SunnudagsMogginn - 07.08.2011, Blaðsíða 21

SunnudagsMogginn - 07.08.2011, Blaðsíða 21
7. ágúst 2011 21 velgengni, Arnaldur Indriðason ber þar höfuð og herðar yfir aðra hvað sölu varðar, hefur selt millj- ónir bóka í Þýskalandi, og Yrsa Sigurðardóttir nýtur einnig velgengni og henni gengur vel í Am- eríku. Ef við teljum hreinræktaðar fagurbók- menntir með þá munu kannski tíu höfundar eign- ast varanlegan sess. Ungverjar, sem voru heiðursgestir hátíðarinnar fyrir röskum áratug, hafa skoðað þróunina hjá sér: á fyrstu tíu árunum eftir „heiðursárið“, sem er alltaf með algera sér- stöðu, hafa tvisvar sinnum fleiri ungversk skáld- verk verið þýdd en á áratugnum fyrir þetta ár. Þetta telja þeir vera varanlegan árangur. Nokkrir höfundar þeirra hafa frá þessum tíma unnið sér fastan sess erlendis, látnir höfundar, eins og Sand- or Marai, verið enduruppgötvaðir. Og einn þeirra hlaut svo Nóbelsverðlaunin, Imre Kertész. Án þess ég ætli nú að fara að lofa þeim upp í ermina.“ Það hlýtur að vera mikil vinna á bak við þátt- töku Íslands í bókastefnunni. Hvernig hefur vinnan farið fram, svona í stórum dráttum? „Við sem sjáum um undirbúning bókasýning- arinnar höfum haft samstarfsmenn í Þýskalandi. Það gerir að verkum að allan tímann hefur verið spurt: Á hverju hafa Þjóðverjar áhuga? Það hefði verið auðvelt að ákveða í byrjun að láta þýða hundrað bestu bækur Íslandssögunnar. En ef það er ekki gert í samstarfi við erlend forlög þá er eng- inn jarðvegurinn fyrir þær bækur. Þú hefur bara búið til pakka, flutt hann út og hent honum í hausinn á fólki. Ég viðurkenni fúslega að það voru hlutir sem ég vildi koma á framfæri sem reyndist ekki vera áhugi fyrir og við því er ekkert að segja. Sumt hef- ur líka mistekist. En það sem hefur náðst fram hefur tekist vegna þess að frá upphafi hefur verið samræða milli okkar og Þjóðverja. Það er alltof mikil tilhneiging hjá Íslendingum að skapa ímynd og flytja hana út. Það virkar ekki. Ef þú vilt kynna þér annað land þá ferðu ekki á opinberu ímynd- arstofuna til að segja þér hvernig það land er. Við erum með þéttan pakka, þekkta höfunda sem hafa hlotið viðurkenningar, en þarna eru líka ungu höfundarnir, tilraunaskáldin og krítísku raddirnar. Allt myndar þetta góða heild. Ég held að þetta muni reynast vel og mun betur en hjá Kínverjunum, en þegar þeir voru heiðursgestir vildu þeir miðstýra öllu sem sneri að þeirra landi. Í þessari stöðu er það bara gott fyrir ímynd Íslend- inga að menn viti að við erum þrasgjörn þjóð en ekki einhverjir náttúruálfar.“ Söguleg meðvitund og kærulaus frásagnargleði Þú talar reiprennandi þýsku og skrifar sömu- leiðis á þýsku. Hvernig er kynnum þínum af Þjóðverjum og Þýskalandi háttað? „Ég var sjö ára þegar fjölskyldan flutti til Þýska- lands árið 1963. Kosturinn við að vera krakki í öðru landi er að maður verður tvítyngdur án fyr- irhafnar. Árin í Þýskalandi voru mótunarár mín, ég fékk aðra menningu nánast í æð og hún varð hluti af mér. Þegar íslenskir krakkar voru að lesa Enid Blyton og Astrid Lindgren lá ég yfir Karl May sem alltof fáir Íslendingar hafa lesið. Hann var bæði lyginn og drykkfelldur indíánabókahöf- undur, en afar fjörlegur sögumaður, og mest lesni höfundur Þýskalands fyrr og síðar. Þegar ég kom til Þýskalands voru átján ár frá lokum seinni heimsstyrjaldar og feður skóla- bræðra minna höfðu barist í stríðinu. Kalda stríðið var enn við lýði og átti sér margvíslegar birting- armyndir. Besti vinur minn átti til dæmis afa og ömmu í Austur-Þýskalandi sem hann mátti aldrei heimsækja af því þau bjuggu í landamærahéraði, sem voru algerlega lokuð jafnvel eftir að ætt- ingjaheimsóknir að vestan voru leyfðar. Í landa- fræðitímum hjá mér mátti hvorki nota orðin „þýska alþýðulýðveldið“ né „Austur-Þýskaland“, heldur varð að segja „sovéska hernámssvæðið“. Fyrir mig sem krakka frá Íslandi gat það verið svo- lítið sérstæð upplifun að sitja í skólastofunni og setja kaffipoka og nælonsokka ofan í pakka handa sveltandi ættingjum í Austur-Þýskalandi, sem ég átti reyndar enga. Á þessum tíma ríkti járnagi í þýskum skólum, svona leikfimiskennarablær yfir öllu eins og lýst er svo vel í Ketti og mús eftir Grass, og ákveðið var um tíu ára aldur hvort börn hefðu hæfileika til bóknáms. Menntaskólinn hófst þá og byrjað var á að kenna latínu. Þegar ég kom svo heim til Íslands tólf ára gamall fannst mér alltaf að ég þyrfti að standa upp í hvert sinn sem kennarinn ávarpaði mig og þéra hann. Ég var náttúrlega bara stór- hlægilegur ofviti fyrst eftir heimkomuna. Núna þegar ég er í miklu samstarfi við Þjóðverja og er að kynna okkar menningu fyrir þeim verður mér oft hugsað til þess hvað þessar þjóðir eru ólík- ar menningarsögulega og hversu ólíkur bak- grunnur þeirra er, þrátt fyrir mikil tengsl. Þjóð- verjar þurftu að taka á sig ábyrgðina á 20. öldinni, mestanpart með réttu, og bókmenntir þeirra snú- ast mikið um sekt og þar er varpað fram stórum siðferðilegum spurningum um það hvernig takast eigi á við hrylling seinna stríðs og nasismann. Ís- lendingar töldu sig hins vegar vera stikkfrí á 20. öldinni, eins og kannski jafnan síðan, svona þang- að til allt hrundi yfir okkur fyrir þremur árum. Maður er oft spurður þessa daga af hverju áhugi Þjóðverja á íslenskum bókmenntum stafi. Það er bent á ferðamennsku, viðskiptatengsl og svo auð- vitað rómantísku stefnuna á 19. öld, þegar Þjóð- verjar fóru að leita uppruna síns og horfðu meðal annars til Íslands; Jakob Grimm lærði íslensku og Richard Wagner las Eddukvæðin. En ég held líka að fleira komi til: Í bókmenntum leyfa þýskir höf- undar sér ekki þá kærulausu frásagnargleði sem við sjáum svo oft í íslenskum bókum og getur ver- ið ákveðinn léttir þýskum lesendum. Ég held að íslenskum bókmenntum sé ekki síst vel tekið í Þýskalandi vegna frásagnargleðinnar sem er í þeim, og það gildir bæði um Laxness og Einar Kárason, Steinunni og Sjón, svo einhverjir séu nefndir. Við Íslendingar minnum dálítið á svo- kallaðar frumstæðar þjóðir að því leyti að við eig- um litla sem enga heimspekihefð. Ef Íslendingur er spurður um tilgang lífsins þá segir hann lífs- reynslusögu af frænda sínum á Súðavík. Þjóðverjar nálgast þessar stóru spurningar út frá abstrakt hugsun, með heimspekilegum hætti. Ég hef á til- finningunni að Þjóðverjum finnist stundum fagn- aðarefni að lesa bókmenntir þar sem höfundar ætla sér ekki endilega að svara stórum spurn- ingum heldur leitast við að segja fólki sögur. Mér finnst að við Íslendingar getum ýmislegt lært af sögulegri meðvitund Þjóðverja meðan Þjóðverjar hafa gott af að kynnast hæfilegu kæruleysi Íslend- inga. Við megum aldrei vera svo sjálfhverf að hugsa bara um að koma okkur á framfæri, við verðum alltaf að reyna að leita að samræðunni, og þannig höfum við reynt að vinna þetta verkefni.“ Halldór Guðmundsson „Því á endanum er bara til einn mæli- kvarði í bókmenntunum, svo ég vitni í Thor Vilhjálmsson, og það er heimsmælikvarðinn.“ Morgunblaðið/Kristinn

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.