Akranes - 01.12.1944, Blaðsíða 27

Akranes - 01.12.1944, Blaðsíða 27
AKRANES 159 voru þeim ekki ofviða fjárhagslega. Hafliði í Svefneyjum kveðst hafa keypt tæki fyrir 300 rd., „sem eru ýmislegar nætur og önglar til að veiða með síld og lax, þorsk, spreki og fleira, bæði í vötnum, ám og sjó,“ auk bræðslupott- ar og fleiri tækja til lýsisbræðslu.1) Mun lítill efi á, að nokkurt gagn hefur orðið af sumu þessu, þótt ekki hafi það haft mikilvægar breytingar í för með sér. Þá er þess að gæta, sem hvergi kemur fram í skýrslunni, að Kristinn í Engey mun hafa kannað nákvæmlega smíða- lag og seglaútbúnað skipa þeirra og báta, sem þarna voru og líkön eða uppdrættir af. Er ekki ólíklegt að för þessi hafi átt nokkurn þátt í því, hversu Kristni tókst vel að stórbæta bátalag og segl á opnum skipum. Þriðja og mikilvægasta afleiðing fararinnar var sú, að þeir félagar sáu með eigin augum, hvílíka yfirburði þil- skipin höfðu umfram opnu fleyturnar, sem Faxaflóaút- gerðin var nær eingöngu reist á. Er í því sambandi ekki úr vegi að minnast ummæla Hafliða Eyjólfssonar um þilskipa- flotann við Skotlandsstrendur, en að þeim ummælum var áður vikið. Það reið svo baggamuninn, að til fararinnar höfðu valizt menn, sem þorðu að láta athafnir fylgja orð- um, og voru ekki hræddir við að hverfa út af margtroðn- um slóðum. Ári síðar en förin var farin, höfðu þrír Reyk- víkingar bundizt samtökum um að gera tilraun með þil- skipaútgerð, og fest kaup á skútu í því skyni. Tveir þess- ara manna voru Björgvinjarfarar, Kristinn Magnússon og Geir. Þriðji eigandinn var Jón Þórðarson bóndi og útgerðar- maður í Hlíðarhúsum. Skútukaup þessi voru upphaf þil- skipaútgerðar Geirs, sem síðar átti eftir að vaxa stórlega og hafa mikil áhrif á þróun útvegsmála. Hitt er hin mesta fjarstæða, sem ýmsir virðast halda, að Geir Zoega hafi fyrstur allra við Faxaflóa, og jafnvel manna fyrstur á ís- landi, gert út þilskip til fiskveiða! Má furðu gegna, að sú firra skuli hafa fest svo víða rætur, sem raun ber vitni. Kann þar nokkru um að valda mynd ein, sem út var gefin af „Reykjavíkinni“, skipi Geirs, og undir var letrað: „ís- lands fyrsta fiskiskip.11 Er sú áletrun gjörsamlega út í loft- ið, hvernig sem hún er túlkuð. Þegar „Reykjavíkin“ var keypt (hún var meira að segja annað skip Geirs Zoega!!), höfðu íslenzk þilskip verið gerð út samfleytt í 70 ár, bæði til þorskveiða og hákarls. Við Faxaflóa hafði og verið gert út skip og skip á strjálingi allan þann tíma. Hitt er rétt og satt, að þilskipaútvegur við Faxaflóa komst ekki á réttan grundvöll og fastan rekspöl fyrr en Geir Zoega tók að sýna, hvernig ætti að reka slíkan atvinnuveg. Til nokkurs fróðleiks verður í næsta kafla gert stutt yfir- lit um tilburði þá til þilskipaútgerðar, sem sögur fara af fram að tímum Geirs Zoéga. 12. Fyrri útgerðartilraunir Nokkrar óljósar sagnir eru um það, að Guðni Sigurðsson sýslumaður, sem uppi var á 18. öld, hafi gert út frá Suður- nesjum einn þilbát til fiskiveiða, skömmu eftir 1750. Um þessa útgerð er ekkert með sannindum vitað og skal því ekki orðlengt um hana hér. Hitt er kunnugt af fjölda heim- ilda, að um sömu mundir hófst útgerð frá Hafnarfirði að tilhlutun Skúla landfógeta Magnússonar, og á vegum iðn- aðarstofnananna svokölluðu. Voru til þeirra nota fengnar tvær duggur, er jafnframt skyldu flytja vörur milli íslands og Danmerkur. Útgerð þessi bar sig illa og stóð mjög skamma hríð. Voru orsakir ýmsar, en munu ekki raktar hér. Má í því efni vísa til bókar Jóns Aðils um Skúla Magnússon landfógeta, en þar er skýrt ítarlega frá útgerð- artilraun þessari. Árin 1777—1786 höfðu Danir allmikla þilskipaútgerð hér við land. Var sú útgerð rekin fyrir atbeina danskra stjórn- arvalda og með föstum, lögbundnum styrk úr ríkissjóði. í 1) Þjóðólfur, 30. okt. 1867. tilskipun um þetta efni, dagsettri 6. maí 1775, er á það lögð megináherzla, að útgerð þessi sé sett af stokkunum í því skyni, að kenna íslendingum sjósókn á þilskipum og auð- velda þeim hagnýtingu hinna gjafmildu fiskimiða. Eru menn hvattir til að færa sér tækifærið í nyt eftir föngum. Vafalaust hafa fleiri ástæður legið til þess, að hafizt var handa um útgerðina, en greindar eru í stjórnarráðsbréfinu. Sennilegt er, að danskir valdhafar hafi séð ofsjónum yfir þeim auðæfum, sem ýmsar siglingaþjóðir sópuðu upp við strendur landsins, og hafi viljað láta eitthvað af þeim drjúpa í skaut danskra manna. Munu þeir hafa talið sig • koma auga á arðvænlega atvinnugrein, þar sem voru veið- arnar við íslandsstrendur, og ætlað að styðja brautryðj- endur yfir fyrstu örðugleikana. Skip þau, sem Danir sendu hingað til veiða, voru af tveim gerðum, „húkkortur“ og „jaktir“. Húkkorturnar voru fremur stórar, breiðar, flatbotna og tregar til sigl- inga. Reyndust þær ekki heppilegar til veiða. Jaktirnar voru minni og höfðu ekki jafn fjölmenna áhöfn. Þóttu þær eiga betur við alla staðhætti. Aðsetursstaður skipa þessara var í Hafnarfirði. Voru hæg heimatökin hjá stjórninni, því að hún átti jörðina Hvaleyri. Voru reist allmikil mannvirki við fjörðinn, íbúðarhús, verzlunarhús og geymsluhús ýmis konar. Á Langeyri, norð- an fjarðarins, voru hlaðin stakkstæði til að þurrka á fisk- inn. Fyrsta árið, sem Danir stunduðu þilskipaveiðarnar frá Hafnarfirði, gengu þaðan tíu skip til fiskjar. Næstu árin fjölgaði þeim mjög, og urðu flest árið 1780, 42 að tölu. Að meðaltali gengu 27 skip á veiðar frá Hafnarfirði á ári hverju þau tíu ár, sem útgerð þessi stóð (1777—1786). Sam- tals voru hér að veiðum 198 húkkortur og 68 jaktir, eða 266 skip, ef lagður er saman skipafjöldinn yfir allan tím- ann. Alls voru skipin 10868 V2 lestir að stærð, eða rúmar 40 lestir að meðaltali. Er hér átt við commerce-lestir, en þær voru helmingi stærri en rúmlestir í skipum nú. Veiði skip- anna þetta tímabil var 648 þús. þorskar. Þar af var salt- fiskur 4386V2 tunnur, en hertur fiskur 4324 skippund. Verð- mæti aflans var samtals 169785 ríkisdalir. Var það harla lítið, enda mun útgerð þessi hafa farið mjög í handaskolum. Danir kunnu lítt til fiskiveiða hér við land, en íslendingar höfðu ótrú mikla á nýbreytni þessari. Voru þeir naumast fáanlegir til að ráðast á skipin, svo að þau skorti oft næga áhöfn. Varð því lítið úr þeirri hugmynd, að þeir lærðu vinnubrögð á þilskipum, svo að gagni kæmi. Tilraun þessi fór út um þúfur, meðal annars vegna sljóleika og dáðleysis íslendinga sjálfra. Þeir höfðu látið tækifærið ónotað, og urðu því að bjargast við kænur sínar enn um skeið. Þó tók nú að líða að þeim tíma, er hinir framsýnustu menn og at- hafnasömustu sáu gildi þilskipanna og hæfi þeirra um- fram opnu skipin. Guðni hét maður. Hann var sonur Sigurðar Runólfssonar bónda í Sandgerði og Margrétar Andrésdóttur á Krögg- ólfsstöðum, Finnbogasonar. Guðni komst til allmikilla met- orða, varð landsþingsskrifari 1743 og héraðsdómari í Gull- bringusýslu skömmu síðar. Árið 1749 var Guðni settur landfógeti til bráðabirgða, unz Skúli Magnússon tók við. Næsta ár varS hann sýslumaður Kjósarsýslu, en 1753 sleppti hann sýslumannsembætti, og var eingöngu bóndi upp frá því. Svo er sagt, að er Guðni var sýslumaður Kjósarsýslu, hafi hann átt jakt allstóra, er hann gerði út til fiskveiða frá Suðurnesjum. Ekki var það þó nema skamma hríð, sem Guðna hélzt á skútunni. Hún slitnaði upp í ofviðri og rak á land í Kirkjuvogsvör, þar sem hún brotnaði í spón. Þess er ennfremur getið um Guðna, að hann hafi verið þjóð- hagasmiður, og meðal annars fengizt við skipasmíðar með góðum árangri. Að öðru leyti verður ekkert um útgerðar- tilraun hans fullyrt, og eru þetta sögusagnir einar, sem hér hafa verið raktar. Framh.

x

Akranes

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Akranes
https://timarit.is/publication/865

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.