stíl við þennan fáránleika að um daginn birtust fréttir af því að Hannes Smárason hefði enn til ráðstöfunar hús sem Landsbankinn tók af honum sem dropa upp í skuldahafið fyrir löngu. Þannig bæði heiðrar og hýsir ríkisbankinn skálkana – er einskonar skálkaskjól ríkisins. Það var því vonum seinna að Landsbankinn réð til sín um daginn það sem þeir kölluðu „sérfræðing í samfélagsábyrgð“ – og skiptu jafnframt um aug- lýsingastofu til að breyta ímyndinni. Það er hins vegar ekki ímyndarvandi sem bank- inn á við að stríða – þetta er hegðunarvandi. Hversu lengi verður þú útvarpsstjóri? „Það hef ég ekki hugmynd um. Á einhverjum tímapunkti getur annað tveggja gerst að stjórn RÚV vilji ekki hafa mig lengur og reki mig eða að ég telji mig ekki lengur hafa neitt til málanna að leggja og hætti. Hvorugt hefur enn gerst. En í þessu starfi er erfitt að spá fyrir um sinn nætur- stað.“ Hver er framtíðarsýn þín fyrir RÚV? „Að RÚV gegni stöðugt betur því hlutverki sínu að vera þjóðinni spegill þar sem hún skoðar sjálfa sig. Og að upplýsa, fræða og skemmta. Þetta lýtur ekki síst að menningarlegum og lýðræðislegum skyldum RÚV við þjóðina – og þessi meginmark- mið hafa ekkert breyst í tímans rás. RÚV þarf hins vegar að tileinka sér margháttaðar nýjar aðferðir í þessu skyni – hvernig og hverju við miðlum – því ef við missum skírskotunina til ungs fólks þá miss- um við smám saman erindið við þjóðina. Þegar ég réðst hingað haustið 2005 var RÚV að fara út úr gömlu og forstokkuðu rekstarformi, sem hamlaði allri framþróun. Mér fannst óumræðilega spennandi að takast á við það verkefni ásamt öðr- um starfsmönnum að fara með RÚV inn í breytta tíma. Það tókst mjög vel. Við náðum fljótlega mjög góðum tökum á rekstrinum og vorum að sigla RÚV í nýja átt, en með fullri virðingu og lotningu fyrir öllum þeim góðu gildum sem höfðu þroskast og dafnað hér innan dyra í 80 ár. Síðan kom kreppan og hrunið – lætin og djöfulskapurinn. Það sem átti að vera framsækin uppbygging og sókn breyttist allt í einu í krappa vörn á mjög erfiðum tímum. Á þeim tímapunkti fannst mér þó ekki síður mikil- vægt og ögrandi verkefni að hlaupa í vörnina og taka þátt í að koma RÚV í gegnum allan þennan ólgusjó. Núna hefur okkur tekist að koma rekstri RÚV á réttan kjöl og þokum okkur aftur hægt og bítandi inn í skemmtilegan uppbyggingarfasa.“ Morgunblaðið/RAX

x

SunnudagsMogginn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.