SunnudagsMogginn - 09.01.2011, Blaðsíða 19

SunnudagsMogginn - 09.01.2011, Blaðsíða 19
9. janúar 2011 19 fékkst við höfðu eðli málsins samkvæmt hugsað um öldina, skrifað um öldina, tekið þátt í hugsjónabaráttu hennar og þóst hafa vit á henni. Hér var komin manneskja sem fyrst og fremst hafði lifað öldina af, orðið fyrir barðinu á öfgum hugsjónanna og soðið sér saman sína prí- vat lífsspeki byggða á dýrkeyptri reynslu. Við nánari eftirgrennslan komst ég að því að hún var fædd í rússneska keis- aradæminu og fyrir þrítugt var hún, að nafninu til, búin að skipta sjö sinnum um ríkisfang; hún ólst upp í fátækt, komst í tæri við ríkidæmi, missti allt sitt oftar en einu sinni, flúði yfir þvera Evrópu í sprengjuregni stríðsins, var handtekin af Gestapo og byggði síðan upp nýja tilveru í Frankfurt, á meðan afgangurinn af fjöl- skyldunni hraktist undan stríðandi herj- um til Póllands – með fimmtán ára við- dvöl í Gúlagi Stalíns í tilviki litla bróður hennar. Bókin var skrifuð á þýsku, að áeggjan míns þýska forlags, er nýkomin út og geymir lífrétti þessarar litríku konu: Mamutschkas Lebensrezepte. Myndbrjótur í könnunarleiðangri Eitt er að skrifa um látin skáld sem skildu eftir dagbækur og ótal bréf fyrir eftirlif- endur og voru markvisst að skapa sér orðstír, annað að skrifa um sprelllifandi manneskju sem aldrei hefur fengist við skriftir og er afar sérsinna, ekki síst þegar kemur að því hvers hún kýs að minnast og hvers ekki. Sérhver ævisagnaritari þarf að skapa að minnsta kosti tvær per- sónur, með ekki ósvipuðum hætti og skáldsagnahöfundur, aðalpersónuna sjálfa og svo persónu sögumanns. Milli þessara persóna myndast spenna verks- ins: Aðalpersónan hefur kannski löngu komið sér upp mynd af eigin ævi eins og hún vill hafa hana, en sögumaður er myndbrjótur í könnunarleiðangri fyrir hönd lesenda sinna og vill sýna að hann sé hvergi banginn. Þessir hagsmunir fara fráleitt alltaf saman og það átti líka við í þessu tilviki. Mamúska liggur ekki á skoðunum sínum, getur verið orðheppin og ótrúlega skyggn á fólk, en það eru margir þættir í hennar löngu ævi sem henni fundust að kæmu hnýsnum manni frá Íslandi ekki hætishót við. Þá verður skrásetjarinn að fara aðrar leiðir, leita á söfn, spyrja vini og ættingja sem kannski vita minnst um mörg líf þessarar litríku en leyndardómsfullu konu. Þannig reyndist þrautin þyngri bara að átta sig á fæðingarstað Mamúsku, örlitlu þorpi, þar sem þó bjuggu fulltrúar sex þjóðarbrota, á mörkum núverandi Hvíta-Rússlands, Póllands og Litháens. Hér börðust herir rússakeisara við þýska keisaraveldið og síðar útsendarar Hitlers við sveitir Stal- íns, og ólæsir fátækir íbúar reyndu að láta þessar styrjaldir yfir sig ganga eins og hver önnur fárviðri. Það auðveldaði heldur ekki rannsóknina að það tilheyrir táknfræði valdsins að skipta um nöfn á öllum stöðum við hverja nýja valdatöku. Hér skal ekki þessi saga rakin öll, að- eins lítið dæmi sem kann að varpa ljósi á viðfangsefnið og vanda ævisagnaritarans. Í þessu tilviki var ég að reyna að átta mig á því af hverju Mamúska var handtekin af Gestapo í október 1942, þá nýkomin til Frankfurt, pyntuð en látin laus aftur eftir viku. Einkasonur hennar sagði mér frá þessu en sjálf var hún þögul sem gröfin, taldi lesendur ekki hafa nokkurn áhuga á slíkum leiðindum. Ég var búinn að kom- ast að því að Mamúska hafði hlaupist úr fátæktinni að heiman sem unglingur og komist til Vilníus þar sem hún varð vinnukona hjá greifa eins og í ævintýr- unum. Eftir fremur stutta vist þar komst hún í vinnu hjá ríkri rússnesk-sviss- neskri fjölskyldu sem átti margar verk- smiðjur og fékk augastað á ungum manni, Peter, sem átti að erfa góssið. Þetta er á fjórða áratugnum, sem um sumt var blómatími í Vilníus, og ríka fólkið eins og Peter vílaði ekki fyrir sér að skreppa á drossíum til Monte Carlo að skemmta sér eina helgi ef svo bar undir. En leiðin að hjarta Peters var ekki alveg greið fyrir Mamúsku því fjölskylda hans hafði ákveðið að hann skyldi kvænast náfrænku sinni, Tatjönu Maslowu frá Sankti Pétursborg; þannig myndi auð- urinn haldast í ættinni. Kankvíst bros í augum Þegar hér var komið sögu í grúski mínu rakst ég á fjölmargar gamlar ljósmyndir í lúðum skókassa heima hjá syni Ma- músku. Þar var líka mynd af Tatjönu, gullfallegri stúlku með kankvíst bros í augum, og ég sá ekki betur en að það stæði Miss Europa, ungfrú Evrópa, á myndinni. Ungfrú Evrópa? Nú þótti mér tíra, en það tjóði lítt að spyrja Mamúsku um Tatjönu: Hún hristi bara hausinn og sagði Tatjönu aldrei hafa þurft að bjarga sér og ekkert kunnað fyrir sér heldur, iss, ekki einu sinni að sjóða vatn, sagði hún hneyksluð á þýsku sem enn hefur þykk- an pólskan hreim eftir bráðum sjötíu ár í Frankfurt. Þegar ég kynnti mér fegurð- arsamkeppnir á millistríðsárunum (mörg er raun ævisagnaritarans), kom í ljós að Tatjana Maslowa hafði verið kosin ungfrú Evrópa í Madrid árið 1933 – og keppti þar sem fulltrúi Sovétríkjanna! Svo ein- kennilega vill til að þar í landi var í fyrsta skipti kjörin fegurðardrottning fyrr þetta ár, og má merkilegt heita, því enda þótt alverstu ofsóknir Stalíns væru enn fram- undan var þetta á tímabili vinstri- róttækni og stöðugra herferða gegn borgaralegu prjáli. Svo virðist líka sem Sovétmenn hafi séð eftir kjörinu því um það leyti sem Tatjana vann Evróputitilinn var hún komin í útlegð og sneri ekki aftur til Sovétríkjanna – og þar var heldur ekki kosin ný fegurðardrottning næstu árin. Handtekin af Gestapo Ekki fer hjá því að Tatjana hafi verið nokkuð hörð samkeppni fyrir kot- bóndadótturina sem hafði strokið að heiman. En það þýðir lítið að spyrja Ma- músku um það: Iss, ég hafði hana og fór létt með, þetta fólk hrærðist í svo miklu ríkidæmi að það kunni ekki að leggja neitt á sig. Þegar ég fann aðra mynd í skókassanum, þar sem reffilegur karl stendur á milli þeirra Mamúsku og Tat- jönu, þóttist ég hafa himin höndum tekið – ég sá þetta allt fyrir mér á þessari mynd: Bara hvernig konurnar stilltu sér hvor sínum megin við gleiðan karlinn segði meira en mörg orð. Vandinn var bara sá, einsog kom í ljós þegar ég ráðg- aðist við son Peters og Mamúsku, að karlmaðurinn á myndinni var alls ekki faðir hans. Með samanburði komst ég að því að þetta var maðurinn sem Tatjana giftist þegar útséð var um sambandið við Peter, lögfræðingurinn Rafael Kasimir Lobanos frá Trakai skammt frá Vilníus. Myndin er líklega tekin rétt fyrir stríð. Peter var enn að hugsa sig um, þótt ást- arsamband hans og Mamúsku væri hafið, og meðan svo var vann hún fyrir sér sem húshjálp hjá þeim hjónum – þegar nánar er að gáð sést það líka á búningi hennar á myndinni. Hjónin Rafael og Tatjana flúðu frá Vilníus fljótlega eftir að seinni heims- styrjöldin hófst, og hersveitir Stalíns höfðu lagt svæðið undir sig. Tveim árum síðar, eftir að herir einræðisríkjanna stóru höfðu leikið Litháa grátt svo ekki sé sterkar að orði kveðið, og Sovétmenn voru búnir að taka allar eignir fjölskyld- unnar eignarnámi, flúðu Peter og Ma- múska á eftir þeim til Frankfurt og fengu fyrst um sinn að búa hjá þeim. Í október 1942 voru þau öll fjögur handtekin af Gestapo en sleppt aftur eftir viku. Þeim mun svívirðilegri sem svona kúgunarstofnanir eru, þeim mun sam- viskusamari eru þær við sína skrif- finnsku, og enn eru til skýrslur um handtökur þessa fólks frá Litháen; þar eru ýmsar ástæður tilgreindar, svo sem njósnir og brask, en það er ekki fyrr en maður skoðar skýrsluna um Rafael Lob- anos sem sennilegasta skýringin kemur í ljós. Um þetta leyti voru gyðingaofsóknir Hitlers að ná hámarki og í stríðinu varð fangelsi leynilögreglunnar í Frankfurt mörgum gyðingum fyrsti áfanginn á leið þeirra í útrýmingarbúðir. Rafael Lobanos reyndist vera af þjóðflokki Karaima, sem enn telur nokkur hundruð manns og búa flestir í Trakai skammt frá Vilníus. Þeir komu upphaflega til Litháen frá Krím- skaga, en þangað sótti Vytautas stórfursti sér lífverði á fjórtándu öld. Þessi þjóð- flokkur trúir á bókstaf Gamlatestament- isins, talar tataramállýsku en notar hebr- eskt letur. Meðan nasistar voru við völd í Litháen gátu mismunandi stofnanir þeirra, herinn, öryggislögreglan og SS ekki komið sér saman um hvernig bæri að skilgreina þennan þjóðflokk. Og sami vandi var þeim á höndum í Frankfurt. Í skjölum Gestapo segir um Lobanos, Ka- raimann með spænska nafnið: „Hvort þjóðarbrot það, sem hann tilheyrir, sé gyðinglegur klofningshópur, er sem stendur til athugunar hjá Stofnun NSDAP (nasistaflokksins) til rannsókna á gyð- ingaspursmálinu í Frankfurt.“ Meðan svarið lá ekki fyrir var þeim sleppt aftur, þremenningunum á myndinni og Peter. Það vildi þeim, líkt og Karaimum í Lithá- en, til happs að skrifræði nasista tókst ekki að skilgreina þá. Peter Kowalew stundaði síðan fasteignaviðskipti í Frankfurt en lést aðeins fimmtugur að aldri, fjórum árum eftir að hann kvæntist loksins Mamúsku rétt uppúr stríðs- lokum, Rafael Lobanos varð virtur lög- maður í sömu borg en Tatjana háði erfiða glímu við þá melankólíu sem söknuður eftir horfnum heimaslóðum vakti í þeim öllum. Öll eru þau löngu látin, nema Ma- múska. Sá sem skrifar ævisögu hlýtur að leita „sannleikans“ um sínar persónur með öllum þeim vandkvæðum sem því fylgja. En hann verður líka að sætta sig við að í glímunni milli sjálfsmyndar, skjalfestu og takmarkaðrar kunnáttu hans sjálfs, verður alltaf eitthvað sem skreppur und- an skilgreiningu, og sumar persónur eiga því líf sitt að þakka líkt og maðurinn á myndinni. Því ævisagnaritari hlýtur í senn að leita leyndardóma og sætta sig við að geta ekki afhjúpað þá alla, og á ekki endilega að gera það. Kver mitt um Mamúsku fjallar öðrum þræði um þetta, að líf konu eins og hennar, litríkt en að- eins að litlu leyti skjalfest, og ber með sér andblæ veraldar sem var, verður aldrei fangað til fulls; lesandinn verður stund- um að sætta sig við reykinn af réttunum. Mamúska eldar ennþá fyrir mig, í hvert skipti sem ég heimsæki hana, af fumlausu öryggi þótt hún sé nánast orðin blind og þurfi að fara með höndina yfir gashellurnar til að finna hvort þær logi. Hún er staðráðin í að verða hundrað ára, en veltir stundum fyrir sér hvað verði svo og hvort hún komist til himna, þrátt fyrir allt sem henni hafi orðið á í lífinu, og þótt hún sé alveg laus við sjálfsmeðaumkvun leita stundum á hana þungir þankar. En svo hristir hún hausinn, lyftir höndunum upp fyrir vefjarhöttinn og hrópar: Iss, ég hlýt að fara til himna! Og bætir við lægri rómi: hinn staðinn fékk ég að upplifa hér. Mamúska og Tatjana með óskilgreinda manninn á milli sín. Tatjana Maslowa, ungfrú Sovétríkin og Evrópa 1933. Myndirnar eru úr bók HG: Mamutschkas Lebensrezepte – Ich bin nicht verrückt, aber extravagant, München 2010; þær voru kynnt- ar á málþingi til heiðurs Helgu Kress í desem- ber síðast liðnum.

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.