Litli Bergþór - 01.12.2001, Blaðsíða 25

Litli Bergþór - 01.12.2001, Blaðsíða 25
farangur upp á trússahesta eins og þá var vani. Þá allt í einu birtist grágæs mitt á milli manna og hesta og sýndist hvorugt hræðast. Hún virtist hugsa um það eitt að finna sér eitthvað ætilegt. Hvaðan þessi fugl kom og hvert hann fór vissi ég aldrei neitt. Hefur hann sennilega alist upp með fólki og ekki varað sig á að það eru margir byssuglaðir menn til. En aftur að grenjaleitinni. Að þessu sinni fundum við Kristján enga tófu fyrir norðan Hvítá. Héldum því sömu leið og við komum, niður með Svartá, yfir Hvítá á sama hátt og við fórum norður yfir og gekk það allt vel. Bátarnir voru tiltækir eins og við höfðum skilið við þá. Hestarnir tóku þessu öllu vel og settu ekkert fyrir sig að synda yfir ána. Sunnan undir Lambafellinu, sem er hér skammt frá, er gamall leitarmannakofi og skyldi gista þar næstu nótt. Heldur var þetta óvistlegur náttstaður. Hurð sem átti að vera fyrir dyrunum lá utan við kofann í nokkrum hlutum og sjáanlega hafði kofinn verið hálf fullur af snjó sem var þó að mestu horfinn. Þegar maður var að búa sig undir að sofna þá rifjaðist það upp að sumir sem höfðu gist í þessum kofa hefðu átt ónæðissamar nætur og lítið sofið. Við Kristján áttum þarna góða nótt miðað við aðstæður og rólegt var að sofa við straumnið kvíslarinnar sem rennur rétt við kofavegginn. Eins og venjulega þegar við vöknuðum í náttstað og vorum með hesta, var fyrsta verkið að aðgæta hvort þeir væru á sínum stað. Það var allt í besta lagi og höfðu þeir haft góðan haga um nóttina. Næst var að búa sig til ferðar á ný. A þessum tímum var það föst regla að smala saman fé í kringum Bláfell á vorin. Það var rekið saman í Fremstaveri. Smá réttarkró var þar rétt við gamla leitarmannakofann og nokkrar kindur reknar þar inn í einu til að marka og rýja. Þegar við Kristján fórum í þessa grenjaleit þá var nýlega afstaðin rúning í Fremstaveri og átti Kristján þar stóra ullarhrúgu sem við tókum með okkur. Vorum við með auka hest í þessu skyni og bundum ullina upp á hann. Héldum svo suður að Grjótá. Þar tókum við á okkur nokkurn aukakrók. Þegar við leituðum í grjóturðunum uppi í Bláfellshálsinum fyrr um vorið sáum við mikið af tófuförum sem benti til þess að greni væri þarna einhvers staðar á svæðinu. Fljótlega sáum við umgang eftir tófu og yrðlingur skaust á milli steina í mikilli grjóturð. Þama var sjáanlega bústaður lágfótu. Við fengum það verkefni að leggjast við greni eins og það var kallað. Það er að vakta grjóturðina sem við sáum yrðlinginn skjótast inn í. Lögðum við gildrur á milli kletta og svo var að fylgjast vel með ef fullorðnu dýrin létu sjá sig og kæmu í skotfæri. Við vöktum til skiptis og svona gekk þetta í eina fjóra sólarhringa. Þá vorum við búnir að ná yrðlingunum, en höfðum aðeins einu sinni séð annað gamla dýrið í mikili fjarlægð. Vorum við því farnir að verða vondaufir um meiri veiði og fórum að hugsa til heimferðar. Áður en ég skil við staðinn sem við voram búnir að halda okkur á síðustu sólarhringana vildi ég aðeins lýsa Svartárbotnar. Grenið gamla er í brúninni ofan við hvamminn. staðháttum. Grenið var í stórgrýtisurð undir háu klettabelti. Þarna voru klettar af ýmsum stærðum hangandi út úr berginu og virtust geta losnað og hrunið niður á verustað okkar. Eg held að maður hafi verið hálf smeykur að hafast þarna við. Síðan eru liðnir margir áratugir og aðstæður allar óbreyttar enn. Þarna er farið inn í Kórgil og þangað leggja margir leið sína til að skoða það náttúruundur sem Kórinn er. Á þessum tímum var hesturinn eina farartækið til ferðalaga. Stundum gat verið vandamál að hafa haga fyrir þá í námunda við grenin og svo var einnig í þetta sinn. Við fórum með þá inn í Kórinn. Þar var lítill hagi, aðeins grasblettir inni á ntilli kletta og ekkert vatn, en greiðfær leið á einum stað, þar sem við gátum fylgst með þeim frá geninu og snúið þeim við þegar þeir reyndu að komast burtu. Leið svo nokkur tími að þeir létu ekki sjá sig. Aðeins var um einn stað að ræða þar sem þeir gátu komist burtu, en það var grýtt og brött skriða og hana höfðu þeir farið. Hestarnir voru í höftum og bætti það ekki fyrir þeim. Mér er ekki kunnugt um að að hestur hafi nokkru sinni farið þessa leið að öðru sinni. Síðan þetta var eru liðnir margir áratugir og ég oft búinn að koma í Kórinn. Hefur mér þá gjarnan orðið hugsað til þess hvemig hestarnir komust þarna upp. Þarna sunnan í Bláfellshálsinum eru miklar grjóturðir eins og ég gat um áður og átti lágfóta oft bústað sinn þarna á ýmsum stöðum, en sú breyting varð á eftir að bílvegurinn var færður þangað sem hann er nú, að ekki hefur orðið vart við tófu í greni á þessu svæði. Aftur á móti er hún oft með greni austan undir Bláfellinu í Fremstaveri. Mig minnir að við höfum legið þarna í fjóra sólarhringa. Þá gáfumst við upp á að vera lengur og fórum að huga að því að komast til byggða. Ég varð margs vísari í þessari ferð um ömefni og ýmis kennileiti sem geymast mér í minni enn í dag. Þar naut ég samferðamanns míns Kristjáns á Gýgjarhóli sem var á þeim tíma einn af kunnugustu mönnunum á þessu svæði. Tómas Tómasson frá Helludal __________________________ Litli - Bergþór 25

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.