Bændablaðið - 06.07.2004, Blaðsíða 8
8 Þriðjudagur 6. júlí 2004
Það blæs á stundum
hraustlega á Snæfellsnesi.
Agnari Gestssyni á Lýsuhóli er
enn í fersku minni upphaf
ársins 2001 þegar hlaðan á
Lýsuhóli fauk í heilu lagi og
þakið á hesthúsinu sömuleiðis.
Nýleg reiðskemma hélt. Agnar
var inni í hesthúsinu þegar
lætin voru sem mest en forðaði
sér inn í reiðskemmuna rétt
áður en byggingarnar fuku. Þá
var hann búinn að gera allt
sem í hans valdi stóð og mátti
játa sig sigraðan. Bönd sem
hann setti í sperrurnar á
hesthúsinu hrukku í sundur
eins og tvinni. "Norðanáttin
kemur stundum með
margföldu afli yfir
fjallgarðinn. Í þetta skipti fauk
ekki bara þakið heldur líka
bílar í sveitinni," sagði Agnar.
Mælirinn á Hraunsmúlaholti -
sem er skammt frá Lýsuhóli -
fór í 64 metra í mestu
hviðunum en þá gafst
mælirinn upp. Agnar fullyrðir
að eftir það hafi hvesst
verulega til viðbótar. "Ég held
að flestir séu sæmilega
tryggðir í þessari sveit enda
þekkja menn norðanáttina."
Bændablaðið hafði fregnað
að Agnar hefði verið tryggður í
bak og fyrir hjá Sjóvá-
Almennum og hefði fengið
tjónið bætt að fullu án
vandkvæða. Húsin voru
vissulega gömul og matið
samkvæmt því og Agnar er enn
að endurbyggja. "Hesthúsið er
komið og bara eftir að klæða
það. Hlaða bíður betri tíma. Ég
er var með bændatryggingu og
hún dugði. Hingað komu menn
frá tryggingafélaginu við gerðum
samkomulag um bætur. Þetta
dugði vel fyrir efniskostnaði
vegna hesthússins - og svo vann
maður þetta allt sjálfur," sagði
Agnar.
Á Lýsuhóli er skóli,
sundlaug og félagsheimili.
Vatnið í Lýsuhólslaug er
ölkelduvatn sem þykir heilnæmt
til baða. Sjaldgæfar steintegundir
og hveraútfellingar má finna á
Lýsuhóli. Agnar og kona hans,
Jóhanna Ásgeirsdóttir, reka
hestaleigu og leigja út sumarhús.
Þá sér Agnar um skólaakstur í
sveitinni.Agnar við nýja þakið á hesthúsinu.
Það borgar sig að tryggja
- er mat ábúandans á Lýsuhóli sem horfði á eftir hlöðu og þaki fjúka út í veður og vind
Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar hefur
samþykkt ósk frá Mýramannafélaginu um
að taka Litlutungurétt í ,,fóstur".
Jón Aðalsteinn Hermannsson á Akureyri er
talsmaður Mýramannafélagsins og hann segir
að það hafi verið stofnað fyrir um þremur árum.
Félagarnir eru afkomendur Jóns Karlssonar og
Aðalbjargar Jónsdóttur sem bjuggu á Mýri í
Bárðardal frá 1903 til 1937.
Litlutungurétt er gegnt Mýri, austan
Mjóadalsár í landi Litlutungu, hætt var að nota
hana sem skilarétt við fjárskiptin 1947. Skilarétt
svæðisins var þá færð heim að Mýri vegna þess
að féð var svo fátt fyrstu árin á eftir.
Jón Aðalsteinn segir að talið sé að Litla-
tungurétt sé að stofni til frá landnámi. Réttina
segir hann vera ótrúlegt mannvirki. Hún er
hlaðin úr mjög góðu hleðslugrjóti upp á stuðla-
bergshæð. Almenningurinn er 40x12 metrar og
sjö stórir dilkar við hana. Hann segir að enda
þótt ekkert hafi verið gert við hana síðan hætt
var að nota réttina séu sumir veggir hennar
fjárheldir.
,,Réttin er svo vel gerð, svo vel hlaðin og
veggirnir hafa ekkert hreyfst vegna þess að þeir
standa á bergi og því ekkert sig í þeim. Sprengi-
sandsleið liggur í um 200 m fjarlægð frá réttinni
sem sést ekki frá veginum þannig að ókunnugir
vita ekki af henni. Hún var aðalréttin fyrir
vesturafrétti sem um segir í Jarðabók að sé
,,furðu víðátta"," segir Jón Aðalsteinn.
Litlutungurétt er fornminjar og því má
ekkert við henni hrófla eða nokkru hagga. Það
sem félagarnir í Mýramannafélaginu ætla að
gera er að afmarka bílastæði t.d.við Sprengi-
sandsskiltið og merkja aðkomu að réttinni svo
vegfarendur geti stöðvað þarna og skoðað
réttina.
Einnig þarf að hreinsa gras úr réttinni. Það
hefur komist í hana snarrót eftir að hætt var að
nota hana og hún verður veggjafull af grasi
þegar líður á sumarið og þá sést ekki eins vel
hversu glæsilegt mannvirki réttin er.
Jón Aðalsteinn segir að allt sem þarna
verður gert verði gert í samráði við fornminja-
vörð Norðurlands sem hefur farið og skoðað
réttina. Hann mun hafa hönd í bagga með því
þegar grasrót verður hreinsuð út því ekki er
útilokað að eitthvað merkilegt finnist þegar
hreyft er við jarðvegi.
,,Við ætlum síðan að taka réttina í ,,fóstur"
með þeim hætti að hafa þarna samkomustað fé-
lagsins, t.d. á "Mýramannadegi".
Við höfum leitað til stuðningsaðila því allt
kostar þetta sitt og erum vongóð um að ein-
hverjir styrki okkur í þessu," segir Jón Aðal-
steinn Hermannsson.
Mýramannafélagið tók
Litlutungurétt í ,,fóstur’’
Meira hefur orðið vart við ref á
ákveðnum svæðum á Suður-
landi en oft áður. Sumstaðar er
fjöldinn svo mikill að fuglastofn-
ar þola vart ástandið lengur. Á
Suðurlandi hefur til dæmis
helsingi reynt varp nokkur
undanfarin ár. Slíkt landnám
gerist ekki nema á árhundraða
fresti en það er borin von að
slíkt geti gerst með jafn öflugan
refastofn yfir sér og raun ber
vitni. Þetta kemur fram í sam-
þykktum frá síðasta aðalfundi
Búnaðarsambands Suðurlands.
En hvers vegna hefur ref
fjölgað? "Til þess liggja nokkrar
ástæður en þar vegur þyngst
ákvörðun fjárveitingavaldsins
að hætta 85% kostnaðar-
þátttöku við refaveiðar árið
1997. Nytjar sjávarspendýra eru
að mestu aflagðar og deyja því
mun fleiri dýr en áður
náttúrulegum dauðdaga, rekur
síðan á land og er þar með
gríðarlegt framboð á æti á
veturna. Blöndun á aliref við
íslenska stofninn hefur aukið
frjósemi refastofnsins til muna
og hjá þeim dýrum er
yrðlingafjöldinn 30-50% meiri,"
segir í greinargerð með
samþykkt þar sem lækkun á
framlagi ríkissjóðs til refaveiða
er harðlega mótmælt.”
Refur ógnar sunnlenskum fuglum
Ungur
bóndasonur
keypti tímaritið
Gróandann
Ungur bóndasonur, Þórður
Freyr Sigurðsson frá Hátúni í
Vestur-Landeyjum, hefur fest
kaup á hinu kunna tímariti Gró-
andanum sem hefur verið gefið
út í tæp 20 ár. Þórður Freyr
hefur nú þegar gefið út fyrsta
tölublaðið eftir að hann tók við
útgáfunni og er það blað 50
blaðsíður að stærð. Hann sagði
í samtali við Bændablaðið að
hann hygðist gefa út 3 tölublöð
yfir sumartímann. Það væri enn
óákveðið hvort hann gæfi
eitthvað út yfir veturinn.
Þórður Freyr hefur komið sér
upp ritstjórnarskrifstofu á Hvols-
velli og segir hann að yfir
sumarið séu tvö og hálft starfsgildi
við blaðið. Nafnið á blaðinu segir
til um efni þess. Fjallað verður um
allt er viðkemur garðyrkju, lífræna
ræktun og skógrækt. Garðaskoðun
og skemmtilegar lausnir á hönnun
garða, matjurtarækt og uppskriftir
og fleira. Ástæðuna fyrir því að
hann fór út í kaupa blaðið sagði
Þórður Freyr vera þá að sig hefði
langað til að gera eitthvað nýtt og
skemmtilegt og þarna hefði hann
séð tækifæri.