Bændablaðið - 10.03.2004, Blaðsíða 8

Bændablaðið - 10.03.2004, Blaðsíða 8
8 Miðvikudagur 10. mars 2004 Nýkjörnir búnaðarþingsfulltrúar koma nú saman til fyrsta Búnaðarþings þriggja ára kjörtíma. Þeir 49 fulltrúar sem hér eru saman komnir eru annars vegar kjörnir á grunni búnaðarsambanda og hins vegar af búgreinasamtökum. Fyrirkomulag kjörsins á að tryggja að sjónarmið jafnt landshluta sem búgreina eigi sér málsvara á þinginu. Við verðum þó að muna að Búnaðarþing er þing heildarsamtaka íslenskra bænda og á því sem slíkt að bera hagsmuni og þarfir bænda- stéttarinnar sem heildar fyrir brjósti. Breyting á veðurfari Undanfarin ár hefur veðurfar verið tiltölulega hlýtt miðað við meðaltal síðustu áratuga. Á nýafstöðnu Fræðaþingi land- búnaðarins kom fram að spáð er að sumarhiti hérlendis hækki enn um 1 - 2 C° á næstu 50 árum, auk þess sem styrkur koltvísýrings í andrúmsloftinu mun hækka. Öryggi þessarar spár er talið yfir 90 % sem hvetur til að þau tækifæri sem landbúnaðurinn fær við breytt veðurfar séu rædd og nýtt eftir föngum og er það á dagskrá þingsins. Þótt við nýtum okkur tækifæri samfara breyttu veðurfari verðum við að hafa í huga að vandamál kunna einnig að fylgja, m.a. með sneggri veðurbreytingum og harðari veðrum hérlendis. Þá er það mat þeirra sem gerst þekkja að hnattræn áhrif veðurfarsbreyt- inganna séu mjög neikvæð. Talið er að þessar breytingar séu af manna völdum og okkur sem öðrum þegnum þessa heims ber að haga gerð- um okkar þannig að sem minnstar breytingar verði á lofthjúpi jarðar. Ástæður lækkunar framleiðendaverðs Á nýliðnu ári var sala búvara meiri en verið hefur nokkru sinni hérlendis. Einkum jókst sala á kjöti og var magnaukning um 6 % á ársgrunni. Sú aukning var raunar öll í hvítu kjöti en sala þess jókst um nær 14 %. Fram- leiðendaverð alls kjöts lækkaði milli ára þannig að bændur fengu 350 milljónum kr. minna í heild fyrir kjötframleiðslu ársins 2003. Þannig hafa bændur landsins þurft að fjármagna af eigin fé og launahlut sínum allan kostnað og vinnu við þá 1200 tonna fram- leiðsluaukningu sem varð á árinu 2003. Þar við bætist svo að sláturleyfishafar og vinnslu- aðilar töpuðu einnig verulegum fjármunum vegna offramboðs og undirboða á markaði þannig að í heild var árið landbúnaðinum erfiðara en mörg undanfarin ár. Við hljótum því að spyrja okkur hvort unnt hefði verið að sjá atburðarásina fyrir og lágmarka skaðann og einnig hvað læra megi af þessari dýrkeyptu reynslu. Orsakavaldar virðast einkum tveir. Annars vegar að algjörlega óheft samkeppni á búvörumarkaði er vegna langs framleiðslu- ferils dæmd til að leiða af sér miklar verð- sveiflur og lágt meðalverð. Hins vegar liggur fyrir að aðgengi að lánsfjármagni til kjötfram- leiðslu hefur verið of auðvelt og lánastofnanir annaðhvort haft óraunhæfar eða engar hug- myndir um möguleika kjötmarkaðarins. Bændur hafa dregist aftur úr í launakapphlaupi Lífskjör hérlendis hafa batnað verulega á síðustu árum, mælt sem hlutfall breytinga launavísitölu og neysluvísitölu. Þótt kjör margra bænda hafi vissulega einnig batnað hafa þeir þó dregist aftur úr í launakapphlaupi þjóðfélagsþegnanna. Margt veldur því: Í harðnandi sam- keppnisumhverfi er staða smáfyrirtækja, sem búin okkar vissulega eru, oft erfið þegar kemur að markaðssetningu afurðanna. Þetta hafa bændur í nágrannalöndunum reynt að leysa með öflugum samvinnufélögum sem annast vinnslu og sölu afurðanna. Mjólkur- framleiðendur hérlendis hafa valið þetta fé- lagsform í rekstri afurðastöðva með góðum árangri en samvinnufélög hafa verið á undan- haldi í annarri afurðameðferð. Þá er það einnig ljóst að tækniframfarir og stækkun rekstrareininga hafa aukið bú- vöruframleiðslu í hinum vestræna heimi svo að offramboð er á mörgum búvörum. Á slíkum markaði er erfitt að ná viðunandi verði. Þjóðir Vestur-Evrópu hafa stutt landbúnað sinn umfram flesta aðra til að mæta háum framleiðslukostnaði. Þessi stuðningur hefur í vaxandi mæli orðið verslunarvara sem dregur úr gildi hans til lækkunar á framleiðslukostnaði og jöfnunar kjara. Ég hef átt þess kost á undanförnum árum að fylgjast með þróun landbúnaðar í nágrannalöndum okkar, ekki síst í Danmörku, Svíþjóð og Þýskalandi, sem eru meðal stærri búvöruframleiðenda innan Evrópusam- bandsins. Ekki verður annað séð en að þar hafi harðar kröfur um lækkandi búvöruverð kallað á hagræðingu og stækkun búa sem hefur leitt til aukinna fjárfestinga bænda og aukins vinnuálags án þess að tekjur hafi aukist. Þetta er ekki sú framtíð sem við viljum búa bændum landsins. Þjóðarsátt um íslenskan landbúnað Um íslenskan landbúnað hefur á undanförnum árum ríkt þjóðarsátt og kemur þar margt til. Verð margra búvara hefur lækkað og þjóðin ver æ minni hluta af ráðstöfunartekjum sínum til kaupa á matvörum. Íslenskar bú- vörur vega nú aðeins rúm 6% í vísitölu neysluverðs og hefur þetta hlutfall lækkað á síðustu árum þrátt fyrir stöðugt aukna vinnslu varanna. Hlutur bóndans af endanlegu verði búvaranna minnkar sífellt og er nú innan við 1% af grunni vísitölu neysluverðs mælt í krónum, en þó örugglega mikilvægasti hluti verðmyndunarinnar ef horft er til heilsu og fæðuöryggis. Gæði búvaranna eru óumdeild og hróður þeirra hefur borist víða, ekki síst fyrir tilstuðlan okkar ágætu matreiðslumanna. Jafnframt hefur áhugi á mat og matargerð aukist jafnt og þétt og er nýafstaðin sælkeravika byggð á íslenskri matargerð lýsandi dæmi þar um. Opin umræða hefur farið fram um landbúnaðinn, gildi hans og annmarka. Aðgengi almennings að landi hefur víða verið bætt og sátt ríkir um landnýtingu eftir gerð síðasta sauðfjársamnings sem fól í sér hvata til skipulegrar landnýtingar. Sátt um landbúnaðinn er forsenda þess góða samstarfs bænda og stjórnvalda sem verið hefur síðasta áratug og þess stuðnings sem landbúnaðurinn hefur notið. Verulegum fjármunum varið til nýsköpunar í landbúnaði Þannig hefur beinn stuðningur við land- búnaðinn haldist síðustu ár og tollvernd verið óbreytt. Stuðningur mældur í PSE er hér með því hæsta sem þekkist svo sem vænta má í landi á norðlægum slóðum með góð lífskjör og þar með háan framleiðslukostnað. Bændur og stjórnvöld hafa haft góða samvinnu um vinnuferli í alþjóðasamningum. Þá hefur stuðningur við rannsóknir og ráðgjöf haldist betur en hjá nágrannaþjóðunum og verulegum fjármunum er varið til nýsköpunar í land- búnaði á ári hverju. Í heimsóknum mínum til bændasamtaka grannþjóðanna hef ég séð að sátt bænda og stjórnvalda er ekki sjálfgefin en landbúnaðinum hins vegar mikilvæg. Einn skugga ber þó á. Bændur og stjórn- völd eiga í málaferlum vegna útfærslu þjóð- lendulaga. Það hefur reynst bændum kostnað- arsamara en ráð var fyrir gert og vonbrigðum hefur valdið að þjóðlendunefnd fjármálaráð- herra skuli ekki hafa dregið úr kröfugerð sinni í kjölfar héraðsdóms varðandi þjóðlendur í Árnessýslu. Fjölgun og stækkun friðlýstra svæða, án þess að möguleikar til áframhaldandi notkunar í þágu landbúnaðar séu ljósir, veldur bændum einnig áhyggjum. Raunar mun óhætt að fullyrða að eignarhald á landi og réttur til nýtingar þess sé undirstaða viðunandi afkomu í landbúnaði á komandi tímum. Enn sem fyrr er tekist á um hve langt skuli gana í lækkun stuðningsgreiðslna og tollverndar Reglur um viðskipti með búvörur voru markaðar með samningum landa innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar árið 1995. Ný lota hófst árið 2001 og þar er sem fyrr tekist á um hve langt skuli ganga í lækkun stuðningsgreiðslna og tollverndar. Annars vegar eru þau ríki sem byggja efnahag sinn að hluta á framleiðslu og útflutningi búvara og vilja lágmarka allan stuðning. Hins vegar eru lönd sem framleiða einkum fyrir innanlandsmarkað oft við verri veðurfarsaðstæður og hærri framleiðslukostnað en hin. Þessi lönd flytja jafnan inn hluta matvæla sinna en vilja þó standa vörð um eigin matvælaframleiðslu. Þau leggja mikla áherslu á fjölþætt hlutverk landbúnaðar og rétt hverrar þjóðar til að styrkja og vernda eigin landbúnað. Í hópi þessara ríkja er Ísland. Þess var vænst að á ráðherrafundi sem haldinn var í Cancun í Mexíkó á liðnu hausti næðist samkomulag um samningsramma. Af því varð ekki og á óvart kom að ekki strandaði á fyrirkomulagi búvöruviðskipta. Sú niðurstaða varðandi landbúnað, sem þar virtist í sjónmáli, hefði þó orðið íslenskri búvöruframleiðslu afar erfið. Vestræn iðnríki hefðu væntanlega þurft að minnka mikið markaðstruflandi stuðning og horfur voru á að heimildir fyrir öðrum stuðn- ingi yrðu þrengdar verulega. Jafnframt var gert ráð fyrir mjög minnkandi möguleikum á tollvernd sem væntanlega hefði leitt til verulega aukins inn- flutnings búvara til Íslands. Við höfum 5 til 7 ár til að búa landbúnaðinn undir að mæta aukinni erlendri samkeppni Lítið markvert hefur gerst í þessum efnum frá fundinum í Cancun og nú er því spáð að nýr samningur muni tæplega taka gildi fyrr en í ársbyrjun 2008. Gangi það eftir höfum við 5 - 7 ár til að búa landbúnaðinn undir að mæta aukinni erlendri samkeppni. Það hljótum við að gera með lækkun kostnaðar á sem flestum sviðum samfara vöruvöndun og eflingu sérstöðu innlendra afurða. Jafnframt þurfum við að laga stuðningsformið að nýjum aðstæðum. Á liðnu ári hefur umræða um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu færst af slagorðastigi yfir í rökræður um kosti og galla aðildar fyrir þjóðina. Mikilvægt innlegg í þá umræðu er skýrsla sem unnin var á vegum utanríkisráðuneytisins um áhrif aðildar á íslenskan landbúnað. Niðurstaða þeirrar vinnu var að innganga í Evrópusambandið myndi valda landbúnaðinum og úrvinnsluiðnaði hans verulegum erfiðleikum, meðal annars vegna mikils samdráttar í tekjum bænda. Þótt aðild sé ekki á dagskrá eins og er hljótum við að fylgjast með þróun landbúnaðar í Evrópusambandinu. Meiri breytingar urðu á landbúnaðarstefnu sambandsins á liðnu ári en áður hafa sést. Rót þeirra breytinga má rekja til nauðsynlegs sparnaðar vegna stækkunar sambandsins og viðræðna innan WTO um breytt viðskiptaumhverfi landbúnaðar. Grunneðli breytinganna er að auka áhrif markaðarins á ákvarðanir um tegund og magn framleiðslu og tengja þá styrki, sem greiddir eru, í auknum mæli við aðra þætti einkum landnýtingu, umhverfi og meðferð búfjár, óháð framleiðslu. Hreinar og hollar búvörur, framleiddar í sátt við umhverfið, verða æ meiri munaður. Tilvera íslensku þjóðarinar hefur frá alda öðli byggst á nýtingu landsins gæða, ekki síst gjöfulla fiskimiða, jarðargróða og á nýliðinni öld einnig orku fallvatna og jarðhita. Margt fleira rennir stoðum undir lífskjör þjóðarinnar, ekki síst hugvit og þekking og hæfni einstaklingsins og raunar fleiri þættir sem eru án landamæra. Nýting landsins gæða mun þó áfram verða undirstaða lífskjara þeirra sem kjósa sér búsetu hérlendis og brýnt að þær stoðir verði sem flestar og öflugastar. Vegna aukins skilnings á mikilvægi umhverfisverndar, aukins áhuga vestrænna þjóða á hollustu og heilsuvernd og vegna breytinga í veðurfari beinist athyglin sífellt meira að landbúnaðinum. Hreinar og hollar búvörur, framleiddar í sátt við umhverfið, verða æ meiri munaður. Aðgengi að ósnortnu landi, hreinu lofti og vatni og kyrrð og ró eru auðlindir sem æ fleiri meta. Nýting þessara möguleika byggist ekki síst á stöðugri framþróun og þekkingaröflun. Þar stendur landbúnaðurinn vel að vígi með öfluga rannsóknarstarfsemi og búnaðarfræðslu í stöðugri framþróun og sífelldri leit að nýjum tækifærum í landbúnaði. Mikilvægt er að þessar stoðir landbúnaðarins nái að eflast enn með auknu samstarfi og samnýtingu þekkingar. En við glímum einnig við ógnanir og er aukin auðhyggja og samþjöppun valds í þjóðfélaginu henni tengd ef til vill alvarlegust. Krafa um skjótan hámarksarð íþyngir landbúnaðinum, ekki síst varðandi fjármögnun í búrekstri og úrvinnslu afurða. Samhliða þessu eignast lánastofnanir sífellt fleiri rekstrareiningar í landbúnaði og er KB banki nú stærsti búvöruframleiðandi landsins. Heildarsamningur um starfsskilyrði landbúnaðarins Flestum mun ljóst mikilvægi þess að land- búnaðurinn búi áfram við þau starfsskilyrði að hann tryggi þjóðinni næg og holl matvæl og sé hornsteinn byggðanna og bóndinn vörslu- maður landsins. Slíkt gerist ekki nema í sátt við þjóðina og með stuðningi ríkisvaldsins sem birst hefur í formi samninga ríkis og bænda og hefur slíkum samningum fjölgað á undanförnum árum. Í ljósi breyttra aðstæðna hlýtur að koma til álita að bændur og ríkisvald geri heildar- samning um starfsskilyrði landbúnaðarins sem m.a. feli í sér faglegan stuðning við atvinnu- greinina, stuðning við nýsköpun og þróun, stuðning við einstakar búgreinar og landnýt- ingu og nauðsynlega tollvernd vegna norðl- ægrar legu landsins. Markmið slíks samnings væru fjölþætt og gagnkvæm. Mikilvægast er að búrekstur og úrvinnsla afurða tryggi bændafjölskyldunum viðunandi afkomu og þjóðinni holl og örugg matvæli á sanngjörnu verði. Búvaran verði áfram framleidd á sjálf- bæran hátt í sátt við umhverfið. Landsbyggðin styðjist í framtíð sem í fortíð við öfluga atvinnustarfsemi byggða á nýtingu landsins gæða. Með þessi markmið að leiðarljósi á íslenskur landbúnaður bjarta framtíð. Góðir þingfulltrúar og gestir. Svo sem fram hefur komið mun ég láta af störfum sem formaður Bændasamtaka Íslands á þessu þingi. Ég er þakklátur bændum landsins fyrir að hafa treyst mér fyrir þessu vandasama en jafnframt gefandi starfi í níu ár. Aðvitað hafa skipst á skin og skúrir í málefnum land- búnaðarins en flestu hefur þó miðað áleiðis sem ekki síst má þakka samstöðu bænda- stéttarinnar sem heildar, öflugu stoðkerfi landbúnaðarins og góðri samvinnu við stjórnvöld. Landsbyggðin hefur þó átt í stöðugri varnarbaráttu sem einskorðast ekki við landbúnaðinn. Það sýnir okkur að þjóðarhagur veltur á samspili margra atvinnugreina og samstarfsvilja þjóðfélagsþegnanna. Hinn 1. febrúar sl. var haldið upp á 100 ára afmæli heimastjórnar á Íslandi. Óumdeilt er að stofnun þeirrar heimastjórnar var gæfu- spor sem gaf þjóðinni möguleika á eigin frumkvæði og tækifæri til framfara á eigin forsendum, tækifæri sem nýtast okkur til bættra lífskjara samhliða eflingu mennta og menningar. Ég vil að lokum bera fram þá von og ósk að þjóðin sýni áfram frumkvæði og framtak byggt á atorku einstaklingsins eflda með samtakamætti fjöldans þjóðfélaginu og þegnum þess til heilla. Búnaðarþing 2004 er sett. Millifyrirsagnir eru blaðsins Ræða Ara Teitssonar við upphaf búnaðarþings Bændur hafa 5 til 7 ár til að búa landbúnaðinn undir að mæta aukinni erlendri samkeppni

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.