Bændablaðið - 06.07.2004, Blaðsíða 30

Bændablaðið - 06.07.2004, Blaðsíða 30
30 Þriðjudagur 6. júlí 2004 Auðvitað er sagan af landmerkjaþrætu Loðmundar og Þrasa skáldskapur og verður að dæmast sem slík. Ekki er þó ástæða til að varpa heimildagildi hennar algerlega fyrir róða en sagan er ágæt heimild um hvað höfundur hennar taldi réttu leiðina til að setja niður landa- merkjaþrætur, þ.e. samninga- leiðina. Landamerki dregin með þeim hætti virðast að mati höfundar Landnámu vera líklegust til að standast tímans tönn. Tilefni þessara skrifa eru þó ekki ævafornar landamerkjaþrætur tveggja galdramanna heldur landamerkjaþrætur nær okkur í tíma sem sprottið hafa vegna setningar og framkvæmd hinna svonefndu þjóðlendulaga nr. 58/1998. Þegar þetta er ritað hafa fallið tveir dómar vegna úrskurða óbyggðanefndar um eignarhald á landi utan byggðarmarka. Umræddir dómar eru frá héraðsdómi Suðurlands í málum nr. E-949 og E-986 frá árinu 2002. Dómunum hefur báðum verið áfrýjað til Hæstaréttar og er dóms að vænta í haust. Því er allt eins líklegt að umfjöllun höfundar í þessari grein verði úrelt orðin strax á haustdögum. Engu að síður telur höfundur fullt tilefni til þess að fjalla um áðurgreinda dóma þar sem að í niðurstöðum þeirra er horfið frá dómvenju Hæstaréttar í sambærilegum málum, dómvenju sem gerði sönnunarstöðu þeirra sem héldu fram beinum eignarrétti yfir landi utan byggðarmarka erfiða og jafnvel ómögulega. 2.0 Um þjóðlendulögin Með þjóðlendulögunum var flokkun fasteigna á Íslandi breytt á þann veg að allar þær fasteignir utan þéttbýlis, sem ekki teldust háðar beinum eignarrétti einstaklings eða lögaðila, skyldu eftir nánar tiltekna málsmeðferð, sem mælt er fyrir um í lögunum, teljast þjóðlendur. Málsmeðferðin er á höndum hinnar svonefndu óbyggðanefndar en eitt helsta hlutverk nefndarinnar er samkvæmt lögunum að: 1. Kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda. 2. Skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur. 3. Úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna. Þau landsvæði sem teljast þjóðlendur eftir úrskurð óbyggðanefndar og eftir atvikum dómstóla verða eftirleiðis eign íslenska ríkisins. Með þjóðlendulögunum voru ekki lögfestar sérstakar sönnunarreglur þannig að almennar sönnunarreglur gilda í málum fyrir óbyggðanefnd og fyrir dómstólunum í málum sem rísa vegna úrskurða nefndarinnar. 3.0. Sönnunarkröfur til þeirra sem halda fram beinum eignarrétti yfir landi Meginreglan að íslenskum rétti er sú að sá sem heldur fram beinum eignarrétti sínum verður að sanna þann rétt sinn ef bornar eru brigður á hann. Hann verður að færa fram s.k. eignarheimildir fyrir þeim rétti sem hann heldur fram. Eignarheimildir eru eftirfarandi: 1. Nám, 2. Hefð, 3. Venjuréttur, 4. Afsalsgerningar, 5. Erfðir, 6. Almenn rétttaka 7. Bein fyrirmæli í settum lögum og 8. Lagarök og lagaviðhorf. Nám er frumstofnun eignarréttar yfir landi og framsalsgerningar eins og afsals- eða erfðagerningar afleidd stofnun eignarréttar. Af þeirri reglu íslensks réttar um að enginn geti framselt ríkari rétt en hann sjálfur átti leiðir að afleiddur stofnunarháttur eignarréttinda verður að eiga rót sína að rekja til landnámsins eða frumstofnunar eignarréttar hér á landi ella telst ekki vera um framsal á beinum eignarrétti að ræða. 3.1 Landnáma sem sönnunargagn Hæstiréttur Íslands hefur í dómum sínum beitt Landnámabók sem sönnunargagni um frumstofnun eignarréttar. Þar sem merkjalýsing Landnámu er að mati réttarins glögg, er hún lögð til grundvallar eignatöku innan þeirra merkja sem þar koma fram. Ef merkjalýsing Landnámu er óglögg metur Hæstiréttur frásögn hennar þannig að land-svæði hafi alls ekki verið numið. Á það sérstaklega við, eða er a.m.k. því til stuðnings að mati Hæstaréttar, ef landsvæði hefur samkvæmt heimildum aðeins verið nýtt til sumarbeitar fyrir sauðfé, ef gróðurfar er þar fábrotið og ef landsvæði liggur fjarri byggð. Hæstiréttur hefur ennfremur gert þá kröfu í dómum sínum að jafnvel þó nám þrætulands teljist sannað verði aðili að sanna sérstaklega áframhaldandi tilvist og yfirfærslu hinna beinu eignarréttinda til dagsins í dag og verður það trauðla gert án þess að færa fyrir dóminn gildar eignarheimildir eða önnur skjalleg sönnunargögn. 3.2 Máldagar sem sönnunargagn Hæstiréttur hefur því sem næst hafnað sönnunargildi máldaga kirkjustofnana í málum sem snúast um eignarhald á landi utan byggðarmarka en sagnfræðingar eru almennt sammála um að máldagar séu mun traustari heimild en Landnáma. Máldagar hafa að geyma skrá yfir eignir kirkjustofnana bæði í löndum og lausum aurum en eru ekki eignarheimildir frekar en Landnáma. Leiða má líkum að því að gildar eignarheimildir hafi á sínum tíma verið grundvöllur skráninga í máldagabækur. Hér ber að hafa í huga að farið var að skrá máldaga allt að 100 árum áður en lögskylt var að bréfa landakaup. 4.0 Varðveisla skjallegra eignarheimilda Nú á dögum er varðveisla skjallegra yfirfærslugerninga að fasteignum almennt tryggð með þinglýsingu slíkra gerninga. Eitt hlutverk þinglýsingar er að tryggja að einfalt sé að sanna réttindi yfir eign en sönnun má tryggja með skráningu réttinda í opinberar bækur sem aðgengilegar eru almenningi. 4.1 Varðveisla löggerninga fyrir 1281 Með lögtöku Jónsbókar árið 1281 var gert lögskylt að bréfa landakaup. Á gildistíma Grágásar var þannig óskylt að bréfa fasteignaviðskipti og ennfremur óskylt að lýsa landakaupum á þingi. Upplýsingar um réttindi manna urðu að geymast í minni og munnlegri geymd áður en menn tóku að bréfa landakaup. Meðan aðilar landakaupa og vottar voru enn á lífi var sönnun einföld. Ekki er þó lögð á það mikil áhersla í Grágás að tryggja sönnun (varðveislu) á tilvist eignarheimildar eftir að upphaflegra aðila og votta naut ekki lengur við. Slíkar reglur voru þó til en tóku ekki til löggerninga um landakaup, heldur til löggerninga um stofnun veðréttar og forkaupsréttar að fasteign, en eftir að aðilar slíkra samninga og vottar að þeim voru látnir skyldi lýsa þeim þriðja hvert ár á þingi uns samningur væri úr gildi fallinn. 4.2 Varðveisla löggerninga eftir 1281 Þó svo sérstök ákvæði hafi verið í Jónsbók um þinglýsingu ákveðinna löggerninga og bréfun landakaupa skylda þá voru engin ákvæði í Jónsbók er mæltu fyrir um hvernig þinglýstum gerningum skyldi haldið til haga. Því sem lýst var á þingi hafa menn að því er virðist þurft að leggja á minnið allt þar til embætti alþingisskrifara var stofnað. Kaupbréfið sjálft hefur verið gert í tvíriti, sem hvor aðila um sig varðveitti. Embætti alþingisskrifara var fyrst sett á stofn árið 1593 en ekki hélst sú skipan til frambúðar. Embætti alþingisskrifara var stofnsett að nýju árið 1631 og stuðlaði það að því að það sem fram fór á Alþingi var fært til bókar. Voru þinglýsingar meðal þess sem þannig var fært til bókar. Lýsingar á héraðsþingunum var ekki byrjað að færa til bókar fyrr en síðar. Ekki voru skjöl þó færð orðrétt inn í bókina nema aðilar krefðust þess sérstaklega. Sérstaka þinglýsingabók er farið að halda á fyrri hluta 18. aldar og þinglýst skjöl skráð orðrétt í hana. Síðan er þinglýsingasagan nær samfelld fram á okkar daga. Þannig má vera ljóst að óraunhæft og ósanngjarnt er að gera þær kröfur til þeirra, sem telja til beins eignarréttar yfir fasteignum, að þeir færi fram skjallegar eignarheimildir fyrir rétti sínum sem sýni fram á óslitna tilvist og yfirfærslu hinna beinu eignarréttinda frá landnámi Íslands og til dagsins í dag. Hafi slíkir gerningar verið gerðir fyrir 1281 var óskylt að bréfa þá og varla telst óeðlilegt að aldagamlir skriflegir gerningar hafi glatast í ölduróti tímans þar sem reglur um varðveislu slíkra gerninga voru alls ekki til staðar. Upplýsinga og sannana um eignarréttarlega stöðu landsvæðis verður því almennt að leita annars staðar, t.a.m. í máldagabókum, en varðveisla þeirra og heimildagildi verður að teljast með ágætum. 5.0 Dómar héraðsdóms Suðurlands Málin vörðuðu bæði afréttarlönd í uppsveitum Árnessýslu en málavextir verða ekki raktir hér heldur verður einungis fjallað um mat dómsins á sönnunargildi Landnámu og máldaga kirkjustofnana auk atriða sem varða sönnun og sönnunarbyrði. Um Landnámu segir dómurinn: Aldur hennar [Landnámu] og óljós uppruni gerir það og að verkum að gildi hennar sem sönnunargagn í dómsmáli verður að telja mjög takmarkað hvað varðar stofnun eignarréttar… Þannig telur dómurinn engan veginn hægt að álykta að landsvæði hafi alls ekki verið numin, ef merkjalýsingu Landnámu er ábótavant eða hún óglögg. Þegar dómurinn fjallaði um eignarhald á afrétti norðan vatna var samanburður á sönnunargildi máldaga kirkjustofnana og Landnámu óhjákvæmilegur en í dóminum segir orðrétt: Enda þótt umrætt landssvæði liggi á miðju hálendinu, fjarri byggð og verulegum vafa sé undirorpið hvort, hvenær eða hvernig það hafi orðið háð einstaklingseignarrétti [numið], verður að líta til þess að allt frá 1331 var afrétturinn talinn eign fjögurra kirkna, samkvæmt framangreindum máldögum sem verulegt sönnunargildi eru taldir hafa um eignarréttindi [feitletrun höfundar] Niðurstaða dómsins um sönnunarbyrði er ennfremur afar athyglisverð en niðurstaða dómsins var sú að sönnunarbyrðin fyrir því að aldrei hafi verið stofnað til beins eignarréttar yfir afrétti norðan vatna, og að umræddar fjórar kirkjur hafi þar af leiðandi framselt sem þær hafi ekki átt, eigi að hvíla á stefnda. [þ.e. íslenska ríkinu] Þar sem íslenska ríkinu tókst hvorki að afsanna frumstofnum eignarréttar yfir landinu né afsanna tilvist beinna eignarréttinda og yfirfærslu þeirra í gegnum tíðina var stefnanda málsins dæmdur beinn eignarréttur að hinu umdeilda landsvæði. Dómar þessir eru afar athyglisverðir eins og áður hefur verið getið því dómurinn víkur frá venju Hæstaréttar um mat á sönnunargildi Landnámu annars vegar og máldögum hins vegar. Dómurinn varpar ennfremur sönnunarbyrðinni um eignarréttarlega stöðu landsvæðis af þeim sem telur til beins eignarréttar og í þessu tilfelli yfir á íslenska ríkið, sem brigður bar á eignatilkall viðkomandi. Niðurstöðu dómsins má túlka sem frávik frá almennum reglum en þó sanngjarna niðurstöðu því sönnun á upphaflegri eignatöku og áframhaldandi tilvist hinna beinu eignarrétttinda er eins og áður sagði afar erfið og oftar en ekki ómöguleg. 6.0 Um ójafna stöðu bænda- og kirkjujarða Máldagar eru til um flest lönd og jarðir sem einhvern tíma hafa verið í eigu kirkjustofnana. Eins og áður gat hafa máldagar verulegt sönnunargildi um eignarréttindi og álykta verður að þar sem textar Landnámu og máldaga rekast á eigi texti máldagans almennt að ráða. En hvað með jarðir sem fábreyttar heimildir eru um frá fyrri tíð, hvorki vísbendingu að fá í texta Landnámu né máldagabókum, kaupbréfum eða lögfestum, jarðir sem jafnan hafa verið í eigu bænda? Um mörk slíkra jarða er almennt lítið vitað, einkum ef land þeirra nær yfir stór svæði fjarri byggð. Oft er engum gögnum til að dreifa um mörk slíkra jarða fyrr en eftir setningu landamerkjalaga, árið 1882, er landeigendum var gert skylt að gera landamerkjabréf fyrir jarðir sínar. Sem dæmi um jörð af því tagi sem hér um ræðir má nefna Brú á Jökuldal. Samkvæmt landmerkjaskrá fyrir jörðina nr. 3/1894 er Brúarland allt land milli jökuláa, jökullinn landamerki í suðri, en lönd þriggja aðliggjandi jarða, Eiríksstaða, Hákonarstaða og Möðrudals, takmarka land Brúar að norðanverðu. Jökulsá skilur lönd jarðanna Brúar á Jökuldal og Um sönnun á eignar- haldi yfir landi og dóma í þjóðlendumálum eftir Friðbjörn Garðarsson hdl. Ágreiningur um landamerki og eignarhald á landi hefur jafnan verið snar þáttur í sögu deilumála á Íslandi. Um það vitna fjöldi dóma, lögfesta, vitnisburðarbréfa og sagna, sem varðveittar hafa verið frá fyrri tíð. Ljóst er að deilur af þessum toga hafa komið upp strax milli fyrstu landnámsmanna en óvíst hvernig slíkar deilur voru settar niður. Landnámabók greinir frá deilum hinna fjölkunnugu landnámsmanna Þrasa í Skógum og Loðmundar í Sólheimum. Jökulsá á Sólheimasandi skildi landnám þeirra en Þrasi virðist hafa ágirnst land Loðmundar því með fjölkynngi breytti hann farvegi árinnar þannig að hún rann öll austan Sólheima. Loðmundur svaraði að bragði og veitti ánni vestur fyrir Skóga. Magnaðist landamerkjadeila þessi svo að í þeim vatnagangi varð Sólheimasandr eins og segir í Þórðarbók Landnámu. Þó kom svo að þeir Loðmundur og Þrasi sættust á að áin skyldi falla til sjávar skemmstu leið frá upptökum sínum og settu hana þar niður. Hefur sú sætt vel haldist síðan og hefur áin lengi verið fjórðungamörk og skilur nú að Rangárvallasýslu og V- Skaftafellssýslu.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.