Bændablaðið - 06.07.2004, Blaðsíða 12

Bændablaðið - 06.07.2004, Blaðsíða 12
12 Þriðjudagur 6. júlí 2004 Hvað er riðuveiki? Riðuveiki er arfbundinn smitsjúkdómur í sauðfé og geitum, langvinnur og ólæknandi, sem veldur svampkenndum hrörnunarskemmdum í heila og mænu. Flestar kindur sem veikjast eru 1½ - 5 ára. Þó eru dæmi um riðu hér á landi í 7 mánaða gömlu lambi og 14 vetra á. Smitefnið er hvorki baktería né veira heldur aflagað eða sjúklegt prótín, - PRÍON eða PrP -. Heilbrigt príon myndast í flestum vefjum dýra og er bundið við yfirborð frumna í líkamanum. Hið sjúklega prótín, riðusmitefnið, sem borist hefur inn í kind , oftast um munn (sjá hér síðar), aflagar heilbrigt prótín, sem það mætir í líkamanum, eftir sinni sjúklegu gerð. Þannig fjölgar smitefninu með vaxandi hraða, fyrst í eitlavef svo í heila og mænu og skemmdirnar þar framkalla einkennin. Veikin leiðir kindina til dauða á fáum vikum, stundum á skemmri tíma. Riðubreytingar sjást stundum í kindum sem finnast dauðar. Oftast er þó kindin veik í mánuði áður en hún deyr, sjaldan þó lengur en eitt ár. Kindur geta gengið með riðu langa ævi án þess að hún komi fram. Arfgengur breytileiki ræður lengd meðgöngu veikinnar og hvort eða hve greiðlega kindur veikjast. Veikin virðist geta legið niðri á sama bæ í 1-3 kynslóðir kinda, kannski lengur, hvort sem nýr fjárstofn er kominn eða ekki, geymst í umhverfinu og/eða í mótstöðumiklum kindum. Byrjunareinkenni geta horfið eða dofnað um skeið við minna álag, t.d. ef kindur eru teknar úr hjörð. Sjúkdómar af sama toga og riða finnast í öðrum dýrum og fólki. Dæmi um það er hinn sjaldgæfi Creutzfeldt-Jakob sjúkdómur í fólki (CJD), sem finnst um allan heim, einnig hérlendis, og kúariða, sem hefur sýkt meira en 180.000 nautgripi á Bretlandseyjum. Hún mun geta borist í fólk með neyslu sýktra afurða og valdið nýju afbrigði afCreutzfeldt-Jakob í ungu fólki (nvCJD). Kúariða hefur aldrei fundist hér á landi. Í nokkrum hreindýrum sem voru í nábýli við riðufé á Austurlandi fyrir nokkru sáust riðueinkenni. Þau voru mjög glögg í einu þeirra. Sjúkdómur í sama flokki (CWD) finnst í hjartardýrum í N-Ameríku. Það ætti því varla að koma á óvart þótt hreindýr tækju riðuveiki. Riðuveiki hefur aldrei fundist í geitum hér á landi en þekkist erlendis. Sauðfjárriða sýkir ekki fólk. Smitefnið er lífseigt, þolir langa suðu og flestar sótthreinsi- og dauðhreinsiaðferðir. Helst er það klór sem vinnur á smitefninu. Engin varnarlyf eru til við riðu og ekki ennþá nothæfar aðferðir til að leita að smitberum. Sjúkdómurinn getur legið lengi í landi. Ekki er víst hvernig það gerist. Hann getur komið upp aftur á sama stað eftir langan tíma þrátt fyrir sótthreinsun og fjárskipti. Riðan er því einn erfiðasti sjúkdómur sem við er að fást. Einkenni Þegar fjárhópur er skoðaður með tilliti til riðu skal minnast þess að: *Einkenni sjást varla á yngri kindum en veturgömlum en koma oft fyrst fram í fullorðnu fé þar sem veikin er að byrja. *Fyrstu einkenni eru breytileg frá degi til dags, meira áberandi suma daga en aðra. Langt getur verið í að einkenni verði stöðug. Því getur þurft að skoða kind á þessu stigi oftar en einu sinni til að vera viss. Einnig skortir á að öll einkenni riðuveiki komi fram í einni og sömu kindinni. Fyrstu einkennin eru mjög breytileg milli staða, einnig milli kinda í sömu hjörð. Allt þetta villir fyrir og tefur rétta greiningu veikinnar. Oftast sjást atferlisbreytingar fyrst. Stygg og hnarreist kind verður sljó og hengir jafnvel haus, spök kind verður stygg eða óttaslegin og óróleg og skimar eftir þeim sem fara um húsin. Þetta sjá þeir fyrst sem eru fjárglöggir og þekkja kindur sínar sem einstaklinga. Snemma sést óeirð og óþol. Best er að virða kindurnar fyrir sér þaðan sem lítið ber á manni um leið og þær ganga að heyinu. Kindur sem veikin er að byrja í þola illa að þrengt sé að þeim, kippa sér frá, standa um stund úti á gólfi en taka svo aftur til við átið. Riða kemur oft fyrst fram við álag svo sem við flutning og rekstur. Rúningsmenn geta verið lykilmenn við að finna fyrstu tilfelli af riðu. Fái þeir slíkan grun er þeim skylt að tilkynna dýralækni það strax og skilja hlífðarföt og tæki eftir á bænum, þrífa og sótthreinsa í samráði við héraðsdýralækni. Algengur er fiðringur í húð og húðkippir og/eða þrálátur kláði um allan skrokk, einkum þó á höfði eða tortu, fælni, deyfð, stjórnleysi vöðva, slettingur í gangi, hægfara vanþrif, titringur, tannagnístur. Eitt þessara einkenna getur verið áberandi frá upphafi en einkennum fjölgar þegar sjúkdómurinn ágerist. Þá er t.d. talað um kláðariðu, hræðsluriðu eða lömunarriðu eftir því einkenni sem er mest áberandi. Fyrir kemur að riðukindur sjái illa, þær gangi á og beri framfætur hátt. Augun eru oft útstæð og rennsli aukið frá augum, nösum og munni (slefa). Kindur með fyrstu einkenni riðu sperra dindilinn upp í loft þegar tekið er á þeim. Kindurnar geta dottið niður ef gerð eru snögg hljóð og snarast um koll ef tekið er í horn. Þegar haldið er í horn og kindin látin streitast á móti finnst oft titringur á höfði, stundum sést skjálfti. Þegar fengist er við riðukind bregst hún óeðlilega við, berst um og fær stundum hálfgert æði eða krampaflog. Riðukindur hafa oftast góða lyst, jafnvel er til að þær eti og drekki með meiri áfergju en áður var. Samt leggja þær af. Veikin hefur áhrif á meltingarveginn. Það getur hjálpað við greiningu að spörð úr riðukindum eru, þó ekki alltaf, sérstök að útliti: dökk, smá, jöfn að stærð og perulaga með holu í annan enda en totu úr hinum. Oftast svara riðukindur nuddi eða klóri í malir og bak eða haus með velþóknun, líka þær sem ekki sýna kláðamerki að fyrrabragði. Þær halla sér á móti þeim sem klórar og kjamsa eða sleikja út um. Þegar kláði fylgir riðu sjást blæðandi sár eða hrúður á húð, hárlausir blettir á síðu, andliti eða tortu, núin horn þ.e. merki eftir nudd, krafs með horni eða fæti eða nag innan á fótum upp að hné að framan og upp að hækli að aftan. Þegar kláði er ekki eitt af einkennum riðunnar, sem kemur fyrir, er lítið að sjá við krufningu. Aukinn vökvi er þó oftast í heilabúi og höfuðkúpan ekki hörð eins og í heilbrigðum kindum. Við smásjárskoðun finnast svampkenndar hrörnunarskemmdir í heila og mænu. Margar taugafrumur eru með vökvabólum, einkum í heilastofni. Vefjabreytingar finnast varla í öðrum líffærum þótt smitefnið safnist víðar fyrir. Bólgubreytingar, merki um varnarviðbrögð og mótefnamyndun er ekki í heilanum en mikil aukning er á stjörnufrumum (astrocyt). Líkaminn greinir ekki smitefnið sem framandi. Smitleiðir riðuveiki Smitefnið tekur ekki þátt í efnaskiptum líkamans en hleðst upp í eitlavef. Seinna safnast það fyrir í heila og mænu. Riðueinkenni koma í ljós þegar skemmdir vaxa. Riða í sauðfé smitast fyrst og fremst með því að skepnurnar éta, drekka eða sleikja smitefni með óhreinindum. Algengasta smitleiðin er um munn frá kind til kindar. Smithættan er mest við húsvist á sauðburði af hildum, sem kindur eta hver úr annarri, og fósturvatni, munnvatni eða slefu sem lendir í drykkjarílátum og fóðri í sameiginlegri jötu, af vessa frá augum og af öllu saurmenguðu. Lömb smitast af mæðrum sínum sem eru smitberar eða veikar. Smitun getur orðið um sár á húð t.d. við rúning. Riðuveiki hefur komið fram í kind eftir burðarhjálp manns með óþvegnar hendur, komnum frá því að hjálpa riðukind að bera. Smitið kann þá að hafa verið borið í skepnu um fæðingarveg. Smit er einnig talið geta borist á milli kinda með rúningsklippum, sprautunálum og fleiru. Unnt er að sýkja kindur í tilraunum á marga fleiri vegu. Blóðsýni úr riðukind var dælt í æðar heilbrigðra kinda á Keldum og fengu nokkrar þeirra riðu. Smitleiðir riðuveiki frá einum stað til annars og milli landshluta eru margar en fæstar sannaðar vísindalega þótt reynslan gefi eindregnar vísbendingar. Greiningar- aðferðirnar eru ekki nógu fullkomnar ennþá. Smitefnið finnst við slímhúð meltingarvegs sem skiptir í sífellu um efstu frumulögin og framleiðir slím er klínist í saurinn. Það finnst í kokeitlum sem hafa opið samband við munnholið og í augum. Auk þess er smit í fósturhimnum og í milti og fleiri líffærum. Líklegt er því að smithætta geti fylgt öllu sem mengast saur og öðrum lífrænum efnum frá sauðfé, þar með taldar óhreinar hendur manna og óhrein hlífðarföt, einkum skófatnaður. Hér verður lesandinn sjálfur að hugsa. Margt er það sem gæti smitmengast af saur eða sauðataði, fósturvatni og hildum, líffærum sjálfdauðra kinda eða sláturúrgangi svo sem flutningabílar, vagnar, áhöld og efni hvers konar og landbúnaðartæki. Hestar veikjast ekki af riðu en gætu borið með sér smitefni af sýktum svæðum t.d. undir hófum. Hestamenn taka með sér hey á ferðum og skilja eftir á svæðum sem fé hefur aðgang að og skilja jafnvel eftir opin hlið á varnarlínum án þess að hugsa um smitefni sem þeir gætu verið að dreifa. Hestaflutningskerrur eru notaðar á víxl til að flytja hesta, sauðfé og hey og sjaldan sótthreinsaðar. Hestamenn! - Hjálpið okkur að berjast gegn riðuveiki, leitið upplýsinga í sambandi við ferðir um landið og flutninga meðan riðuveiki er í landinu. Smithætta er mun minni úti, helst þó í þröngum beitarhólfum, en sjaldgæft virðist að smit hafi borist milli kinda á afrétti. Ekki er víst hvernig og hvar smitefnið lifir á fjárleysistíma, hvað veldur því að riðuveiki kemur upp aftur og aftur, jafnvel eftir mörg ár. Margsinnis hefur riðuveiki komið upp eftir kaup á heyi af sýktu svæði. Sú tilgáta var sett fram á Íslandi að staðbundnir heymaurar geymdu í sér smitefni og gætu sýkt nýjan fjárstofn eftir langan tíma. Í þurru heyi geta verið hundruð þúsunda, jafnvel 1-3 milljónir maura í hverju kílói, en mun minna í rúlluheyi. Kenningin fékk byr í seglin þegar vísindamenn í New York staðfestu riðu í tilraunamúsum sem sprautaðar höfðu verið allt að tveimur árum fyrr með lausn af heymaurum frá riðubæjum á Íslandi. Þessir bæir höfðu verið fjárlausir mánuðum saman. Endurteknar tilraunir styrktu þetta. Endanleg sönnun er ófengin. Aðgerðir Þegar riðuveiki finnst á nýjum bæ er samið við eiganda, öllu fénu fargað strax og þinglýst fjárleysi á jörðinni. Féð er grafið djúpt á stað samþykktum af Umhverfisstofnun. Farga skal hverri kind sem látin var til annarra bæja frá sýkta bænum, líka öllum kindum frá öðrum bæjum sem hýstar hafa verið á riðubænum yfir nótt eða lengur. Þar sem riða hefur náð að búa um sig og smitleið er ókunn getur þurft að farga á snertibæjum, jafnvel öllu fé á heilum svæðum. Héraðsdýralæknir metur hvað hægt er að hreinsa, hvað verður að fjarlægja og áætlar jarðvegsskipti við hús. Sömu kröfur um hreinsun og endurnýjun innréttinga eru gerðar á öllum niðurskurðarbæjum sýktum sem grunuðum. Að jafnaði þarf að fleygja einhverju og skipta um jarðveg en allt er breytilegt milli bæja. Vegna bóta metur fagmaður efni og jarðveg sem fjarlægja þarf . Hús, tæki og tól eru háþrýstiþvegin og sótthreinsað með klór og joði eða sviðið með loga. Hreinsun skal taka út áður en yfirborði er lokað, timbri með fúavarnarefni, steini og járni með sterkri málningu. Notað er mauraeitur tvisvar sinnum vegna heymauranna. Jarðvegsskipti fara fram, síðan er sand- eða malborið(malbikað). Ef arfi vex umhverfis húsin hefur ekki verið nógu vel hreinsað. Ef snemma er lokið hreinsun flýtir það bótagreiðslum. Smitefni getur lifað lengi í mold, síður í sandi. Eytt er heyjum frá riðutíma áður en nýr fjárstofn kemur. Bóndi kallar eftir staðfestingu héraðsdýralæknis um að hreinsun sé lokið og sendir hana. Fjárlaust er haft í 2 ár eða lengur og lömb fengin í staðinn af ósýktum svæðum að þeim tíma loknum. Um geitur gegnir sama máli og sauðfé. Nánari lýsing framkvæmda er afhent (rauða blaðið). Á heimasíðu yfirdýralæknis eru upplýsingar og reglur um framkvæmd fjárskipta (www.yfirdyralaeknir.is). Bannað var í upphafi skipulegra aðgerða gegn riðuveiki árið 1978 og æ síðan að nota sláturúrgang og sjálfdauð dýr frá riðusvæðum til fóðurgerðar handa búfé. Ástæðan var sú að grunsemdir höfðu vaknað þegar minkariða kom upp í Bandaríkjunum að kjöt- og beinamjöl hefði borið sjúkdóminn úr sauðfé eða nautgripum í minka. Þessi stefna, sem síðar hefur þótt sjálfsögð um allan heim, var harðari en nokkur önnur lönd höfðu tekið upp þá og 10 árum fyrr á ferð en í Englandi þar sem kúariðan kom fram 1985-6. Með þessari hörku, sem þótti í fyrstu öfgakennd en sátt er um nú, höfum við kannski afstýrt því að kúariða kæmi upp og yrði landlæg hér. 25. júní 2004, Sig.Sigurðarson dýralæknir, Keldum. Hvernig má bæta árangurinn? Augljóst virðist af þeim árangri sem hefur náðst að unnt sé að uppræta riðuveiki, ef enginn bilar og allir fara eftir settum reglum. Þegar aðgerðir hófust var virk riðuveiki í 25 varnarhólfum af 38. Í 12 hólfum hefur riða ekki fundist í 14 ár og er vonandi úr sögunni þar. Veikin finnst á 1-5 bæjum árlega. Hún var þekkt á 104 bæjum við upphaf aðgerða. Mínar tillögur eru þessar: Sauðfjáreign verði gerð leyfisskyld. Allir sem nú hafa sauðfé fái sjálfkrafa leyfi. Þeir sem ekki hlíta reglum og sjá ekki að sér þrátt fyrir ábendingar tapi leyfi til sauðfjárfjárhalds (en eigi þó rétt á áfrýjun sem ekki má þó leiða til dráttar á úrbótum). Fjáreigendur séu viðbúnir því að greina frá með fyrirvara hve mörgu eigi að slátra og í hvaða sláturhúsi og hve mörgu heima svo að svigrúm gefist til sýnatöku. Einstaklingsmerkja skal og skrá allt fé. Skylt verði eigendum(umráðamönnum)að tilkynna um: - allt fé sem er lógað eldra en 1½ árs bæði heimaslátruðu og í sláturhúsi, - allt fé sem veikist með einkenni frá miðtaugakerfi(riðugrun) á hvaða aldri sem er, - allt fé sem drepst og vitað er um, - allt fé sem vantar af fjalli(sumarhögum), úr heimalöndum, - allt fé frá öðrum sem hýst er yfir nótt eða lengur frá öðrum stöðum og - öll viðskipti með fé, verslun, gjafir, lán, fóðrun. Veikin er lengi að búa um sig áður en hún uppgötvast á nýjum stað. Ljóst virðist að riða kraumar undir hér og hvar ennþá og er jafnvel á stöku stað án þess að menn átti sig á því. Miklu varðar að finna hana sem fyrst. Virðing fyrir reglum hefur minnkað. Margt er brallað sem ekki ætti að gera. Eftirlit með fólki er viðkvæmt mál og erfitt í framkvæmd fyrir embættismenn. Hér er um að ræða mál sem alla ætti að varða. Þess vegna þurfa sveitarstjórnir að virkja eftirlit heimamanna, t.d. landbúnaðarnefndir, sem aðstoði embættismenn og gefi ráð vegna staðbundinna aðstæðna. Ný fljótvirk aðferð við greiningu veikinnar er fram komin og þarf að taka upp. Hún uppgötvar riðu fyrr en eldri aðferðir. 25. júní 2004, Sig.Sigurðarson dýralæknir, Keldum. Riðuveiki í sauðfé og geitum Riðuveik kind með sperrtan dindil reytt og særð á síðu.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.