Morgunblaðið - 24.09.2010, Page 21
21
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 24. SEPTEMBER 2010
Fastar fyrir Þær mættu ákveðnar til leiks stúlkurnar í franska liðinu Juvisy Essonne þegar þær léku gegn Breiðabliki í meistaradeild Evrópu á Kópavogsvelli í gær. Franska liðið sigraði 3:0.
Ómar
Í ljósi framkom-
innar tillögu á Alþingi
um ákærur á hendur
fjórum fyrrverandi
ráðherrum er rétt að
rifja upp þau sjón-
armið sem réðu um-
ræðunni í þinginu þeg-
ar lög um landsdóm
og ráðherraábyrgð
voru síðast endur-
skoðuð, árið 1963.
Ástæðan er sú að þá
átti sér stað mikilvæg umræða um
það hvort yfirhöfuð væri þörf fyrir
lögin, en einnig hitt, hvaða hættur
fylgdu því að hafa slíka löggjöf.
Niðurstaðan um það hvort lögin
skyldu standa var skýr. Það þótti
nauðsynlegt að hafa slík lög. Í
fyrsta lagi vegna þess að slíka lög-
gjöf bæri að hafa samkvæmt
ákvæðum stjórnarskrár. Í öðru lagi
varð það sjónarmið ofan á að nauð-
synlegt væri að viðhalda löggjöf
,,þar sem hegning er lögð við þeim
brotum, sem óttast má af ráðherra
sérstaklega og ákvæði almennra
hegningarlaga um brot í opinberu
starfi ná ekki til“, eins og það var
orðað í greinargerð með frumvarpi
til laga um ráðherraábyrgð. Það að
til væri sérstakur dómstóll, ef brot
yrði framið, var einnig talið veita
ráðherrum almennt aðhald.
Einhugur var þó um það í
þinginu að lögunum ætti að beita af
ýtrustu varkárni. Hér væri um eins
konar neyðarhemil að ræða fyrir
þingið, sem grípa mætti til, þegar
það aðhald og sú ábyrgð sem hægt
er að ná fram með þingræðisregl-
unni væri ein og sér ófullnægjandi í
ljósi þess brots sem framið hefði
verið.
Hættan á misbeitingu
Alfreð Gíslason, læknir og þing-
maður Alþýðubandalagsins, taldi
lögin óþörf með öllu. Hann varð þó
að viðurkenna að stjórnarskráin
veitti ekki nokkurt svigrúm til að
fella lögin úr gildi. Alfreð taldi það
sérstakan galla á lögunum, hvað í
þeim væri mikið af matskenndum
atriðum. Það sem Alfreð óttaðist
var að ,,ef flokkadrættir miklir yrðu
í landinu, harðdrægni ykist í stjórn-
málunum, að þá gæti nýr meiri hluti
notað sér ákvæði
landslaga því frekar
sem þau væru mats-
kenndari til þess að ná
sér niðri á gömlum
andstæðingum“. Kom
fram í ræðu Alfreðs að
ef lögð yrði áhersla á
það að beita lögunum,
hvenær sem ástæða
þætti til að dómi ein-
hverra, ,,þá yrði sú
beiting hæglega og
kannske fljótlega að
misbeitingu“.
Tekið var undir
þessi sjónarmið Alfreðs og almennt
talið að ef slíkt gerðist í framtíðinni
væri illa komið fyrir þingræðinu.
Mál manna var þó að slíkt væri ekki
líklegt, m.a. með hliðsjón af því að
þá hafði aldrei komið fram tillaga
um beitingu laganna í rúma hálfa
öld þrátt fyrir að ýmislegt hefði
gengið á í íslenskum stjórnmálum.
Það er að gerast
En síðan er önnur hálf öld liðin.
Nú kveðja sér hljóðs nokkrir þing-
menn á Alþingi sem vilja vekja upp
einmitt þessi matskenndu ákvæði
sem Alfreð hafði áhyggjur af, þótt
áhyggjur annarra þingmanna þess
tíma hafi kannski verið minni. Flest-
ir töldu óhugsandi að þingið myndi
koma sér í þau vandræði að ákæra
ráðherra vegna matskenndra atvika.
En eins og sagt hefur verið: Allt
sem getur gerst mun einhvern tím-
ann gerast.
Það er eitt skilyrða þess að mál
sé hægt að höfða gegn ráðherra á
grundvelli ráðherraábyrgðarlag-
anna, að brot hafi verið framið í
embætti af ásetningi eða stórfelldu
hirðuleysi. Það er mat þess sem hér
skrifar að þetta skilyrði sé ekki upp-
fyllt. Þegar af þeirri ástæðu eigi að
hafna framkomnum tillögum um
ákærur. Fleira kemur til sem ekki
verður rakið á þessum vettvangi,
heldur látið við það sitja að fjalla
um það fordæmi sem í uppsiglingu
er.
Staðreynd málsins er að áhyggjur
þeirra þingmanna, sem stóðu að
setningu núgildandi laga, eru að
raungerast á Alþingi ársins 2010.
Verður hér rakinn nánar einn kæru-
liður þingsályktunartillögunnar og
varpað ljósi á líklegar afleiðingar
þess að hann nái fram að ganga.
Veruleg hætta fyrir
fjármálakerfið
Ráðherrunum er í einum ákæru-
liðinum gefið að sök að hafa sýnt al-
varlega vanrækslu fyrir að hafa
ekki haft frumkvæði að því ,,að inn-
an stjórnkerfisins væri unnin heild-
stæð og fagleg greining á fjárhags-
legri áhættu sem ríkið stóð frammi
fyrir vegna hættu á fjármálaáfalli“.
Þessi ákæruliður byggist á
nokkrum meginatriðum. Í fyrsta
lagi á því að til staðar hafi verið
hætta fyrir ríkið vegna mögulegs
fjármálaáfalls. Í öðru lagi er á því
byggt að hættan fyrir fjár-
málakerfið hafi átt að vera ráðherr-
unum sýnileg, þeir hafi haft vitund
um hana en ekki brugðist við henni,
þrátt fyrir að hafa verið það unnt.
Ásetningi eða stórfelldu hirðuleysi
ráðherranna er um að kenna að
mati flutningsmanna tillögunnar.
Rétt er að taka fram að það er ekki
refsiskilyrði athafnaleysis að athöfn
hefði afstýrt hruni bankakerfisins.
Það er nú svo að mannleg tilvera
er skrýtið fyrirbæri. Ekki er nóg
með að sumir hlutir gerist nær
aldrei heldur þá þegar þeir gerast
eiga þeir til að endurtaka sig.
Þannig vill til að með dómi
Hæstaréttar frá 16. júní 2010 í svo-
nefndu gengistryggingarmáli varð
til veruleg hætta fyrir fjár-
málakerfið á Íslandi (í annað sinn á
tveimur árum). Hættan skapaðist
vegna þess að dómurinn komst að
þeirri niðurstöðu að verðtrygging
lána með bindingu við erlenda
gjaldmiðla væri óheimil. Ríkisstjórn
Íslands hafði komið nýja bankakerf-
inu á fót m.a. með því að færa lána-
söfn upp á nokkur hundruð millj-
arða frá gömlu bönkunum inn í þá
nýju, en mörg þessara lána voru
einmitt með verðtryggingu í einu
formi eða öðru sem líkja má við þá
sem dómurinn sagði ólöglega.
Í kjölfar dómsins kom nefnd um
fjármálalegan stöðugleika saman og
mat það svo að vissar líkur væru á
því að allt íslenska bankakerfið
myndi hrynja að nýju. Það færi á
endanum eftir því hversu víðtækt
fordæmisgildi dómur Hæstaréttar
myndi hafa fyrir eignasöfn bank-
anna. Af þessu tilefni var boðað til
fundar í stjórnarráðinu með for-
mönnum allra flokka. Alvarleiki
málsins draup af andlitum embætt-
ismanna og ráðherra. Mér varð á að
spyrja hver bæri eiginlega ábyrgð á
því að svona væri komið en fékk fá
svör. Fram kom að Fjármálaeft-
irlitið væri í óða önn að afla nauð-
synlegra upplýsinga til að átta sig
betur á stöðunni. Fór svo að Seðla-
bankinn og Fjármálaeftirlitið gáfu
út leiðbeinandi tilmæli til fjármála-
fyrirtækjanna um það, hvernig
meðhöndla ætti lánin í bókum bank-
anna þar til úr óvissunni yrði skor-
ið. Dómur Hæstaréttar frá því í
september hefur svo aftur dregið
stórlega úr þessari hættu.
Ríkisstjórnin óundirbúin
Landsmönnum öllum var ljóst, að
ríkisstjórnin var algerlega óund-
irbúin er dómurinn var kveðinn upp
í júní. Þó höfðu legið fyrir lögfræði-
álit bæði frá Seðlabankanum og við-
skiptaráðuneytinu í heilt ár. Fjár-
mála- og forsætisráðherrar hafa
ekki enn fundið álitin á sínum skrif-
stofum, en út frá því hlýtur að mega
ganga að þeir hafi fengið um þau
vitneskju. En hvað sem líður álit-
unum og vitneskju um þau mátti
ríkisstjórninni í það minnsta vera
ljóst að mál hafði verið höfðað og að
dómur myndi falla í Hæstarétti um
þetta mikilvæga álitamál. Allar að-
stæður kölluðu á að ríkisstjórnin
hefði miklar áhyggjur af því ef lánin
stæðust ekki lög. Ekki bara fyrir
hönd ríkissjóðs heldur fjár-
málakerfisins alls.
Engu að síður lét ríkisstjórn Jó-
hönnu Sigurðardóttur undir höfuð
leggjast að láta vinna „heildstæða
og faglega greiningu á fjárhagslegri
áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir
vegna hættu á fjármálaáfalli“.
Í öllum mikilvægum atriðum er
hér um sambærilegt tilvik að ræða
við það sem tillaga um ákærur gegn
fyrrverandi ráðherrum byggist á.
Hættan fyrir fjármálakerfið og rík-
issjóð var til staðar, hún var fyr-
irsjáanleg og ekkert var aðhafst.
Það þarf ekki einu sinni að rann-
saka neitt. Atvik málsins liggja öll
fyrir.
Eitt skal yfir alla ganga
Verði þeirri stefnu fylgt sem lagt
er til í þingsályktunartillögunni um
ákærur er Alþingi komið í algerar
ógöngur. Það er tilgangur þessara
greinaskrifa að forða því að það
gerist. Því öllum má vera ljóst að
verði tillagan samþykkt verður eitt
yfir alla að ganga. Þá verður ekki
aftur snúið, heldur verður að ganga
þá braut, sem þá hefur verið farið
inn á, til enda.
Til að ýtrustu sanngirni sé gætt,
jafnræðis í framkvæmd laga og því
fordæmi fylgt sem í uppsiglingu er,
er þá rétt að í upphafi haustþings
verði lögð fram ákæra á hendur Jó-
hönnu Sigurðardóttur forsætisráð-
herra og Steingrími J. Sigfússyni
fjármálaráðherra til embættismissis
og eftir atvikum sekta og fangels-
isvistar, gegn Gylfa Magnússyni,
fyrrverandi viðskiptaráðherra, til
sekta eða fangelsisvistar, í öllum til-
vikum vegna embættisbrota sam-
bærilegra þeim sem tillögur liggja
fyrir um í þinginu.
Samræmisins vegna væri líklega
rétt að málið tæki einnig til Össurar
Skarphéðinssonar, utanrík-
isráðherra, þó ekki væri nema bara
fyrir það að ,,hafa ekki haft frum-
kvæði, annað hvort með eigin að-
gerðum eða tillögum til annarra
ráðherra, að því að slík greining
væri unnin“, svo notað sé orðalag úr
þingsályktunartillögunni sem liggur
nú fyrir þinginu. Því má ekki heldur
gleyma að ekki er ,,samræmi milli
lögboðins valds og raunverulegs
valds“ ráðherrans.
Þess má geta að hér hefur af
handahófi verið valið eitt atvik af
mörgum sem til álita koma með
hliðsjón af lögum um landsdóm og
ráðherraábyrgð úr starfstíð núver-
andi ríkisstjórnar. Af nógu er að
taka. En vonandi verður óþarfi að
velta því frekar fyrir sér, þingmenn
hljóta að sjá að Alfreð Gíslason
hafði lög að mæla.
Landsdómur
Eftir Bjarna
Benediktsson » Öllum má vera ljóst
að verði tillagan
samþykkt verður eitt yf-
ir alla að ganga. Þá
verður ekki aftur snúið,
heldur verður að ganga
þá braut, sem þá hefur
verið farið inn á, til
enda.
Bjarni
Benediktsson
Höfundur er formaður
Sjálfstæðisflokksins.