Morgunblaðið - 17.08.2011, Qupperneq 23
MINNINGAR 23
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 17. ÁGÚST 2011
þar sem Svanur tók að sér rekstur
útibús KÁ í ört vaxandi sjávar- og
útgerðarbæ. Þar byggðu þau sér
íbúðarhús að Klébergi 7.
Enn bættust störf á Svan þegar
hann varð ráðinn sveitarstjóri í
Þorlákshöfn. Starfið var krefjandi
og umsvifamikið, m.a. þegar hita-
veitan var lögð frá Bakka og eld-
gosið hófst í Heimaey og mikil
uppbygging og fólksfjölgun varð í
Þorlákshöfn. Þessu næst gerðist
Svanur framkvæmdastjóri Skál-
ans í Þorlákshöfn sem sá um olíu-
dreifingu og verslun. Alls staðar
naut Svanur virðingar og var far-
sæll í starfi. Svanur og Edda áttu
bæði stóran þátt í að gera Þor-
lákshöfn að því glæsilega bæjar-
félagi sem það er nú.
Í hátt á annan áratug höfum við
systkinin frá Búrfelli og fjölskyld-
ur farið í ferðalög saman á hverju
ári. Marga staðina á Íslandi höf-
um við ferðast á saman og eitt árið
héldum við á Íslendingaslóðir í
Kanada. Þetta eru eftirminnilegar
ferðir, þarna naut stórfjölskyldan
þess að vera saman og rifja upp
góðar minningar. Svanur var ljúf-
ur í viðkynningu, hjálpsamur og
greiðvikinn. Hann hafði mikla og
góða söngrödd. Þegar hann kom
hingað að Búrfelli, stakk hann
alltaf einhverju góðgæti að smá-
fólkinu, sem gladdi börnin.
Svanur var gæfumaður í einka-
lífi sínu, hann og Edda áttu far-
sælt hjónaband enda voru þau
samhent og lífsglöð. Þau eignuð-
ust þrjú myndarbörn; Laufeyju,
Pál og Guðrúnu. Svanur og Edda
fögnuðu gullbrúðkaupi sínu á
Gömlu Borg 2009, þar var stór-
fjölskyldan samankomin við gleði,
söng og dans.
Að leiðarlokum þökkum við
Lísa Svani löng og góð kynni og
sendum Eddu, Laufeyju, Páli og
Guðrúnu og fjölskyldum þeirra
innilegar samúðarkveðjur og biðj-
um þeim Guðs blessunar.
Blessuð sé minning Svans
Kristjánssonar.
Böðvar Pálsson.
Mig langar í örfáum orðum að
minnast Svans Kristjánssonar.
Edda og Svanur giftu sig í Búr-
fellskirkju 28. mars 1959 ásamt
foreldrum mínum.
Mikill og góður samgangur hef-
ur alltaf verið með Búrfellssystk-
inum og fjölskyldum þeirra sem
aldrei hefur borið skugga á. Við
börn þeirra systkina höfum verið
svo heppin að njóta þess og eigum
við margar góðar minningar í
gegnum tíðina.
Sumarbústaðurinn á Laugar-
vatni, ferðalög, fjölskyldu- og jóla-
boð, þar var Svanur ómissandi
hlekkur í góðri keðju.
Sem unglingur dvaldi ég hluta
af sumri í Þorlákshöfn að vinna í
fiski og bjó þá hjá Eddu og Svani í
Kléberginu. Þar var vel tekið á
móti mér og leið mér eins og
heima. Það sumar kynntist ég vel
því góða viðmóti sem einkenndi
Svan alla tíð.
Svanur var rólegur og yfirveg-
aður og hafði ekki hátt, en alltaf
þegar við hittumst lagði hann inn
einhver góð orð sem gott er að
minnast.
Svanur var gæfumaður í sínu
einkalífi, átti einstaka konu og góð
börn.
Elsku Edda, Laufey, Palli og
Guðrún.
Innilegar samúðarkveðjur til
ykkar og fjölskyldunnar allrar, þó
söknuður ykkar sér sár núna
munu ljúfar og góðar minningar
ylja um ókomin ár.
Anna Guðmundsdóttir.
Þeim fækkar okkar gömlu góðu
vinum. Einhvern fallegasta dag
síðsumarsins kvaddi hann okkur
hann Svanur. Af karlmennsku
tókst hann á við illvígan sjúkdóm
og nú er þeirri baráttu lokið.
Svanur var ættaður úr Borgar-
firðinum en flutti að Selfossi um
miðjan sjötta áratuginn og hóf
vinnu á skrifstofu Kaupfélags Ár-
nesinga. Þar kynntist hann Eddu
Pálsdóttur frá Búrfelli í Grímsnesi
sem varð síðar eiginkona hans.
Þau byrjuðu sinn búskap á Sel-
fossi og bjuggu þar í um það bil 10
ár en fluttu þá til Þorlákshafnar
þar sem þau hafa búið síðan.
Leiðir okkar Svans og hans
góðu konu Eddu hafa legið saman
samfellt í rúmlega 50 ár eða síðan
saumaklúbburinn okkar var stofn-
aður og aldrei hefur borið skugga
á þennan einstaka vinahóp.
Ýmislegt hefur drifið á daga
saumaklúbbsins okkar. Ferðalög
og útilegur með börnin meðan þau
voru ung. Farið hefur verið í leik-
húsferðir og gist á glæsihótelum í
höfuðstaðnum nokkrum sinnum.
Barnahópurinn okkar var stór og
þegar þau höfðu stofnað heimili og
eignast sín börn fannst okkur til-
valið að hittast öll og halda „af-
kvæmasýningu“ sem tókst alveg
með ágætum. Ekki má svo gleyma
tveimur utanlandsferðum sem
farnar voru á tímamótum hjá
saumaklúbbnum.
Um langt árabil höfum við
haldið vinsæl þorrablót með mikl-
um glæsibrag og tilheyrandi mat
og drykk. Þá naut Svanur sín vel
og var ætíð hrókur alls fagnaðar
og átti það gjarnan til að taka lag-
ið og syngja með sinni gullfallegu
söngrödd. Þá var nú ekki lítið
gaman.
Nú á seinni árum hefur hópur-
inn tekið sig til og farið í sumarbú-
staði víðs vegar um landið og verið
saman í nokkra daga í senn og
haft það notalegt. Síðastliðið vor
fórum við í Borgarfjörðinn á
æskuslóðir Svans og þar nutum
við leiðsagnar hans um sveitina.
Alls staðar og alltaf var Svanur
sama ljúfmennið og svo sannar-
lega voru þau hjónin Svanur og
Edda samstiga og einstök í öllu
sem þau tóku sér fyrir hendur.
Börnin þeirra þrjú bera líka með
sér mannkosti og myndarskap úr
foreldrahúsunum.
Já, það hefur fækkað í hópnum,
svona er lífið. Við kveðjum þig,
kæri vinur, og þökkum samfylgd-
ina. Elsku Edda. Guð veiti þér og
fjölskyldu þinni styrk á komandi
tímum.
Saumaklúbburinn,
Ragnheiður, Björg, Aðal-
björg, Esther og makar.
Vorið 1955 komu nokkrir nýút-
skrifaðir nemar úr Samvinnuskól-
anum til starfa hjá Kaupfélagi Ár-
nesinga á Selfossi, þeirra á meðal
undirritaður og Svanur Kristjáns-
son frá Ferjubakka í Borgarfirði.
Urðum við Svanur herbergis-
félagar í kjallaraíbúð við Fagur-
gerði sem við leigðum ásamt fé-
lögum okkar. Á þessum árum
þróaðist með okkur vinátta sem
haldist hefur alla tíð síðan.
Utan vinnunnar áttum við
mörg sameiginleg áhugamál, t.d.
hófum við að æfa með Kirkjukór
Selfoss fyrsta haustið og í honum
störfuðum við síðan næstu árin og
kynntumst þar mörgu skemmti-
legu fólki. Þennan fyrsta vetur var
bygging Selfosskirkju á lokastigi
og því miklar æfingar fyrir vígsl-
una sem fram fór um vorið. Starf í
kirkjukór snýst ekki eingöngu um
söng við messur og útfarir heldur
fylgir því oft líflegt félagsstarf
eins og við komumst að raun um.
Á þessum árum gekk ég til liðs við
nýstofnaða Lúðrasveit Selfoss og
nokkru síðar kom Svanur einnig í
þann hóp og starfaði í honum síð-
ustu árin sem hann bjó Selfossi.
Einnig tókum við þátt í uppsetn-
ingu nokkurra leiksýninga sem
Kvenfélag Selfoss stóð fyrir. Þá
má nefna líflegt félagslíf og ferð-
lög á vegum starfsmanna Kaup-
félagsins. Það er því margs að
minnast frá þessum árum því ým-
islegt eftirminnilegt kom uppá í
öllu þessu stússi.
Við Svanur leigðum saman í
Fagurgerðinu til vors 1968, en þá
höfðum við báðir fest okkar ráð og
við tók að stofna eigin heimili og
koma upp þaki yfir höfuðið. Hóf
Svanur búskap með heitkonu
sinni, Eddu Laufeyju Pálsdóttur,
frá Búrfelli í Grímsnesi. Þau
reistu sér hús við Sunnuveg og
bjuggu þar næstu árin en fluttu
síðan til Þorlákshafnar þegar
Svani bauðst starf útibússtjóra
K.Á. þar. Í Þorlákshöfn hafa þau
búið síðan og verið þar virkir þátt-
takendur í mótun mannlífs og
byggðar. Þótt fjarlægðin væri
nokkur héldu vináttuböndin og
gjarnan efnt samfunda þegar til-
efni gafst.
Síðustu ár þegar báðir höfðu
lokið starfsskyldum við samfélag-
ið, og því nokkuð sjálfráðir um
eigin tíma, áttum við saman
nokkrar góðar stundir. Er mér þá
ofarlega í huga dvöl í veiðihúsi út
við Hlíðarvatn með það að mark-
miði að draga fisk úr vatninu.
Minna varð þó úr veiðiskapnum
en til stóð, en því meir ausið úr
sjóði minninganna frá þeim tím-
um sem áður er getið. Þetta end-
urtókum við síðan að ári með
sama árangri og stóð reyndar til
enn á ný sl. vor. Af því varð þó
ekki enda tíðarfar óhagstætt og
heilsu Svans tekið að hraka. Þó
ljóst mætti vera að hverju stefndi
átti ég ekki von á að svo stutt væri
í endalokin sem raun varð á.
Ég kveð þennan vin með djúp-
um söknuði en fyrst og fremst
með þakklæti fyrir að hafa átt
með honum samleið og notið vin-
áttu hans í áratugi.
Við Mæja sendum Eddu, bör-
unum og öðrum ástvinum einlæg-
ar samúðarkveðjur.
Helgi Helgason.
Í dag kveðjum við Svan Krist-
jánsson. Hugurinn hvarflar til
baka til ársins 1977 en það ár stóð-
um við báðir á tímamótum, Svan-
ur var að láta af störfum sem
fyrsti sveitarstjórinn í Ölfusi og ég
að taka við keflinu frá honum. Við
ræddum hvernig best væri að
standa að verki og niðurstaðan
varð að við ákváðum að vinna
saman að gerð fjárhagsáætlunar
fyrir árið. Þetta var löngu fyrir
tíma tölvunnar, aðaltækin voru
reiknivél og ritvél. Á þessum tíma
þótti einnig sjálfsagt að drekka
mikið af kaffi og reykja London
Docks-vindla. Eftir mikla um-
ræðu, útreikninga, kaffibolla og
vindla lá áætlunin fyrir. Og í fram-
haldi af því hélt Svanur á vit nýrra
ævintýra, en mín beið að hrinda
áætlun í framkvæmd.
Í þessari vinnu okkar kom vel
fram hvernig Svanur nálgaðist
viðfangsefnið, hans stíll var að
leggja málin vel fyrir sig, ekki
flana að neinu, heldur að hafa vað-
ið fyrir neðan sig.
Eins og áður segir var Svanur
ráðinn árið 1970 sem fyrsti sveit-
arstjórinn í Ölfusi og við þau tíma-
mót flutti stjórnsýslan frá Her-
manni Eyjólfssyni, oddvita í
Gerðakoti, til Þorlákshafnar. Á
þessum árum öx Þorlákshöfn
hratt og má segja að sprenging
hafi orðið við gosið í Heimaey árið
1973. Í framhaldi af því var byggt
hverfi sem ber nafn eyjanna,
Eyjahraun. Það var því í mörg
horn að líta hjá Svani á þessum ár-
um. En Svanur stóð ekki einn, því
hann átti því láni að fagna að eiga
góðan og traustan lífsförunaut,
hana Eddu.
Svanur og Edda áttu og ráku
um ártugaskeið Skálann í Þor-
lákshöfn og fór það vel úr hendi
eins og annað sem þau tóku sér
fyrir hendur.
Svanur var myndarmaður á
velli, sterkbyggður, með sterkan
svip, gat verið brúnaþungur og
hugsi en ávallt var stutt í brosið
hjá honum. Þau Edda héldu hesta
í mörg ár og var Svanur duglegur
að bregða sér á bak og taka skeið-
ið. Svanur var og söngmaður góð-
ur, var með fallega bassarödd og
söng um áratugaskeið í kirkju-
kórnum. Á síðari árum hafa þau
Edda verið dugleg að ferðast. Í
því sem öðru hafa þau verið ein-
staklega samhent og samrýnd.
Missir Eddu er mikill og vottum
við Birna, henni sem og Laufeyju,
Palla, Guðrúnu og fjölskyldum
þeirra okkar dýpstu samúð.
Blessuð sé minning Svans Krist-
jánssonar.
Þorsteinn
Garðarsson.
Elsku pabbi, ég veit ekki
hvort ég hef sagt þér það nógu
oft eða þakkað þér fyrir allt það
sem þú hefur gert fyrir mig eða
mína litlu fjölskyldu í gegnum
ævina. Það að þú hafir farið frá
okkur svona snemma skilur eft-
ir sig stór spor sem ekki er auð-
velt að fylla en þrátt fyrir það
hefur þú kennt mér svo mikið.
Ég man þegar ég var 15-16
ára og þú lést mig slá garðinn
vikulega með sláttuvél sem var
óttalegur garmur, bilaði á tutt-
ugu mínútna fresti og alltaf
kom ég inn í hús hundfúll og
pirraður, tuðandi útaf þessu
drasli. Þótt ég væri mjög svo
pirraður yfir þessu og tuðaði út
í eitt sagðirðu við mig að ég
skyldi gera við þessa fínu
sláttuvél og ekki koma inn aftur
fyrr en ég væri búinn að gera
við hana og slá garðinn. Eftir
mikið tuð og gremju fór ég út
og gerði við hana þrátt fyrir
mikla vankunnáttu.
Það var ekki fyrr en ég var
um 19-20 ára sem ég var að tala
við hana ömmu mína einn dag-
inn, þá barst þetta í tal. Hún
hló og sagði mér frá því að þeg-
ar þú varst á svipuðum aldri
hefði afi látið þig gera það sama
nema þá var það bíll sem var að
plaga þig og afi hafði sagt þér
að gera við bílinn og koma ekki
inn fyrr en hann væri gangfær.
Það tók mig smá tíma að átta
mig á því að þetta var sennilega
ein mikilvægasta lexía sem ég
hafði fengið.
Þú kenndir mér að gefast
ekki upp á hlutunum þótt
ómögulegir virtust, að vera
nöldra og tuða yfir hlutunum
gagnaðist manni skammt og að
það þýddi ekkert annað en að
ganga í þá. Það verður seint
tekið af þér þótt farinn sért að
þú ert einn duglegasti maður
sem þekkst hefur. Ég reyni að
fara eftir þessari lexíu eins vel
og ég get í dag en eins og ég
segi, þá skilurðu eftir stór spor
sem ómögulegt er að fylla.
Elsku pabbi minn, ég mun
ávallt sakna þín og minnast.
Þinn sonur,
Davíð Arnar.
Reynir móðurbróðir minn
lést í síðustu viku eftir stutta en
harðvítuga baráttu við illvígan
sjúkdóm. Undanfarna daga hafa
minningar frá barnæsku fram á
fullorðinsár streymt fram, allt
frá minningum barnsins sveip-
uðum ljóma aðdáunar, fram til
fullorðinsára, þá sveipaðar vin-
skap og væntumþykju.
Sem barn trúði ég statt og
stöðugt að Reynir frændi gæti
allt. Hann var stór og sterkur
og margsinnis sá ég hann
tjónka við skepnur sem enginn
annar þorði að nálgast og fór út
á sjó í verstu óveðrum óhrædd-
ur. Ég eyddi alltaf hluta af
sumrunum í æsku fyrir vestan
hjá ömmu og afa og frændum
mínum. Ég var alltaf fyrir vest-
an á sjómannadaginn og man
vel hvað ég var ótrúlega stolt af
hraustu frændunum mínum sem
oftar en ekki unnu kappróður-
inn sem haldinn var laugardag-
inn fyrir sjómannadag. Ég man
sérstaklega eftir einum slíkum
laugardegi þar sem Reynir tók
þátt í einvígi í koddaslag niðri á
bryggju þar sem hinn sigraði
Reynir Axelsson
✝ Reynir Ax-elsson skip-
stjóri fæddist á
Hellissandi 30. des-
ember 1961. Hann
lést á Landspít-
alanum við Hring-
braut 3. ágúst 2011.
Reynir var jarð-
settur frá Ingjalds-
hólskirkju, Hellis-
sandi 13. ágúst
2011.
féll í sjóinn. Margir
reyndu við Reyni
en enginn hafði er-
indi sem erfiði. Að
sjálfsögðu vann
Reynir frændi,
hann var sterkast-
ur og ósigrandi í
huga barnsins en
þennan dag var það
líka staðreynd fyrir
alla aðra.
Við áttum sam-
eiginlega ást á hestum og Reyn-
ir var hestamaður af guðs náð.
Ég lærði að sitja hest fyrir
vestan hjá ömmu og Reynir
varð fljótt átrúnaðargoðið mitt í
hestamennsku og kenndi mér
flest varðandi hestamennskuna
enda besti reiðmaður og tamn-
ingamaður á nesinu og þótt víð-
ar væri leitað, að mínu mati.
Við áttum ófáa reiðtúra saman
á Snæfellsnesinu, ógleymanleg-
ar stundir sem ég þakka fyrir í
dag. Fyrir tæpum þremur árum
áttum við tvö dýrmætan og góð-
an dag saman. Við fórum norð-
ur í land að sækja hesta til að
flytja vestur. Að sjálfsögðu lenti
Reynir í barningi við einn ótam-
inn þegar hann ætlaði að koma
honum upp í kerru en hann
hafði yfirhöndina að lokum eins
og alltaf.
Elsku frændi, ég trúði alltaf
að þú myndir einnig hafa yf-
irhöndina í veikindunum, ein-
hvern veginn kom annað aldrei
til greina. Myndin sem barnið
hafði eitt sinn af frændanum
var í raun óbreytt. Því er svo
óskiljanlegt og sárt að þú sért
farinn á burt, að það sé til afl í
þessum heimi sem gat sigrað
þig. Ég kveð þig nú með sorg í
hjarta en hugga mig við þá
mynd sem ég hef af þér í huga
mér: þeysandi um engin á fal-
legum fák inn í sólsetrið,
hraustur og sterkur og glaður.
Við sjáumst síðar.
Þín
Jóhanna Harpa.
Mikið er fjörið á bryggjunni,
ég hálendingurinn veit ekki al-
veg hvernig ég á að vera í minni
fyrstu heimsókn á Hellissand,
Guðbjörg mágkona mín þurfti
að sækja manninn sinn að Rifi
þar sem hann var að koma af
sjó. Skyndilega birtist maður,
sæl, Reynir heiti ég og vertu
velkomin, sem sagt ekkert að
óttast, jú hann var með andlit
en annað hafði mér verið sagt,
komst reyndar að því síðar að
hann hafði orðið fyrir alvarlegu
slysi sem strákur er sprakk
framan í hann prímus. Ein-
hverju sinni löngu seinna vorum
við að búa okkur eitthvað og þá
sagðist hann þurfa að raka á
sér nefið, ekki hefðu þeir lækn-
arnir getað sett skinnið alveg á
réttan stað, en þó hann Reynir
væri skemmdur í andliti þá
hafði hann einn þann besta
mann sem ég hef kynnst að
geyma, mér var tekið eins og ég
var, ekki reynt að búa til nýtt
líf handa mér þó ég væri að
koma í stóra fjölskyldu.
Reynir var vinur vina sinna
og lét ekki segja sér fyrir verk-
um í þeim efnum, mér þótti
óendanlega vænt um þennan
hlýja mann sem alltaf vildi mér
vel.
Þegar ég skildi við Jónas
2007 þá rofnuðu tengslin við
fjölskylduna allt of mikið, ég
hreinlega missti af þeim öllum,
það var mér mjög sárt en hver
og einn hefur sinn sið, þau
hættu að hafa samband en ég
vissi samt alltaf hvar allir voru,
hvað allir voru að gera og ef
nýtt barn fæddist þá fékk ég að
vita það.
Um veikindi þín fékk ég líka
að vita, í fyrstu var lítið úr þeim
gert og þetta væri bara eitthvað
smotterí sem þú myndir hrista
af þér, auðvitað þú sem aldrei
varð misdægurt, þegar ég átt-
aði mig svo á því að um ljótu al-
vöruna væri að ræða var orðið
of seint að birtast allt í einu eða
taka upp síma. Þess vegna sit
ég hér og kveð þig svona, þó að
mér sé það næstum ómögulegt
vegna tára en þau þorna og
minningarnar um þig skapa sér
sess í huga mínum.
Ég veit að þú siglir þessu
nýja skipi á rétt mið og verður
fiskinn eins og þú ert vanur, ég
hefði nú heldur viljað að skip-
stjórinn hefði verið áfram á
skipinu sínu heima hjá konu,
börnum, tengdabörnum, barna-
börnum, sem hefðu átt að njóta
þín svo miklu lengur og aldraðri
móður sinni sem nú horfir á eft-
ir syni sínum látnum alltof
snemma, ég vona innilega að þú
hafir það gott á nýjum slóðum
og þar séu gluggarnir svo rúmir
að þú þurfir ekki að troða þér
og öðrum út um þá.
Já, ég átti svo margt eftir að
segja þér en það bíður bara
betri tíma.
Allri stóru fyrrverandi
tengdafjölskyldunni minni votta
ég samúð.
Bugga, Sigurlaug, Davíð,
Sævar tengdabörn og barna-
börn. Ykkur votta ég mína
dýpstu samúð.
Jóhanna, þú átt samúð mína
alla, að missa son í blóma lífsins
getur enginn sagt til um nema
sá sem reynir.
Fyrrverandi tengdaforeldr-
um mínum sendi ég einnig mín-
ar dýpstu samúðarkveðjur,
Sælín Sigurjónsdóttir.
✝
Elskuleg eiginkona mín, móðir okkar,
tengdamóðir, amma, langamma og langa-
langamma,
STEFANÍA ÁRMANNSDÓTTIR,
Aðalstræti 62,
Akureyri,
lést á Sjúkrahúsi Akureyrar föstudaginn
12. ágúst.
Útför hennar fer fram frá Akureyrarkirkju föstudaginn 19. ágúst
kl. 10.30.
Baldur Sigurðsson,
Sigrún Skytte, Jens Christian Skytte,
Sigurður Baldursson,
Baldur Ólafur Baldursson, Sarah Krüger,
ömmu- og langömmubörn.