SunnudagsMogginn - 09.01.2011, Blaðsíða 29

SunnudagsMogginn - 09.01.2011, Blaðsíða 29
9. janúar 2011 29 Hvar stendur þú í pólitík? „Ég er flokksbundin íhaldsmanneskja og hef verið lengi. Maðurinn minn er ekkert á þeirri línu og þarf þess ekki. Fólk má hafa sínar skoðanir og sína trú í friði fyrir öðrum.“ Sonur ykkar, Sigfús Sigurðsson, er handbolta- stjarna. Hefur þú áhuga á íþróttum? „Já, ég ólst upp við mikinn áhuga á íþróttum. Pabbi, Sigfús Sigurðsson, keppti á Ólympíuleikum árið 1948 í kúluvarpi og varð tólfti. Þegar ég var unglingur keppti ég í kúluvarpi og spjótkasti og æfði sund.“ Lifirðu þig inn í leiki þegar Sigfús er að spila með landsliðinu? „Já, og fer á taugum. Og þegar Sigfús brýtur gróflega af sér í leikjum segi ég upphátt við sjón- varpstækið: „Æ, Sigfús minn!“ En ég á ekki bara son heldur líka dóttur sem er viðskipta- og tölvu- fræðingur. Hún er gift Indverja og gifti sig á Ind- landi, en býr á Íslandi. Ég fór þangað í brúðkaupið og fór svo með brúðhjónunum í brúðkaupsferðina til Delí. Foreldrar eiga alltaf að fara í brúðkaupsferð með börnunum sínum! En reyndar fór ég bara með þeim í brúðkaupsferðina vegna þess að ég var komin til Indlands og þá gat ég ekki verið þekkt fyrir annað en að fara til Delí og nágrennis hennar. Það er óskaplega gaman að koma til Indlands en maður verður að fara þangað með allt öðru hugarfari en maður er vanur. Þarna er geysileg fátækt og mikil stéttaskipting sem ég efast um að breytist í náinni framtíð. Óhreinindin eru gífurleg. Tengdasonur minn segir að þetta hafi verið öðruvísi þegar geit- urnar, svínin og önnur dýr átu allan úrganginn. Nú er matarúrgangurinn étinn en umbúðirnar, það er að segja plastpoka og flöskur éta dýrin ekki. Fyrst fannst manni maður vera í hálfgerðu myrkri. Þarna ægir öllu saman, dýrum, bílum, mótorhjólum og betlurum. Maður gengur út úr fínu hóteli og á stéttinni fyrir utan býr fólk í pappakössum. En mað- ur breytir þessu ekki. Maður verður bara að fara með opnu hugarfari. Það er það eina sem hægt er að gera. Þetta er land sem hefur upp á margt að bjóða og miklar breytingar eiga eftir að verða þar og eru í gangi.“ Barátta við krabbamein Er ekki rétt að þú hafi fengið krabbamein fyrir ein- hverjum árum? „Ég fékk brjóstakrabbamein. Hluti af öðru brjóst- inu var fjarlægður í desember fyrir átta árum og ég fékk þann yndislega úrskurð á Þorláksmessu að ekk- ert frekara mein hefði fundist en ég þurfti að fara í geislameðferð. Ég átti að vera í fríi frá vinnu fram í ágúst en það tók ég ekki í mál heldur mætti í vinnu í janúar. Ég vildi ekki vera ein heima allan daginn og hafa ekki um neitt annað að hugsa en veikindi. Það hefði verið mannskemmandi og andlega niðurdrep- andi. Margir verða mjög slæmir í hendinni eftir krabbameinsmeðferð og frænka mín blessuð sem nú er dáin, Margrét Oddsdóttir læknir, benti mér á fara að synda skriðsund til að teygja á handleggnum. Ég var alltaf vel synd í bringusundi en í skriðsundi drakk ég alla sundlaugina, þannig að ég fór á nám- skeið og lærði skriðsund almennilega og þjálfaði hægri handlegginn reglubundið.“ Þetta hlýtur að hafa verið erfiður tími, hugs- aðirðu ekkert um dauðann? „Ég held að fólk hugleiði dauðann þegar það stendur frammi fyrir veikindum eins og þessum, en ég velti mér ekkert upp úr slíkum hugsunum. Mér fannst ég svo hraust og á tveggja ára fresti hafði ég farið reglulega í krabbameinsskoðun þannig að ég var nokkuð viss um að veikindin gætu ekki verið mikil og skelfileg. Ég trúði því alltaf að þetta myndi ganga vel og það varð. En það er ekki hægt að neita því að lífsreynsla eins og þessi breytir hugsunarhætti manns á vissan hátt. Mér hefur alltaf fundist ákaflega gaman að lifa og nú finnst mér jafnvel enn skemmti- legra að lifa en áður. Mér finnst alltaf gaman að vakna og nýt þess að vinna.“ Hvaða lífsskoðanir hefur þú? „Ég hef mína barnatrú. Hún er þarna og ég er ekk- ert að kryfja hana til mergjar. En ég trúi, það er eitt sem víst er. Það skiptir mig engu máli hvaða guð fólk hefur, hver og einn verður að fá að hafa sína trú. Tengdasonur minn er hindúi og aðhyllist fjölgyð- istrú. Þar er ríkjandi umburðarlyndi gagnvart öllu sem lifir. Ef ég sé kónguló inni í húsi þá drep ég hana samstundis með hárspreyi, „extra firm hold“ eins og þar stendur. Tengdasonur minn sér kónguló og spyr: „Af hverju má hún ekki lifa?“, fangar hana og sleppir henni aftur út í náttúruna. Hann hefur þá fallegu trú að allt eigi rétt á að lifa. Hann er mikill gæðamaður, þessi tengdasonur minn. Reyndar gera allir karl- mennirnir á heimilinu þetta sama við kóngulærnar.“ Morgunblaðið/Árni Sæberg Margrét Sigfúsdótt- ir: Ég vil hafa röð og reglu og geri hlutina á vissan hátt. ’ Ég held að fólk hugleiði dauðann þeg- ar það stendur frammi fyrir veik- indum eins og þessum, en ég velti mér ekkert upp úr slíkum hugsunum. Mér fannst ég svo hraust og á tveggja ára fresti hafði ég farið reglulega í krabbameinsskoðun þann- ig að ég var nokkuð viss um að veikindin gætu ekki verið mikil og skelfileg. Ég trúði því alltaf að þetta myndi ganga vel og það varð. En það er ekki hægt að neita því að lífsreynsla eins og þessi breytir hugs- unarhætti manns á vissan hátt.

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.