SunnudagsMogginn - 09.01.2011, Blaðsíða 20

SunnudagsMogginn - 09.01.2011, Blaðsíða 20
20 9. janúar 2011 Þetta er grín,“ segir BjarniHaukur Þórsson kíminn. Viðstöndum í dyragáttinni á Litlasal Borgarleikhússins og horf- um inn á sviðið. Það er sannarlega rétt, þetta er grín. Það kemur svo sem ekki á óvart þegar þeir Sigurður Sigurjónsson eiga í hlut. Samt er Bjarni Haukur ekki að tala um grín í skilningnum spé eða gys. Hann er að tala um grín í efnislegri merkingu – eins og kylfingar skilja orð- ið. Það er í raun og veru grín í miðjum salnum. Tilefni þessarar óvenjulegu sviðs- myndar er glænýr íslenskur gamanleikur eftir Bjarna Hauk, Afinn, sem frum- sýndur verður á föstudaginn kemur, 14. janúar. Með titilhlutverkið fer Sigurður Sigurjónsson. Að sögn Sigurðar og Bjarna Hauks er Afinn óumflýjanlegt framhald Pabbans, sem sló í gegn hér heima fyrir fjórum ár- um. Sömu menn báru hitann og þung- ann af þeirri sýningu en þá var hlut- verkaskipan öfug, Bjarni Haukur lék og Sigurður leikstýrði. „Hugmyndin að Afanum kviknaði mjög fljótlega eftir að við settum upp Pabbann en ég varð einmitt afi í fyrsta skipti um þær mundir,“ segir Sigurður og Bjarni Haukur rifjar upp að dóttir Sigurðar hafi mætt kasólétt á frumsýn- ingu á Pabbanum. „Bjarni hótaði að hann myndi skrifa Afann handa mér og eins og sjá má er hann maður orða sinna,“ segir Sigurður sposkur. Mátulegt á mig! Sigurður á 35 ára leikafmæli á þessu ári en hefur merkilegt nokk ekki leikið ein- leik í annan tíma. Hvernig í ósköpunum stendur á því? „Það er góð spurning,“ svarar Sig- urður, heimspekilegur á svip. „Ég hef leikstýrt þeim nokkrum einleikjunum og sennilega er mátulegt á mig að þurfa loksins að leika sjálfur í einum slíkum.“ Spurður hvernig hann kunni við sig í þessum sporum svarar hann því til að það sé í senn spennandi og ógnvekjandi. „Þetta eru alveg nýir skór sem ég er að máta – og hef ég þó margt reynt – en það kemur sér afar vel að hafa leikstjóra sem hefur sjálfur gríðarlega reynslu af þessu formi leiklistar.“ Sem kunnugt er lék Bjarni Haukur ekki bara Pabbann, heldur líka Hellisbú- ann sem sýndur var meira en hundrað sinnum í Íslensku óperunni á sínum tíma. „Í leikhúsinu er maður alltaf að leggja sjálfan sig að veði,“ heldur Sigurður áfram, „og hefur gott af því að reyna nýja hluti, ekki síst eftir 35 ár í faginu.“ Þeir félagar eru sammála um að áhorf- andinn skipti aldrei meira máli í leikhúsi en í einleiknum. Hann sé hinn eiginlegi mótleikari. „Þess vegna er öðruvísi að æfa einleik en önnur leikrit. Það er svo lítil svörun. Ég bíð spenntur eftir að fá fólk í salinn,“ segir Sigurður. Handalögmál og hurðaskellir Á ýmsu hefur gengið á æfingatímanum, ef marka má leikstjórann. „Siggi er nátt- úrlega mjög erfiður og snúinn í sam- starfi. Það hefur komið til handalögmála og hurðum ósjaldan verið skellt,“ segir Bjarni Haukur án þess að blikna. Eftir stutta en spennuþrungna þögn springa þeir báðir úr hlátri. Ég kveðst munu reyna að selja þjóð- inni þessa sögu – en efast um að það takist. Sýningin hefur verið í bígerð í um ár og félagarnir kastað hugmyndum á milli sín. Þeir staðfesta að efnið sé að tals- verðu leyti sótt í eigin reynsluheim. „Blessaður vertu,“ segir Sigurður, „margt af þessu hef ég reynt á eigin skinni – samt ekki allt. Maður er orðinn miðaldra – að hugsa sér – og hefur reynt ýmislegt um dagana. Been there, done that. Þú skilur.“ Bjarni Haukur segir þá félaga þekkjast orðið býsna vel og hafa áþekkar hug- myndir um það hvað geri sig á sviði og hvað ekki. „Við stöndum okkur aftur og aftur að því að leita í hversdaglega hluti og hið mannlega eðli. Við veltum okkur mikið upp úr því,“ segir hann. Sigurður hlær þegar hann er spurður hvernig afi hann sé í raun og veru. „Bara ágætur, held ég. Mér finnst alla vega gaman að leika þá rullu heimafyrir.“ Afabörnin eru nú orðin þrjú. Tímafrekt ástríðustarf Leiklist er tímafrekt og krefjandi starf og Sigurður dregur ekki dul á að hann hafi haft í nógu að snúast undanfarna þrjá og hálfan áratug. „Leikarastarfið er ástríðu- starf og tætir mann óhjákvæmilega svo- lítið. Það er tímafrekt og hefur tilhneig- ingu til að taka líf manns yfir. Til allrar hamingju hefur skilningur og stuðningur minnar fjölskyldu alltaf verið fyrir hendi. Annars væri þetta ekki hægt. Ég væri löngu hættur að leika ef það væri einhver núningur við fjölskylduna. Allt hefur þetta verið gert í sátt og samlyndi gegnum árin en auðvitað vill maður allt- af hafa meiri tíma fyrir börnin sín og barnabörn.“ Spurður hvort hann hyggist bæta úr því í framtíðinni svarar hann strax ját- andi. „Það er ekki nokkur spurning, svo mikið á fjölskyldan inni hjá mér. Ég hugsa að ég muni smátt og smátt gíra mig niður til að sinna henni betur án þess þó að draga mig alveg í hlé. Það eru nefnilega forréttindi að starfa við það sem manni þykir skemmtilegt og ég nýt þess til fullnustu.“ Væri að mála hús Í framhaldi af þessum pælingum vaknar óhjákvæmilega sú spurning hvað Sig- urður væri að gera hefði hann ekki orðið leikari. „Ég væri húsamálari eða alla vega iðn- aðarmaður af einhverju tagi,“ flýtir hann sér að svara. „Obbinn af félögum mínum fór í einhverja iðn og ég hefði örugglega fylgt þeim.“ Sigurður fór snemma að leika í skól- anum og skátunum og eitt leiddi af öðru. „Einhverjir sáu eitthvað í mér og hvöttu mig til að feta þessa braut. Mér var strax vel tekið og hef verið lukkunnar pamfíll. Hef ekki þegið laun fyrir aðra vinnu í 35 ár.“ Spurður hvort leiklistin liggi betur fyrir sumum en öðrum hugsar Sigurður sig stundarkorn um. „Fyrir fimmtán ár- um hefði ég líklega svarað þessari spurningu neitandi en í dag geri ég mér grein fyrir því að þetta eru ekki bara áunnir hæfileikar. Partur af þessu þarf að vera meðfæddur. Það er ég búinn að sjá. En ekki biðja mig að útskýra það nánar. Það er vonlaust.“ Forsala á Afann gengur vel og með hliðsjón af vinsældum Pabbans, sem sýndur hefur verið í tólf löndum, má búast við að væntingar verði miklar. Sjálfir velta Bjarni Haukur og Sigurður því lítið fyrir sér. „Við gerum miklar kröfur til okkar og reynum að gera þetta eins vel og við mögulega getum. Meira getum við ekki gert,“ segir Bjarni Hauk- ur. „Sjálfsagt koma gestir til með að hafa væntingar en lífið er sjaldan bein lína í leikhúsi. Það er ekkert gefið varðandi aðsókn og mín von er einfaldlega sú að fólk skemmti sér og fari ögn betra heim af sýningunni – alla vega ekki verra. Þegar upp er staðið er þetta bara leikhús – hvorki NASA né Icesave.“ Ekki Spaugstofu-Siggi Talandi um væntingar bætir Sigurður við að hér sé leikhúsmaðurinn Sigurður í öndvegi, ekki sjónvarpsmaðurinn. „Þetta er ekki Spaugstofu-Siggi. Hann vinnur annars staðar.“ Talandi um Spaugstofuna, það óska- barn þjóðarinnar, segir Sigurður þá fé- laga enn í fullu fjöri á nýjum stað, Stöð 2. „Okkur var enn mál og þegar Stöð 2 bauð okkur að koma yfir til sín þáðum við það með þökkum. Okkur hefur liðið ljómandi vel þar í vetur.“ Sigurður verður sennilega um aldur og ævi spyrtur við Spaugstofuna. Það er honum að meinalausu. „Þetta Spaug- stofu-ævintýri hefur auðvitað sína kosti og galla. Eflaust hef ég misst af ein- hverjum tækifærum í leikhúsinu út af því en það verður bara að hafa það. Ég er mjög stoltur af Spaugstofunni og hefði ekki fyrir nokkurn mun viljað sleppa því ævintýri.“ Hann er meðvitaður um brautryðj- endastarf Spaugstofunnar á sviði skops í sjónvarpi og fagnar því að sífellt fleiri færi sér formið í nyt. „Vissulega er þetta efni dýrt í framleiðslu en að mínu mati verða menn samt að vera djarfir að gera tilraunir í sjónvarpi, ég tala nú ekki um á þessum erfiðu tímum í þjóðfélaginu.“ Sigurður og Bjarni Haukur eru á einu máli um að sjaldan sé brýnna að fóðra andann en í andstreymi. „Þetta skynja Íslendingar,“ segir Bjarni Haukur. „Það er engin tilviljun að aðsókn í leikhús hefur aukist í kreppunni, ekki bara á gamansýningar. Eins hefur bíógestum fjölgað. Fólk þarf að dreifa huganum og fá tækifæri til að horfa fram veginn með bros á vör og gleði í hjarta. Okkur leik- húsfólki ber að svara þessu kalli með því að bjóða upp á vandaða og áhugaverða dagskrá. Ég held það hafi almennt tekist.“ Grínið á gríninu Sigurður Sigurjónsson, einn ástsælasti leikari þessarar þjóðar, stendur í fyrsta skipti einn á leiksviði, þegar nýr gamanleikur Bjarna Hauks Þórssonar, Afinn, verður frumsýndur í Borg- arleikhúsinu á föstudag. Hann segir verkefnið í senn spennandi og ógnvekjandi. Texti: Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is Ljósmynd: Kjartan Þorbjörnsson golli@mbl.is Sigurður Sigurjónsson og Bjarni Haukur Þórsson höfundur og leikstjóri Afans. ’ Á ýmsu hefur gengið á æfinga- tímanum, ef marka má leik- stjórann. „Siggi er náttúrlega mjög erfiður og snúinn í samstarfi. Það hefur komið til handalögmála og hurðum ósjaldan verið skellt,“ segir Bjarni Haukur án þess að blikna. Eftir stutta en spennuþrungna þögn springa þeir báðir úr hlátri.

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.