Bændablaðið - 06.07.2004, Blaðsíða 31

Bændablaðið - 06.07.2004, Blaðsíða 31
Þriðjudagur 6. júlí 2004 31 kirkjustaðarins Valþjófsstaðar í Fljótsdal (hér verður til einföldunar einungis rætt um lönd áðurnefndra tveggja jarða þó að löndum hafi verið skipt út úr landi þeirra í seinni tíð, t.a.m. í Hrafnkelsdal og á Brúardölum). Forvitnilegt er að bera saman gögn sem varða þessar tvær jarðir m.t.t. sönnunar á beinum eignarrétti. Land Valþjófsstaðar náði a.m.k. yfir tvö landnám, en það voru landnám þeirra Brynjólfs hins gamla og Hrafnkels Hrafnssonar. Í Landnámu segir að Brynjólfur hinn gamli hafi numið Fljótsdal allan fyrir ofan Hengiforsá fyrir vestan, en fyrir ofan Gilsá fyrir austan ok Skriðdal allan ok Völluna út til Eyvindarár…Um landnám Hrafkels Hrafnssonar segir í Landnámu: Síðan nam Hrafnkell Hrafnkelsdal ok bjó á Steinröðarstöðum. Ekki er alveg ljóst hvenær Valþjófsstaður eignaðist Hrafnkelsdal en eins og sýnt er á kortinu hér að neðan, sem tekið er úr ritinu Byggðaleifar í Hrafnkelsdal og á Brúardölum eftir Sveinbjörn Rafnsson, var allt skástrikaða svæðið eign kirkjunnar á Valþjófsstað, skv. máldögum frá 14., 15. og 16. öld. Hvernig kirkjunni áskotnaðist eignarráð yfir Vestur-Öræfum skal ósagt látið en óljós frásögn Landnámu getur ekki suðurmarka landnáms Brynjólfs hins gamla þótt líklegt megi telja að jökullinn hafi ráðið landamerkjum landnámsins að sunnan, eins og eðlilegt verður að teljast miðað við legu landsins og skráningar í máldaga staðfesta. Land Brúar er sennilega í landnámi Hákonar, sem skv. frásögn Landnámu nam Jökuldal allan fyrir vestan Jökulsá ok fyrir ofan Teigará ok bjó á Hákonarstöðum. Ekkert er hægt að ráða af þessari lýsingu Landnámu um mörk landnámsins til suðurs og vesturs. Sennilegt er þó að jökullinn hafi ráðið að sunnanverðu, enda ber hann nú nafnið Brúarjökull og dregur nafn sitt af bænum. Nafnið er þó ungt og kemur ekki fyrir í skriflegum heimildum svo höfundi sé kunnugt um fyrr en 1794 í skrifum Sveins Pálssonar. Skriflegar heimildir um land Brúar eru afar fáskrúðugar fyrr en á síðari hluta 19. aldar eins og áður var getið. Brúar er fyrst getið í ritheimildum í máldaga kirkjunnar á Möðrudal frá árinu 1493 en Brúarmenn áttu þangað kirkju að sækja. Brúar er næst getið í fornum skjölum árið 1544 en þá var kveðinn upp dómur vegna deilu kirkjunnar og Bjarna Erlendssonar um eignarhald á jörðinni. Í dóminum segir: Lýsti Bjarni bóndi þessa jörð sína eign hver eð honum var goldin í mála konu sinnar Guðríðar Þorsteinsdóttur af hennar föður og haldið lengi áklögunarlaust. En biskup Ögmundur hafði látið dóm á ganga og að sér tekið jörðina eftir því hann hljóðar og þeim bréfum sem hann hafði af síra Sigmundi Guðmundssyni og þar komu fram fyrir oss et cetera. Því í nafni drottins amen að svo prófuðu og fyrir oss komnu dæmdum vér með fullu dóms atkvæði herra Gizur [biskup] skyldugan Dómkirkjunnar vegna að leggja fram innsiglað kaupbréf það að síra Sigmundur hefði hana selt biskup Ögmundi að lögum. Sömuleiðis dóm innsiglaðan og láta hvort tveggja komið austur í Vallanes að krossmessu í vor að forfallalausu. En komi ekki þessi áðurgreind skilríki í nefndan tíma þá dæmdum vér áðurskrifaða jörð Brú óbrigðanlega eign Bjarna bónda Erlendssonar og hans kvinnu... Ekki virðast klerkar hafa náð að færa sönnur á eignatilkall sitt, enda komst jörðin Brú aldrei í eigu kirkjunnar. Þegar myndin hér að framan er skoðuð og gert ráð fyrir því að skástrikaða svæðið sé allt undirorpið beinum eignarrétti, enda ríkulegar heimildir um það í máldögum, má það furðu sæta ef bornar eru brigður á beinan eignarrétt Brúarbænda að landinu hinum megin árinnar þótt heimildir skorti frá fyrri tíð. Hafa verður í huga að nýting lands var nákvæmlega sú sama hvort sem leikmenn eða lærðir voru eigendur jarða. Hafa forsvarsmenn kirkjunnar á Valþjófsstað nýtt hið skástrikaða svæði á kortinu og talið til eignar yfir hvort sem landið var upphaflega innan landnáms Brynjólfs hins gamla eða annars landnámsmanns, komst á forræði kirkjunnar fyrir kaup, erfðir eða gjöf, þó auðvitað liggi eignarheimildir ekki fyrir frekar en fyrri daginn. Sama á við hinum megin árinnar í landi Brúar, fráleitt er að halda því fram að beinn eignarréttur Brúarbænda nái skemmra en að jöklinum í suðri, enda hafa Brúarbændur nýtt þar landið um ómunatíð. 7.0 Lokaorð Það er álit þess sem þetta ritar að niðurstaða héraðsdóms Suðurlands í fyrrgreindum dómum sé eðlileg og sanngjörn miðað við þær heimildir sem fyrir lágu og færðar voru fyrir dóminn. Héraðsdómur Suðurlands hefur þannig rétt hlut landeigenda í þjóðlendumálum þannig að íslenska ríkið verður að afsanna að ákveðið landsvæði hafi verið numið á landnámsöld í það minnsta ef texti Landnámu er óskýr þar um, íslenska ríkið verður og samkvæmt dóminum að afsanna áframhaldandi tilvist beinna eignarréttinda ef slíkum rétti er haldið fram. Auk þess réttir dómurinn hlut máldaga kirkjustofnana, sem mjög hafa fallið í skuggann af Landnámu í meðförum réttarins algerlega að ósekju. Hvað varðar þau landsvæði sem engar eða fáar heimildir eru um, t.a.m. Brúarland, má ætla að sama gildi, þ.e. að sönnunarbyrðin hvíli á íslenska ríkinu í málum sem rísa á grundvelli þjóðlendulaga. Athyglisvert er að bera saman dóma héraðsdóms Suðurlands og dóminn forna frá 1544 með hliðsjón af því hvor aðilanna bar sönnunarbyrðina. Í öllum tilfellum eru bornar brigður á eignarráð yfir tilteknum landsvæðum, en sönnunarbyrðin lögð á þann aðila sem brigðar, ef svo má að orði komast. Höfundur er lögmaður hjá Regula-lögmannsstofu á Egilsstöðum. Á bænum Stóragerði í Skaga- firði var á dögunum formlega opnað samgönguminjasafn. Við það tækifæri var einnig hluti af 600 fermetra húsnæði safnsins tekinn í notkun. Safnið er í einkaeign. Aðaleigendur þess eru hjónin Gunnar Þórðarson og Sólveig Jónasdóttir en einnig eiga foreldrar Gunnars, þau Þórður Eyjólfsson og Þórey Jó- hannsdóttir, nokkuð af þeim farartækjum sem á safninu eru. Á safninu eru bæði dráttarvélar og bílar af ýmsum stærðum m.a. vörubifreiðar. Tækin eiga það sameiginlegt að vera öll komin vel til ára sinna en þeir feðgar hafa haft upp á þeim víða um land í æði misjöfnu ástandi en með mikilli vinnu tekist að gera þau sem ný væru hvað útlit snertir. Gunnar sagði í samtali við fréttamann að þetta hefði í raun- inni byrjað þegar hann var að læra bifvélavirkjun á Sleitustöðum fyrir liðlega 30 árum. Þá hefði hann farið að halda ýmsum gömlum tækjum til haga og síðar farið að gera þau upp. Svo hefði þetta undið smátt og smátt upp á sig. Gunnar og fjölskylda hafa búið á Sauðárkróki um árabil en eru mestan hluta sumarsins í Stóra- gerði. Þau byggðu hluta af hús- næði safnsins árið 1998 en lengdu svo húsið um 20 metra á síðasta ári og þá var einnig byggt við það aðstöðuhús með snyrtingu o.fl. með móttöku á ferðamönnum í huga. Elstu tækin á safninu eru bifreið árgerð 1930 og af traktor- unum er elstur International MC Cormic árgerð 1947 en þarna er marga öðlinga að finna. Á öllum bílum er miði með eigendasögu hvers og eins . Að sögn Gunnars komu hátt í fimm hundruð manns að Stóragerði helgina sem safnið var opnað og auk þess að skoða vélar og bíla var öllum gestum við opnunina boðið að þiggja veit- ingar. Safnið mun svo verða opið í sumar frá 14-18 flesta daga, síminn er 845 7400. Það var sveitarstjórinn, Ársæll Guðmundsson, sem formlega opnaði safnið . Í ræðu við það til- efni bað hann fólk að hugleiða alla þá natni og vinnu sem þarna hefði verið innt af hendi við að bjarga menningarverðmætum frá eyði- leggingu./ÖÞ. Slík er heyskapartæknin orðin að bændur ljúka heyskap á innan við viku ef tíðin er góð. Þannig var það hjá Sveini Ingvarssyni, bónda í Reykjahlíð á Skeiðum. Hann var að safna saman heyrúllum og flytja heim þegar okkur bar að garði. Þetta var þriðjudaginn 22. júní. Hann sagðist hafa byrjað að slá 17. júní og lauk við heyskap mánudaginn 21. júní. Sveinn er með á milli 40 og 50 kýr í fjósi og 212 þúsund lítra framleiðslurétt af mjólk. Sveinn sagðist sjaldan hafa byrjað að slá svona snemma og heyskapurinn aldrei tekið svona skamman tíma. Hann segist hafa lokið heyskap fyrir mánaðamótin júní/júlí í fyrra en þá byrjaði hann síðar en í ár. Tíðin hefur verið með eindæmum góð undanfarið, þurrkur upp á hvern dag og hann sagðist því hafa tekið áhættu með að slá öll túnin í einu. Það skiptir líka máli í þessu sambandi að Sveinn er ekki með neina túnspildu sem er styttri en 600 metrar og svona stórar spildur eru mjög hagkvæmar í vinnslu. Hann segist líka vera með mjög góð heyskapartæki og þau gera það mögulegt að slá, rúlla upp og plasta á svona skömmum tíma. ,,Aftur á móti er ekki góð nýting á þessum tækjum því ég nota þau aðeins 3 til 4 daga á ári en um það þýðir ekki að tala því án þeirra er ekki hægt að vera," sagði Sveinn. Hann segist muna þá tíð þegar dráttarvélar voru að koma á hvern bæ og segir tækniþróunina síðan þá varðandi heyskap vera ,,ævin- týralega byltingu" og þá ekki síst rúllutæknina. Hún gerir mönnum kleift að vinna svona hratt, með gamla laginu hefði það aldrei tekist. Rúllutæknin gefur kost á því að hirða heyið við mismunandi þurrkstig og segist Sveinn gjarnan vilja hafa mismunandi þurrkstig á sínu heyi. En hvernig sem á málið er litið á heyskapur nú á dögum lítið skylt við heyskap eins og hann var fyrir svo sem 20 til 30 árum, þökk sé tækni- byltingunni. Sveinn Ingvarsson, bóndi í Reykjahlíð í Skeiða- og Gnúpverjahreppi Lauk heyskapnum á fimm dögum Sveinn Ingvarsson og sonur hans Ingvar Hersir. Eigendur safnsins í Stóragerði: Sólveig, Gunnar, Þórður og Þórey. Milli þeirra er dráttarvél af gerðinni Farmall A en aftar sér í International árgerð 1947. Á forsíðu blaðsins má sjá Þórð við gamlan Villysjeppa sem búið er að gera upp. Bændablaðið/Örn Nýtt og glæsilegt samgönguminjasafn

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.