Litli Bergþór - 01.12.2001, Blaðsíða 24

Litli Bergþór - 01.12.2001, Blaðsíða 24
Síðan var lagt upp og lá leiðin norður fyrir Sandfell og skyldi leita í grenjum í innhrauninu og Mosaskarði. Þar var enga tófu að sjá. Fórum við síðan fram Sandfell að austan og niður að Helludal. Til að halda áfram okkar starfi var næst að undirbúa leit á Framafrétt norður í Bláfell, í Fremstaver, upp í Bláfellsháls og Kórgil. Þetta svæði er mjög grýtt. Á undanförðum árum höfðu oft sést merki þess að tófa hefði verið á ferð, en illa gengið að finna greni í grjóturðunum. Eins fór nú. Við sáum mikið af tófuförum og öll merki þess að tófugreni væri á þessu svæði, en bústað lágfótu fundum við ekki í þessari ferð. Komum við heim eftir tveggja sólarhringa útivist og vorum hvíldinni fegnir. Einhver tími leið við smalamennskur og fleira. Svo kom að því að undirbúa leit í grenjum norður í Kjalhrauni. Þeirrar ferðar var maður búinn að bíða með nokkurri eftirvæntingu. Þar kynntist ég alveg nýju umhverfi, sem mér var áður hugstætt af umtali annarra um staðhætti. Þessi ferð miðaðist við útbúnað til íjögurra daga þó að ekkert greni fynndist. En alltaf þurfti að vera með útbúnað til að liggja við geni. Verið var með trússahest undir tjald og aðrar vistir til útilegu. Við lögðum af stað seinni hluta dags og komum í Fremstaver seint um kvöldið. Þar var tjaldað og lagst til svefns. Ekki var sofið lengi fram eftir heldur tekið sig upp og haldið gömlu ferðamannaleiðina austan undir Bláfellinu, allt norður að ferjustaðnum á Hvítá. Trúlega hefur Kristjáni ekki litist á að fara á vaðinu yfir ána. Oft var vöxtur í henni á þessum tíma árs, þegar mikil leysing var til fjalla. Umferð manna um Kjalveg var lítil á þessum tímum yfir vetrarmánuðina og var það ekki óalgengt að þeir sem voru í eftirleitum á haustin væru síðastir manna á ferð og grenjaleitarmenn fyrstir á vorin. Sitt hvoru megin við ána voru hlaðin grjótbyrgi sem bátarnir voru geymdir í á veturna og þeim hvolft þar. Það gat verið nokkurt stúss við að ná bátunum út úr þessum geymslum og koma þeim fyrir aftur. Á sumrin voru bátarnir bara settir það langt upp á land að áin flyti ekki undir þá þó að vöxtur kæmi í hana. Þegar við Kristján komum að ferjustaðnum stóðum við frammi fyrir nokkrum vanda. Bátarnir inni í byrgjunum sitt hvoru megin árinnar og við urðum að skilja þannig við að bátur væri hvor sínu megin. Ég held að það hafi ósjálfrátt komið upp í hugann: “Hvernig flutt var yfir á/ úlfur, lamb og heypokinn?...” Allt leystist þetta. Við byrjuðum á að róa norður yfir ána, fórum svo hvor á sínum báti suður yfir og settum annan bátinn þar upp á land. Tókum svo hnakka og reiðing af hestunum og bárum í hinn bátinn, rákum hestana út í ána og rérum sem skjótast á eftir þeim. Þetta tókst allt vel. Það tafði nokkuð fyrir hestunum að hlaupa á sprett að þeim þótti gott að velta sér þegar þeir komu upp úr ánni og “...hlýja skrokk í hvítum vikursandi...” eins og skáldið Páll Guðmundsson á Hjálmsstöðum komst að orði við svipaðar aðstæður. Litli - Bergþór 24 -------------------------- Við erum komnir norður yfir Hvítá, nánar til tekið þar sem heitir Tangaver og er það syðsti hluti landsins milli Hvítár og Jökulkvíslar. Nokkuð há melalda er norðan við ána. Á þessum tíma var þar uppistandandi all reisulegur leitarmannakofi. í kringum hann var nokkurt graslendi. Nú er þetta allt horfið, ekkert grasstrá, aðeins grjóthrúga úr veggjum kofans sem bendir á gamalt mannvirki. Hérna á miðri leið austur að Jökulkvísl eru gamlar rústir, huldar mold og sandi. Áraskipti eru að því hvenær sést móta fyrir þeim. Ógreinilegur götuslóði lá norður melana í námunda við vörður sem sunnar voru, að nokkru hrundar, en áttu að benda ferðamönnum á að þeir voru á Kjalvegi. Að þessu sinni passaði ekki fyrir okkur Kristján að halda þessa vörðuðu leið nema norður að Svartá. Við fórum norður með henni að austan, allt norður í Svartárbuga. Þar fórum við vestur yfir ána og þar má segja að hafi byrjað okkar leitarsvæði í Kjalhrauni. Við leituðum í Bugagreni, Skútagreni og fleiri hraunhólum norður í Gránunes. Þar tókum við okkur náttstað, sprettum af hestunum og tjölduðum. Vorum við hvíldinni fegnir enda komið langt fram á nótt. Hérna nutum við næðis í kyrrðinni eins og hún getur mest boðið upp á um bjarta vornótt á þessum stað. Fyrsta verk okkar að morgni var að líta eftir hestunum. Þeir voru á sínum stað. Ákveðið var að láta tjaldið standa á meðan við færum inn í Svartárbotnana og leituðum í grenjum sem eru þar upp í hraunkantinum. Þess má geta að þar er elsta greni sem vitað er um á Kjalarsvæðinu en hefur ekki verið legið við í tíð núlifandi manna. Að þessu sinni var enginn umgangur eftir tófu í þessum grenjum. Leitarsvæði okkar Kristjáns náði ekki lengra til norðurs. Seinna var leitað norður á Hveravelli. Var því næst hjá okkur að snúa við sömu leið og við komum. Fórum því niður í Gránunes aftur og fengum okkur hressingu. Tókum svo niður tjaldið og bjuggum okkur til ferðar sömu leið og við komum. Þetta var í fyrsta sinn sem ég naut þess að gista í Gránunesi í grenjaleitum. Gisti þar oft seinna í slíkum ferðum. Þá bar stundum eitt og annað fyrir augu, sem sýnir fjölbreytileika náttúrunnar. Eitt sinn sem oftar komum við þar seint að kvöldi um Jónsmessuleitið í skíru og góðu veðri. Stigum af baki í tjaldstaðnum og tókum ofan af trússahestinum. Á melöldu vestan við tjaldstaðinn er all stór klettur. Á honum var einhver þúst sem við áttum ekki von á og vildum athuga nánar. Gengum því í átt að klettinum og þegar við áttum ófarna á að giska fjóra til fimm metra að honum þá kemur hreyfing á dýrið. Það reisir sig nokkuð upp og sýnir á sér hauslögun með stórum glyrnum. breiðir út all mikla vængi og hefur sig til flugs. Flaug rólega á þessu mikla vængjahafi, ekki hátt og gaf ekki frá sér neitt hljóð. Hvarf svo út í næturhúmið. Við töldum að þetta hefði verið kattugla. Fugl í líkingu við þennan hef ég aldrei séð síðan. Mörgum árum seinna var ég ásamt fleirum staddur í Gránunesi í fyrstu leit. Vorum þá búnir að gista þar í tvær nætur og erum að taka niður tjöld og binda

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.