Litli Bergþór - 01.12.1993, Síða 22

Litli Bergþór - 01.12.1993, Síða 22
Umhverfis jörðina, 12. þáttur Ferðasaga í nokkrum þáttum, eftir Geirþrúði Sighvatsdóttur á Miðhúsum. SKÚTUKERLING Á KYRRAHAFI frh. í síðasta pistli sagði ég frá ferðum mínum um eyjar Frönsku Polynesíu. Ég má til með að bæta svolitlu við þann kafla, áður en stefni er snúið í vestur. Þegar við komum til baka til Raiatea, frá Bora Bora, var að hefjast heilmikil hátíð hjá eyjaskeggjum. "Fete", eða Bastilludagurinn, sem reyndar er þjóðhátíðardagur Frakka, 14. júlí. FHátíðarhöldin geta staðið í viku eða lengur ef stemmningin er góð og er mikill glaumur og gleði meðal innfæddra sem og skútufólksins. Skrúðgöngur, þjóðdansar, trumbusláttur og gítarmúsík. Allskonar keppni t.d. í að opna kókoshnetur, vefa strákörfur, bera ávexti, ganga á glóandi steinum, sem kyntir höfðu verið allan daginn, kappsigling o.s.frv. Og svo var auðvitað dansað, drukkið og djammað fram eftir öllum nóttum. Fete á Raiatea, kókoshnetukeppnin. Eftir viku skrall ákváðum við Minou hin franska að þiggja boð um að sigla á annarri seglskútu til Tahiti og til MOOREA, en Moorea er önnur aðal ferðamannaeyjan í eyjaklasanum. Ég þurfti að ná í póst og athuga um flugmiðann minn, og auk þess átti ég enn eftir að skoða Moorea. Skútan var frá Alaska, og hét Zubinelgenubi, (heiti á einni siglingastjörnunni), fallegur, tvímastra trefjaglersbátur, 17 m langur, með 6 manna áhöfn. Það stóð heima að við komum inn til Papete daginn sem ég átti bókað far til Los Angeles og það var skrítin tilfinning að horfa á eftir vélinni. - Nú var ég ein á báti, í orðsins fyllstu merkingu og engin fastmótuð ferðaáætlun framundan. En þetta var frelsið, tilfinning sem ég hafði vanist smámsaman og varð sterkari eftir að ég fór að ferðast ein. Ég var engum háð, gat breytt ferðaáætlunum frá degi til dags að eigin geðþótta, vissi aldrei nákvæmlega hvað morgundagurinn bar í skauti sér, nema að það var undir mér sjálfri komið hvað úr honum varð. Þessi algera frelsistilfinning er nokkuð sem marga dreymir um en færri þekkja og eftir að heim kom kostaði það mig þó nokkuð átak að njörva mig niður aftur! - Miðann minn til L.A. gaf ég nokkru síðar stelpu sem ég hitti, eftir að hafa árangurslaust reynt að koma honum í verð og veit ég ekki hvort hann var einhverntímann notaður. Við Minou fórum á puttanum í kringum báðar eyjarnar. Á Tahiti fengum við far með innfæddum strák og systur hans, sem buðu okkur síðan að gista heima hjá foreldrum sínum sem ráku skóla nálægt Papete. Gestrisnin á þeim bæ stóð ekki að baki gestrisni annarra Polynesa. Við vorum fóðraðar á besta Tahitimat og látnar sofa í hjónarúmi foreldranna. Annað kom ekki til greina þrátt fyrir öflug mótmæli okkar. Minou og Tahitsku systkinin, sem keyrðu okkur kringum Tahiti. Litli - Bergþór 22

x

Litli Bergþór

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.