Akranes - 01.12.1944, Blaðsíða 13

Akranes - 01.12.1944, Blaðsíða 13
AKRANES 145 hvort einn hefði við að ausa og reyndist það kleift með stöð- ugu áframhaldi. Var nú troðið í stærstu rifurnar og bætti það nokkuð úr. Kom það í hlut Reykjavíkur piltsins að ausa. Lét hann eigi af því, að þetta væri „hrip en ekki skip.“ Þótt áraburður okkar Þorsteins væri ekki með sjómanns svip, léttum við þó lítið eitt undir með þeim nöfnum, og heilir náðum við í höfn á þessu lekahripi, sem enginn heilvita- maður mundi telja sjófært nú á tímum. En farið var heldur ekki dýru verði keypt, því að skipsleigan var einar fjórar kr. Guðmundur Þorgrímsson var æðrulaus, þótt hægt skriði og þungur væri róðurinn. Hann var sonur séra Þorgríms í Saur- bæ á Hvalfjarðarströnd og bróðir þeirra systra, Steinunnar í Höfn í Melasveit og Ragnheiðar á Grund á Akranesi. Magn- hildur, kona Guðmundar, var að nokkru leyti uppeldisdóttir Jóns sýslumanns Thoroddsens á Leirá. Má meðal annars ráða í, að svo hafi verið, af brúðkaupskvæði, sem Jón Thoroddsen orti til þeirra. Þar segir hann: Þorvaldur þess mig bað, þér ungri hlynna að. Eg vildi inna það af hendi bezt. Á skáldið víst þar við tengdaföður sinn, Þorvald Sívertsen í Hrappsey. Hefur Þorvaldur hreppstjóri í Belgsholti, sonur þeirra hjóna, borið nafn hans. Þau Belgsholtshjón komu mér þá svo fyrir sjónir, að þau væru betur mennt en bændafólk var þá almennt. Ekki er ég fær um að lýsa Reykjavík eins og hún kom mér fyrir sjónir fyrir sextíu og sex árum. Þess gerist heldur ekki þörf, því að margt hefur verið um hana skrifað frá ýmsum tímum. Klemens Jónsson landritari og Jón Helgason biskup, sem voru báðir fræðimenn, hafa skrifað sögu Reykjavíkur frá þessum árum. Þar sátu þeir við menntabrunn í æsku og nutu þess í ríkum mæli, sem höfuðstaður landsins hafði bezt að bjóða. Nú kom ég þar í fyrsta skipti, eins og álfur úr hól. Ég vissi það eitt, að hér var ekki tími til að standa og glápa, því að ég átti að taka út vörur á lest mína: Korn hjá Jóni Zímsen og harðfisk hjá Einari Sigvaldasyni í Háholti. Utanbúðar- manninn hjá Zímsen hafði ég áður séð á Brákarpolli. Hann hét Hafliði Guðmundsson, maður gegn og gætinn. Meðal af- greiðslumanna í búðinni var Jón Bjarnason Straumfjörð. Hann tók mér vinsamlega, þegar hann vissi um ætt mína og taldi mig frænda sinn, og hafði það við rök að styðjast. Síðar kynntist ég honum betur. Þótti mér hann jafnan lítil- látur og ljúfur. Jón var móðurbróðir séra Bjarna Þorsteins- sonar, tónskálds á Siglufirði, og þeirra systkina. Faðir hans var Bjarni, sonur Einars Þórólfssonar í Kalmanstungu, en móðir hans, Arndís Árnadóttir, systir þeirra bræðra, Jóns stúdents á Leirá og Kolbeins á Hofstöðum. Jón Straumfjörð fór ungur í skóla, en lauk þar ekki stúdentsprófi, gekk svo á prestaskóla, þegar hann var 45 ára að aldri og var vígður til Meðallandsþinga 1888, 48 ára að aldri. Eftir það lifði hann fá ár. Jón bar með sér hið karlmannlega svipmót ætta sinna og var vel á sig kominn að öllu líkamsgervi, en þó að sumu .leyti ekki alþýðlegur. Hann mun hafa orðið kunnastur fyrir ritgjörð, sem hann skrifaði um Jón biskup Vídalín. Ég nafngreini hér aðeins tvo verzlunarmenn, þá Hafliða Guð- mundsson og Jón Straumfjörð, því að bæði í þessari ferð og síðar, um tíu ára skeið, hafði ég nokkuð saman við þá að sælda. Ekki voru nema örfáir verzlunarstaðir í Reykjavík, er ég kom þar fyrst og flestir eign danskra eða norskra kaupmanna. Það, sem auðkenndi alla þessa staði, var sterkur vínþefur, sem lagði út um dyr allra sölubúða. Þegar inn var komið, mátti sjá víntunnu á stokkum innan við búðarborðið, með krana í botni, sem auðvelt var að opna, hvort sem vín var mælt í stórum eða smáum skömmtum. Þá kostaði einn pott- ur brennivíns sextíu aura. Það mætti því ætla, að meðan þess- ar brennivínslindir stóðu opnar hverjum, sem hafa vildi, hefði ekki orðið þverfótað hvorki úti né inni fyrir ofdrykkju- mönnum. Svo var þó ekki, eins og bezt sést á því, að aðeins tveir lögregluþjónar, sem voru báðir aldraðir menn, voru látnir nægja í Reykjavík. Ekki þurfti þá langt að fara út fyrir kaupstaðinn til þess að reka sig á torfbæi. Þeir voru víðsvegar og margir svo að ytra útliti, að það voru rétt nefnd hreysi. En þótt ytra útlit væri hrjúft, gat stundum verið öðru máli að gegna, er inn var komið. Ég gisti í Hlíðarhúsum að þessu sinni. Um margra ára skeið átti ég þar athvarf í Reykjavíkurferðum. Þar voru þá þrír torfbæir í röð, með standþiljum, sem snéru til austurs. Þar stendur nú íbúðarhús Geirs Sigurðssonar, Vesturgötu 26 A. Ég gisti í bænum, sem næstur lá götunni. Þar bjuggu þá Jón Þórðarson og kona hans, Jódís Sigurðardóttir. Þau voru þá nokkuð við aldur. Jón hafði verið formaður um langan aldur og sægarpur. Hann var dökkur á brún og brá, gildvaxinn og karlmannlegur, fáyrtur og hægur í fasi, en gamanyrði hafði hann jafnan á takteinum. Þau Hlíðarhúsa- hjón áttu fjögur börn, sem þá voru öll uppkomin og tvö þeirra gif-t, Þórður, útvegsbóndi í Ráðagerði og Guðrún á Mið-Seli, kona Magnúsar Vigfússonar frá Grund í Skorradal. Tvær dæturnar voru þá ógiftar, Jódís, sem varð kona Ámunda Ámundasonar frá Sandlæk og Vilborg, sem varð kona Ólafs Þórðarsonar frá Vigfúsarkoti. Það var svo enn 1878, að útvegsbændur höfðu uppsátur fyrir áraskip sín með allri sjávarsíðunni innan frá Sölvhól og til Eiðsgranda. Þá var líka allt Seltjarnarnes vel skipað útvegsbændum, og margir þeirra nafnkenndir formenn. Væri vel þess vert, að saga þeirra yrði skráð. Fyrsta verk mitt er að Hlíðarhúsum kom, var að ganga til sjávar með Jóni bónda til þess að hjálpa til að setja upp skip hans. Vinnumenn hans tveir, Ámundi og Þórður Pétursson, bróðursonur Jóns Þórðarsonar, síðar kenndur við Oddgeirs- bæ, voru þá að koma á þeim úr beitifjöru innan úr Hval- firði. Þessar beitifjöruferðir heyrast nú ekki lengur nefndar. En um langt skeið voru þær taldar helzta fangaráðið fyrir þá, sem stunduðu vorróðra á Faxaflóa. Þegar ég í fyrsta sinn sá skip koma að landi, drekkhlaðið af eintómum skeljum, þótti mér það næsta kynlegt, að svo mikil vinna skyldi vera lögð í þvílík aflabrögð. En það voru sjómennirnir, sem kunnu að meta þau. Mér er í minni, hvað handtök þeirra voru hröð og viss, þegar þeir voru setztir í hvirfingu utan um stóran hrauk af skeljum, klufu þær upp og skáru úr þeim fiskinn. Ég horfði um stund á þessa myndar- legu menn, sem voru að skeggræða um sjóferðir og dæma um beituna, hvernig hún mundi reynast. Þá sagði einn, sem var að skera úr: „Beitan verður ágæt í þetta sinn. Fyrsta verk mitt, þegar í fjöruna kom, var að bíta sundur skel og prófa beituna, fann ég strax, að hún var feit.“ Af þessu svari mátti ráða, að þarna voru í og með tann- heilir piltar og ekki klígjugjarnir. Meðan ég horfði á fiskimennina við sjóinn, fannst mér Reykjavík með öllu horfin. En þó virtist hún ennþá fjær, þegar komið var í gamla torfbæinn í Hlíðarhúsum. Jón Þórð- arson var meðal ríkustu bænda þar um slóðir, hafði margt hjúa, þar á meðal fjóra og fimm fullgilda vinnumenn. Hann var einn af þremur, er sameinuðu sig um kaup á fiskiskútu, fyrst einni og síðar tveimur öðrum. Hinir voru Geir Zoéga og Kristinn í Engey. En í skrautlausum torfbæ undi Jón sér þá hið bezta ásamt stórum hóp heimilismanna, bæði skyldra og vandalausra. Eftir þessa fyrstu komu mína í Reykjavík stóð gamli torf- bærinn í Hlíðarhúsum opinn fyrir mér, hvort sem mig bar þar að dyrum á nótt eða degi. Aldrei var ég þar gestur nema að nafninu til, heldur eins og einn af vandamönnum þessa ógleymanlega heimilis. Vetrarvökurnar báru þar sama svip og á beztu sveitaheimilum þeirra tíma. Og að lokinni vöku las húsbóndinn lesturinn og söng sálma fyrir og eftir, ásamt dætrum sínum.

x

Akranes

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Akranes
https://timarit.is/publication/865

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.